Okkur hentar það sama
Ritstjórnargrein í janúar 2002
Undanfarin ár hafa verið lengsta hagvaxtarskeið í sögu íslenska lýðveldisins. Nú þegar illilega hefur slegið í bakseglin er von að spurt sé hvað hafi farið úrskeiðis. Ekki svo að skilja að það sé nýtt að efnahagsuppsveifla hérlendis hafi endað með gjaldeyriskreppu og gengisfellingu. Það er regla án undantekninga. Það sem er óvenjulegt nú er að uppsveiflan kom ekki úr hafinu í formi aukins afla eða erlendra verðhækkana og niðursveiflan byrjar að þessu sinni hvorki með aflabresti né erlendum áföllum. Hagsveiflan var að mestu heimatilbúin.
- Áramótahugleiðing Vilmundar Jósefssonar formanns Samtaka iðnaðarins -
Undanfarin ár hafa verið lengsta hagvaxtarskeið í sögu íslenska lýðveldisins. Nú þegar illilega hefur slegið í bakseglin er von að spurt sé hvað hafi farið úrskeiðis. Ekki svo að skilja að það sé nýtt að efnahagsuppsveifla hérlendis hafi endað með gjaldeyriskreppu og gengisfellingu. Það er regla án undantekninga. Það sem er óvenjulegt nú er að uppsveiflan kom ekki úr hafinu í formi aukins afla eða erlendra verðhækkana og niðursveiflan byrjar að þessu sinni hvorki með aflabresti né erlendum áföllum. Hagsveiflan var að mestu heimatilbúin.
Hart keyrt
Undanfarin ár hafa launahækkanir og annar kostnaður vaxið langt umfram framleiðniaukningu og umfram það sem keppinautar okkar og nágrannar hafa búið við. Samkeppnisstaða okkar versnaði þar með til muna. Viðskiptahallinn og vaxtaokrið jókst stöðugt og vissulega höfðum við, sem störfum í iðnaðinum, þungar áhyggjur af þessari þróun. Okkur var hins vegar sagt að vera ekki með neina svartsýni heldur njóta góðærisins. Sumir trúðu því jafnvel að eitthvað hefði breyst í grundvallaratriðum í hagkerfum heimsins, þannig að gamaldags hagsveiflur væru nú úr sögunni. Því miður reyndust þær kenningar kolrangar.
Stöðugleikinn skiptir öllu
Það má raunar furðu gegna hversu vel fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum vegnaði við þessi skilyrði. Skýringin er sú að þessi uppsveifla var að því leyti ólík öðrum slíkum undanfarna áratugi að nú ríkti stöðugleiki í verðlagi og gengi. Það er ekki fyrr en með gengishækkunum ársins 2000, sem knúnar voru fram með ótal vaxtahækkunum, að tiltrú markaðarins brast og gengishrun krónunnar fór af stað.
Það hefur valdið bæði undrun og jafnvel reiði að iðnaðurinn skuli hvorki fagna gengishækkun né -lækkun krónunnar. Sumum virðist ómögulegt að skilja að það eru sveiflurnar sem drepa iðnaðinn og stöðva hagvöxtinn.
Engu má muna
Við Íslendingar höfum verið aðilar að innri markaði Evrópu frá 1994. Nú er óumdeilt að EES-samningurinn var mikið heillaspor fyrir okkur. Á þeim markaði er frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks á milli landa. Á opnum og frjálsum markaði má ekki miklu muna í samkeppnisstöðunni. Okkar fyrirtæki geta hæglega orðið undir ef á þau hallar, til dæmis ef þau þurfa til langframa að greiða mun hærri vexti en keppinautarnir, svo að ekki sé talað um stór gengistöp.
Svar ESB
Tilkoma evrunnar sem myntar nú um áramótin í 12 af 15 ESB löndum er auðvitað stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þá átt að auðvelda viðskipti á EES svæðinu. Sameiginleg mynt gerir öll viðskipti auðveldari og ódýrari en áður var og um leið hverfur gengisáhætta að mestu leyti. Í stað margra mynta í Evrópu verður núna til ein evrópsk mynt sem notuð verður í viðskiptum um allan heim. Einstaklingar og fyrirtæki á þessu svæði verða þess lítið vör þó að gengi á evru og dollar sveiflist innbyrðis því að langstærstur hluti viðskiptanna á sér stað innan svæðisins.
Við sitjum hjá
Það er okkur vissulega áhyggjuefni að við munum ekki njóta þess gengisstöðugleika og lægri vaxta sem keppinautar okkar á EES svæðinu búa nú þegar við. Veikur og óstöðugur gjaldmiðill okkar fælir frá erlenda fjárfestingu og veldur því til dæmis að við semjum um meiri launahækkanir en aðrar þjóðir vegna þess að launin eru greidd í lélegri mynt. Efnahagslegu rökin fyrir upptöku evrunnar eru ótvíræð.
Hættulegur misskilningur
Hrakfarir Argentínumanna og okkar eigin efnahagsmistök á fyrri tíð sýna, svo að ekki verður um villst, að við eigum að fylgja því sem aðrar Evrópuþjóðir eru að gera. Við höfum sjálfir reynt fastgengisstefnu í óðaverðbólgu, síðast 1986-1987, sem lagði hér allt atvinnulíf meira og minna á hliðina. Við þurfum ekki að fara til Argentínu til að sjá hvaða afleiðingar slík hagstjórn hefur. Allir vita að ábyrgð á eigin hagsstjórn er ekki úr sögunni með upptöku evru og aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Þvert á móti er gerð krafa um trausta og skilvirka hagstjórn aðildarríkjanna. Markmiðið er að ná stöðugum hagvexti á svæðinu í heild og í einstökum þjóðríkjum þess. Það er lífsseigur en hættulegur misskilningur að okkur Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum henti best að búa við einhverjar allt aðrar leikreglur og önnur starfsskilyrði en aðrar þjóðir. Reynslan, m.a. af EES-samningnum, sannar að okkur hentar best að búa við skýrar leikreglur og atvinnulífi okkar hentar einnig stöðugt verðlag og gengi og eðlilegt vaxtastig. Það fáum við ekki meðan við höldum í íslensku krónuna.
Vilmundur Jósefsson