Hver er sinnar gæfu smiður
Ritstjórnargrein í febrúar 2002 rtitill
Undirrituðum barst nýlega í hendur eintak af skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, World Economic Outlook, þar sem dregið er saman yfirlit um ástand og horfur í efnahagsmálum heimsins. Þar má sjá að við Íslendingar erum aftur komnir í þá afleitu stöðu að skera okkur úr með meiri verðbólgu en í nokkru öðru þróuðu landi. Á hinn bóginn er hvergi minna atvinnuleysi þótt víða hafi dregið mjög úr því, ekki síst í smærri ríkjum Evrópu. Verstu fréttirnar eru þær að hvergi, nema í Japan, eru horfur á hagvexti á þessu ári lakari en hér og hvergi eru vextir hærri en á Íslandi.
Grundvöllur hagvaxtar
Undanfarin ár hefur hagvöxtur hér á landi verið umtalsverður, þótt hann hafi fráleitt verið með eindæmum eins og stundum er haldið fram. Tölur sýna að hagvöxtur í smáríkjum ESB eins og Luxemborg, Írlandi og Finnlandi hefur verið enn meiri undanfarin 5 ár. Hitt er öllu lakara að hagvöxtur þessara landa er af allt öðrum toga en hér á landi. Aukin neysla, bæði samneysla og einkaneysla, hefur hér valdið mikilli þenslu sem birtist í viðskiptahalla, verðbólgu og skuldasöfnun. Hjá okkur hefur hlutfall milliríkjaviðskipta af landsframleiðslu staðið í stað á meðan það hefur vaxið hröðum skrefum í þeim smáríkjum Evrópu sem búið hafa við mestan hagvöxt undanfarin ár. Þar er alþjóðavæðingin mun hraðari en hjá okkur.
Iðn- og tæknimenntun er hornreka
Tölvu- og hátækniiðnaður hefur vissulega vaxið hér hröðum skrefum undanfarin ár en það er hins vegar alls ekki rétt að við skerum okkur úr hvað það varðar. Við stöndum framarlega hvað varðar notkun tækninnar en í framleiðslu erum við því miður eftirbátar annarra. Við viljum raunar líka telja okkur það til tekna að við séum ákaflega vel menntuð og vinnusöm þjóð en í alþjóðlegum samanburði er ekki að sjá að nokkur fótur sé fyrir þeim fullyrðingum. Háskólamenntuðum hefur að vísu fjölgað nokkuð undanfarinn áratug en starfs- og framhaldsmenntuðu fólki fer fækkandi að sama skapi. Iðn- og tæknimenntun er hornreka í menntakerfi okkar. Það vita og viðurkenna flestir sem til þekkja. Ófaglært fólk með grunnmenntun er yfir 40% af vinnuaflinu og það hlutfall fer hækkandi. Við byggjum ekki upp tæknivæddan iðnað án þess að mennta fólk til starfa þar.
Dýrkeyptar sérþarfir Íslendinga
Það er umhugsunarefni hvort við sem smáþjóð séum dæmd til þess að búa við frumstæða frumvinnslu og eilífar sveiflur í efnahagsmálum. Margir vilja trúa því að svo sé og þess vegna þurfum við að byggja á „undirstöðugreinum“ okkar og hafa eigin mynt, sem við greiðum dýru verði í óstöðugu gengi og miklu hærri vöxtum en hjá keppinautunum. Það er dýrt að vera lítill og með endalausar sérþarfir.
Það er reyndar svo að flest eða öll skref, sem stigin hafa verið í þá átt að samræma starfsskilyrðin því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, hafa þegar til kastanna kemur orðið til góðs. Það tekur okkur Íslendinga hins vegar áratugi að koma þessum breytingum í verk. Við erum enn að velkjast með vörugjöld sem flest Evrópuríki hafa afnumið. Það tók okkur áratugi að breyta söluskatti í virðisaukaskatt. Við bjuggum við gjaldeyrishöft og takmarkanir á fjárfestingum lengur en nokkur önnur þjóð í V-Evrópu og þannig mætti lengi telja. Stærstu skrefin í framfaraátt hafa einmitt verið stigin með alþjóðlegum samningum, einkum EES-samningnum, þar sem þrýstingur á breytingar kemur utanfrá. Við spyrnum að vanda á móti og þessum breytingum er formælt hátt og í hljóði en oftar en ekki sjáum við að við getum ekki aðeins lifað við sömu reglur og aðrir heldur henta þær okkur ágætlega.
Hentar okkur það sama og öðrum?
Það er ánægjulegt að sjá í nýbirtri skoðanakönnun PricewaterhouseCoopers nú í vikunni að íslenska þjóðin trúir því ekki lengur að okkur henti eitthvað allt annað en öðrum Evrópuþjóðum. Tveir af hverjum þrem segjast vilja hefja viðræður við Evrópusambandið um aðild að því. Þetta er stórmerkileg niðurstaða í ljósi þess að enginn stjórnmálaflokkur hefur þessa stefnu og raunar nota sumir forystumenn þeirra hvert tækifæri til að básúna ókosti aðildar, áhrifaleysi og framsal fullveldis.
Þjóðin trúir því greinilega ekki lengur að okkur henti eitthvað allt annað en öðrum Evrópubúum. Menn sjá að smáþjóðir eins og Danir, Írar og Finnar eru ekki sviptar fullveldi sínu og þaðan af síður er lífsbjörgin frá þeim tekin. Þvert á móti hagnast þessar þjóðir mest allra á skýrum leikreglum, samkeppni og alþjóðavæðingu sem byggist á hindrunarlausum viðskiptum á innri markaði EES – svæðisins og hagstæðum samningum við önnur markaðssvæði í heiminum. Þessar þjóðir vinna markvisst að því að bæta iðn- og tæknimenntun, tæknivæða framleiðsluna og auka útflutning. Okkur hentar það sama og þeim.
Sveinn Hannesson