Stuðningur við tækniþróun og vísindi

Ritstjórnargrein í mars-apríl 2002

1. mar. 2002

Um þessar mundir eru þrjú frumvörp til afgreiðslu á Alþingi: Í fyrsta lagi um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, annað um Vísinda- og tækniráð og það þriðja um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Um þessar mundir eru þrjú frumvörp til afgreiðslu á Alþingi: Í fyrsta lagi um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, annað um Vísinda- og tækniráð og það þriðja um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Forsagan
Ráðið hefur fram að þessu verið skipað að jöfnu af fulltrúum atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana. Undir Rannís hafa heyrt tveir sjóðir Vísinda- og Tæknisjóður. Segja má að háskólamenn hafi að mestu setið að styrkveitingum frá Vísindasjóði og þar hefur megináherslan verið lögð á grunnrannsóknir. Rannsóknastofnanir og fyrirtæki hafa sótt meira til Tæknisjóðs þar sem áherslan hefur verið meira á hagnýtar rannsóknir en að litlu leyti vöruþróunar og markaðsstarf, sem á mjög undir högg að sækja þegar styrkumsóknir eru metnar.

Stefnumótun á hærra plan
Nú á að verða hér breyting á. Hún er að hluta fólgin í því að færa yfirstjórn þessara mála upp á hærra plan en verið hefur. Yfirstjórnin á nú að vera í höndum ríkisstjórnar með örlítilli þátttöku atvinnulífs og háskólastofnana. Flestir í atvinnulífinu hafa stutt þessa breytingu í trausti þess að við séum komin svo langt á þróunarbrautinni að úrelt sé að atvinnulíf, háskólar og rannsóknarstofnanir bítist um áherslur og aura inni í Rannsóknarráði. Nútímalegra sé að ríkisstjórnin leggi línurnar varðandi heildarfjárveitingar til þessara mála og almenna stefnu í rannsóknum og þróunarstarfi. Síðan sé fjármunum ráðstafað á grundvelli umsókna á jafnréttisgrundvelli. Enginn hefur látið sér til hugar koma að ríkisstjórnin eigi að velja verkefni og úthluta fjármunum.

Meira fé til grunnrannsókna
Ætlunin er að sameina Vísinda- og Tæknisjóð og beina því fjármagni sem þar hefur verið til grunnrannsókna og menntunar ungra vísindamanna eða með öðrum orðum til háskólanna. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert og vissulega er þörf á að bæta hvort tveggja, launakjör háskólakennara og æðri menntun, ekki síst á sviði verk- og tæknimenntunar.

Geta fyrirtækin ekki séð um sig sjálf?
En hvert eiga rannsóknastofnanir og fyrirtæki að leita stuðnings við sitt rannsókna- og þróunarstarf? Undanfarin ár hefur Tæknisjóður haft til ráðstöfunar um 200 millj.kr. á ári sem úthlutað hefur verið til fjölda verkefna svo að þar hefur verið þunnt smurt og svo mjög að mörg fyrirtæki telja vart ómaksins vert að leita eftir þeim stuðningi. Á sama tíma hafa fyrirtækin sjálf aukið eigin rannsókna- og þróunastarf til muna og svo mjög að við höfum færst upp um mörg sæti að þessu leyti í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Af þessu hafa menn greinilega dregið þá ályktun að atvinnulífið sé orðið sjálfbjarga að þessu leyti og tímabært að það standi á eigin fótum.

Hér er ekki allt sem sýnist
Færri umsóknir frá fyrirtækum og aukin umsvif þeirra geta vissulega bent til þess að atvinnulífið sé orðið sjálfbjarga á þessu sviði. En er það svo? Hvað fyrirtækin varðar vega mikil umsvif Íslenskrar erfðagreiningar mjög þungt fyrir landið í heild. Á sama hátt breytti nýtt hafrannsóknaskip tölunum verulega hvað varðar framlög til rannsóknastofnana. Vissulega hafa mörg stærri fyrirtæki varið meira fé úr eigin rekstri til þessara mála í góðærinu en víða hefur því miður slegið snögglega í bakseglin síðustu misseri. Undanfarin ár hafa mörg sprotafyrirtæki, einkum á sviði upplýsingatækni, átt greiðari aðgang að áhættufé en nokkru sinni fyrr. Með hruni hlutabréfamarkaða innanlands og utan hefur hér einnig orðið mikil breyting á. Hætt er við að jafnvel vænlegustu sprotarnir muni visna og deyja þar sem allar peningauppsprettur þeirra hafa skyndilega þornað upp.

Ótímabær breyting
Við þessar aðstæður er meira en lítið vafasamt að einmitt nú sé rétti tíminn til að loka fyrir fjárstreymi til rannsókna- og þróunarstarfs hjá fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum sem þeim þjóna. Nú kann einhver að spyrja hvort ekki sé vel fyrir atvinnulífinu séð með stofnun nýs sjóðs, Tækniþróunarsjóðs, sem gert er ráð fyrir að taki við hlutverki Tæknisjóðs. Gallinn er bara sá að ekkert liggur fyrir um hvort þessi nýi sjóður fær nokkurt fjármagn til ráðstöfunar og verður því eins og fallegur en vatnslaus lækjarfarvegur. Við þetta hafa samtök atvinnurekenda SI og SA gert alvarlegar athugasemdir í sameiginlegri umsögn um frumvörpin. Þar er farið fram á að til þessara mála verði varið 800 - 1.000 milljónum á ári til að byrja með sem ráðstafað verði eftir mótaðri stefnu og á samkeppnisgrundvelli. Satt að segja virðast þessar tillögur afar hógværar í ljósi nýrra tillagna ríkisstjórnarinnar um sértækar aðgerðir á sviði lyfjaþróunar sem ekki eiga sér nokkra hliðstæðu í sögu lýðveldisins.

Vinnubrögðin
Ekki verður skilið svo við þetta mál að ekki sé gert að umtalsefni hvernig þessa breytingu alla ber að. Ekkert samráð hefur verið haft við þá aðila sem staðið hafa að Rannsóknarráði og tekið þátt í sjálfboðastarfi á þess vegum t.d. í fagráðum. Engin stefnumótun hefur farið fram um það hver sé tilgangurinn með þessum breytingum. Loks tekur svo að venju steininn úr þegar frumvörpunum er skutlað inn til afgreiðslu á Alþingi. Þar ríkir hefðbundið tímahrak þar sem hvorki gefst eðlilegur tími til að leita umsagna né ræða við þá sem málið varðar enda liggur þingmönnum á að komast heim áður en sauðburður hefst.

Sveinn Hannesson