Um ávinninginn af ESB aðild
Ritstjórnargrein í júní 2002
Mikið hefur verið rætt og ritað um kostnaðinn af ESB aðild. Margir hafa talið að aðildargjöldin, sem Íslenska ríkið kemur til með að greiða til ESB, séu það sem málið snýst um. Því fer fjarri. Til að leiðrétta þann misskilning er nauðsynlegt að leggja heildarmat á ávinninginn af ESB aðild þótt hann sé vissulega háður óvissuatriðum.
Sameiginleg mynt eykur hagvöxt
Í frægri grein hagfræðinganna Jeffrey Frankel og Andrew Rose kemur fram að ríki, sem hafa tekið upp sameiginlega mynt, þrefölduðu útflutning sinn til ríkja á myntsvæðinu og juku hagvöxt varanlega.1) Mælingar Frankel og Rose benda til þess að eins prósentustigs vöxtur í útflutningi hækkar hagvöxt á mann sem nemur 0.3 prósentustigum. Niðurstaða þeirra er því sú að umtalsverð jákvæð áhrif fylgja aðild að sameiginlegu myntsvæði.
Meginástæðan fyrir þessum áhrifum er sú að sameiginleg mynt eyðir gengisáhættu, auðveldar verðsamanburð, eykur samkeppni og dregur úr ýmsum kostnaði. Slíkt bætir stöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og stuðlar að meiri útflutningi. Lægri vextir hafa jafnframt hvetjandi áhrif á fjárfestingar. Allt leggst þetta á eitt um að auka hagvöxt.
Þetta er í samræmi við hið langa og þaulhugsaða ferli ESB ríkjanna að taka upp sameiginlega mynt, sem lyktaði með því að evran var tekin í umferð í tólf ríkjum ESB í ársbyrjun 2002. Sú breyting tókst vonum framar. Nýlegar skoðanakannanir benda til að meirihluti almennings í Svíþjóð og Danmörku vilji taka upp evruna. Breska ríkisstjórnin er að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna á næsta ári. Ástæðnanna er að leita í því hagræði sem fylgir evrunni sem stuðlar að auknum hagvexti.
Fleiri jákvæðir þættir við aðild
Jákvæð hagvaxtaráhrif af ESB aðild eru einnig fyrirsjáanleg í tengslum við þær víðtæku breytingar sem nú eiga sér stað í stofnanagerð hagkerfa aðildarlandanna og auka hagræði á svæðinu í heild. Til dæmis eru ESB löndin að samræma fjármálakerfi sín og skattlega meðferð af starfsemi fyrirtækja sem starfa á svæðinu í heild. Flest rök benda til að slík samræming hafi jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækjanna og auki hagkvæmni á svæðinu. Þó er ekki verið að samræma skattlagningu innan einstakra landa og því eru skattar innan ESB til dæmis lægstir á Írlandi en hæstir í Svíþjóð.
Þá hefur hin sameiginlega efnahags- og peningastjórn, sem byggist á Sáttmálanum um stöðugleika og hagvöxt og tekur sérstakt tillit til aðstæðna heima fyrir, leitt til aukins stöðugleika í efnahags- og fjármálum bæði í einstökum löndum og á svæðinu í heild. Ef hægir á eftirspurn í einu landi myntsvæðis er reynslan sú að sterk eftirspurn annars staðar jafni út sveifluna. Slíkra áhrifa gætir einnig í fjármálakerfinu. Þegar fjármálakreppa geisaði í heimsbyggðinni árið 1998 hélst vaxtastigið stöðugt í Finnlandi sem þá var aðili að myntbandalaginu. Á sama tíma ruku vextir upp í Noregi og Svíþjóð, með auknum kostnaði fyrir fyrirtæki og almenning. Aðalsmerki evrunnar er því stöðugleiki sem birtist í lágu vaxtaálagi, jafnvel þegar á móti blæs.
Merkilegur árangur ESB þjóðanna
Þessar rannsóknir og röksemdafærslur eru í fullu samræmi við reynslu ESB þjóðanna. Eins og myndin sýnir hefur hlutfall útflutnings af landsframleiðslu ESB ríkjanna nær tvöfaldast á síðustu þremur áratugum. Glæsilegur árangur minni aðildarríkjanna er áberandi í samanburði við Ísland og Noreg, en útflutningur þeirra stóð í stað og hagkerfi þeirra opnuðu sig ekki að ráði. Því er rökrétt að álykta að ESB aðild og upptaka evrunnar hafi einnig umtalsverð jákvæð áhrif hér á landi.
Ávinningurinn af ESB aðild
Samkvæmt útreikningum SI gæti kostnaður í hagkerfinu lækkað um allt að 44 milljarða við inngöngu í ESB og upptöku evrunnar. Þar kemur fram að aðildargjöldin eru bara einn þáttur af mörgum í heildarmyndinni. Áætlað er að víðtæk lækkun á verði vöru og þjónustu, þ.á.m. vöxtum í bankakerfinu, auki hagvöxt varanlega um 0,4% ári vegna meiri fjárfestingar og útflutnings. Ef þetta hóflega mat gengur eftir mun ESB aðild auka þjóðartekjur um allt að 60 milljarða á næstu tveimur áratugum. Sjá nánar ?Um áhrif evrunnar á hagvöxt á Íslandi".
Þörf á þjóðarsátt
Til að stuðla að upplýstri umræðu um kosti og galla ESB aðildar og evrunnar hefur verið gerð tilraun til að leggja heildstætt mat á áhrif þeirra á hagvöxt. Hér er um nokkra getspá að ræða en vonandi heldur sú athugun áfram. Brýnt er að sem flestir hagsmunaðilar komi að þeirri vinnu þannig að þjóðarsátt geti náðst um niðurstöðuna. Vel ígrunduð niðurstaða um efnahagsleg áhrif ESB aðildar og evrunnar auðveldar okkur að taka skynsamlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli.
1) Jeffrey Frankel og Andrew Rose,"An Estimate of the Effect of Common Currencies on Trade and Income," Quarterly Journal of Economics, maí 2002.
Þorsteinn Þorgeirsson