Kenningar um kosti hárra vaxta
Ritstjórnargrein í maí 2002
Sá sem þetta skrifar hefur verið og er enn þeirrar skoðunar að það sé fyrirtækjum og heimilum þessa lands afar þungbært að greiða langtímum saman mun hærri vexti en fyrirtæki og heimili nágrannalandanna þurfa að greiða.
Undanfarin misseri hafa þessir vextir ekki einasta verið hærri en í nágrannalöndunum heldur tvöfalt hærra. Óskiljanlegt er hvernig atvinnurekstur okkar á að geta risið undir tvö- til þreföldum vaxtakostnaði keppinautanna í opinni og óheftri samkeppni. Hnattvæðingarnefnd hefur áætlað að vaxtagreiðslur fyrirtækja og heimila í landinu yrðu til lengdar á að giska 15 milljörðum króna lægri á ári ef Íslendingar tækju upp evru í stað íslenskrar krónu og er þá ekki tekið tillit til aukins vaxtakostnaðar vegna meiri verðbólgu hér á landi. Augljóst er að undanfarið hefur þessi munur verið miklu hærri tala, því að hvert prósentustig sem munar kostar íslenska skuldara um 11 milljarða króna á ári. Að undanförnu hafa tvenns konar rök verið færð fram fyrir því að þessi mikli munur á vöxtum hér og á evrusvæðinu sé í raun alls ekki slæmur og jafnvel nauðsynlegur.
Rök fyrir háum vöxtum
Mest áberandi eru þau rök að við þurfum nú um stundir að sætta okkur við nokkru hærri vexti en nágrannalöndin. Ástæðan sé sú að hér hafi verið svo mikill hagvöxtur að vart finnist dæmi um annað eins. Því miður hafi góðærið óvænt og tímabundið farið úr böndunum og nú þurfum við að sætta okkur við háa vexti um hríð til að bregðast við þessum vanda. Við séum að berjast við of mikinn hagvöxt en ESB löndin séu hins vegar að reyna að sparka í gang einhverjum hagvexti enda sé ekki vanþörf á.
Falsrök
Við Íslendingar erum engir Evrópumeistarar og þaðan af síður heimsmeistarar í hagvexti þó að íslenskir stjórnmálamenn séu iðnir við að fara með slíkt fleipur. Smæstu ríki ESB eins og Finnland, Írland og Luxemborg hafa búið við meiri hagvöxt en við undanfarin ár. Hagvöxtur þessara þjóða byggist þar að auki á traustum grunni og stórauknum utanríkisviðskiptum en okkar hagvöxtur hefur hins vegar að miklu leyti byggst á aukinni neyslu sem fjármögnuð hefur verið með erlendum lánum. Vextir hér á landi hafa allar götur síðan 1994 verið mun hærri en á evrusvæðinu og bilið hefur sífellt farið breikkandi. Enn er verið að berja á þenslunni með ofurvöxtum þó að hvergi í Evrópu sé spáð minni hagvexti í ár en hér á landi eða -0,5%.
Íslenska krónan er vandamál
Niðurstaðan er sem sé sú að margar smáþjóðir í Evrópu hafa búið við svipaðan eða meiri hagvöxt en við án þess að þurfa að ganga í gegnum þær hremmingar gengisfellinga og ofurvaxta sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa þurft að þola. Þessir vextir og gengissveiflurnar drepa niður sjálfbæran hagvöxt. Þetta er heimatilbúinn vandi sem að miklu leyti stafar af þeirri ógæfu okkar að burðast með handónýta mynt. Íslenska krónan veldur sveiflum en er ekki nauðsynlegt tæki til þess að bregðast við þeim.
Gott fyrir sparifjáreigendur!
Að undanförnu hafa bankamenn geyst fram á völlinn með þau rök að við Íslendingar værum engu bættari með því að taka upp evru þó að íslenskir skuldarar greiddu u.þ.b. 15 milljörðum króna minna í vexti af lánunum sínum. Vaxtatekjur sparifjáreigenda minnkuðu þá bara um sömu fjárhæð. Menn í æðstu stjórnunarstöðum í stærstu bönkum landsmanna hafa bæði í ræðu og riti haldið því blákalt fram að í raun skipti engu máli hverjir innlendir vextir séu því að einungis sé um að ræða færslu milli sparifjáreigenda og lántakenda. Ekkert er minnst á þá staðreynd að háir vextir draga úr fjárfestingum og þar með hagvexti og hár fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja bitnar á samkeppnisstöðu þeirra. Varla hjálpar það sparifjáreigendum eða lífeyrissjóðum. Ekki er heldur nefndur til sögunnar vaxtamunur inn- og útlána í íslenska bankakerfinu sem er mjög umtalsverður og hefur hvorki verið föst stærð né hverfandi lítill. Þvert á móti hafa bankarnir notað tækifærið og stóraukið vaxtamun í skjóli fákeppni og hárra grunnvaxta.
Álagningin hækkar í skjóli fákeppni
Þegar eftirspurnin er mikil, samkeppnin lítil og innkaupsverðið hátt og sveiflukennt á kaupmaðurinn auðvelt með að hækka álagninguna og sama gildir um bankana sem hafa makað krókinn ótæpilega að undanförnu. Þegar bent er á Íslandsmet í hagnaði tala þeir um hagræðingu í rekstri þótt að allir sjái að skýringin er hækkað vaxtaálag og ekkert annað. Vaxtaálag á endurlánað erlent lánsfé er hins vegar miklum mun minna en álag á innlent lánsfé.
Samkeppni og alvöru mynt breyta stöðunni
En hvernig stendur á þessu mismikla vaxtaálagi? Skýringin er tvíþætt. Á heimamarkaði hnoðast bankarnir óáreittir í fákeppni en það er að minnsta kosti samkeppni um stærstu lántakendur að endurlánuðu erlendu lánsfé og þess vegna er vaxtaálagið þar ekki jafn gegndarlaust. Það vantar sárlega meiri samkeppni á innlendan fjármagnsmarkað þar sem heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki sækja sín lán. Sú samkeppni kemur ekki utanfrá á meðan við höldum í krónuna. Í öðru lagi er í viðskiptum með endurlánað erlent lánsfé verið að höndla með nothæfar myntir sem uppfylla þau grunnskilyrði að vera bókhaldseiningar (unit of account), verðmætageymsla (store of value) og gjaldmiðill í alþjóðlegum viðskiptum (medium of exchange). Ekkert af þessu uppfyllir íslenska krónan og áhættuálagið af því að eiga íslenskar krónur og lána þær er þess vegna ótæpilegt. Þess vegna þarf um alla framtíð að greiða miklu hærra vexti af lánum í þeirri mynt. Íslenskir sparifjáreigendur eru þó alls ekki betur settir en amerískir eða þýskir sparifjáreigendur. Það tapa allir á því að nota ónýta peninga nema íslensku bankarnir að því er virðist.
Sveinn Hannesson