Betri reglur eru ekki nóg

Ritstjórnargrein í desember 2001

1. des. 2001

Flestir eru sammála um það að skýrari reglur um framkvæmd útboða sem settar voru í tengslum við aðild okkar Íslendinga að EES - samningnum hafi verið mikið framfaraspor. Síðan hafa þær verið festar í sessi og endurskoðaðar, nú síðast á þessu ári. Auðveldlega má enn benda á galla á þessum reglum eins og þann að útboðsskylda nær ekki til sveitarfélaga nema í allra stærstu verkum. Tilkoma rammasamninga er heldur ekki fagnaðarefni þar sem bjóðandi veit ekki hvort hann fær nokkur viðskipti þó að við hann sé samið. En burtséð frá slíkum atriðum eru reglurnar í heild skýrari og betri en þær voru og fjármálaráðuneytið hefur þar unnið gott verk.

Flestir eru sammála um það að skýrari reglur um framkvæmd útboða sem settar voru í tengslum við aðild okkar Íslendinga að EES - samningnum hafi verið mikið framfaraspor. Síðan hafa þær verið festar í sessi og endurskoðaðar, nú síðast á þessu ári. Auðveldlega má enn benda á galla á þessum reglum eins og þann að útboðsskylda nær ekki til sveitarfélaga nema í allra stærstu verkum. Tilkoma rammasamninga er heldur ekki fagnaðarefni þar sem bjóðandi veit ekki hvort hann fær nokkur viðskipti þó að við hann sé samið. En burtséð frá slíkum atriðum eru reglurnar í heild skýrari og betri en þær voru og fjármálaráðuneytið hefur þar unnið gott verk.

Vantar heilbrigða skynsemi
Engar reglur verða svo góðar að þær geti komið í stað heilbrigðrar skynsemi. Engar reglur verða svo góðar að þær tryggi sanngjarna málsmeðferð og jafnræði milli verkkaupa og verktaka. Tæmandi reglur um val á verktaka verða seint settar.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að þegar samdráttar gætir eftir mikið þensluskeið í verklegum framkvæmdum þá harðnar slagurinn á útboðsmarkaðinum. Það höfum við séð áður. Hitt kemur á óvart og veldur miklum vonbrigðum hversu afspyrnu léleg vinnubrögð eru við undirbúning og útboð verka. Þrátt fyrir ítarlegri og betri reglur virðist lítið eða ekkert miða í þeim efnum.

Verklok það eina sem stenst
Oftar en ekki virðist í upphafi vera ákveðið hvenær verkinu á að vera lokið og sú tímasetning virðist gjarna vera sú eina sem ekki breytist eftir að ákveðið er að ráðast í verkefnið. Það er auðvitað skiljanlegt á uppgangstímum og að teknu tilliti til hárra vaxta að reynt sé að flýta verkum en afar algengt er að flýtirinn er orðinn slíkur að mönnum og tækjum er hrúgað á vinnustað þannig að úr verður hálfgert öngþveiti. Þegar svo er komið er minni vaxtakostnaður á framkvæmdatíma fokinn út í veður og vind og því meira sem verktímanum er þjappað saman eftir það þeim mun meira eykst kostnaðurinn. Spurningin er bara: Hver ber þann kostnað?

Ekki „eðlifræðilega framkvæmalegt“
Forsvarsmaður eins verktakafyrirtækis orðar þetta svona: „Það er mín skoðun að framkvæmd útboða hafi verið að versna síðastliðin ár. Það virðist enginn munur gerður á því hvort verk eru stór eða lítil. Tilboðstími og verktími er ítrekað settur allt of stuttur. Mörg dæmi eru um að verk eru ekki eðlisfræðilega framkvæmanleg á þeim tíma sem krafist er.“ Þetta segir maður sem vinnur á þessum markaði og nauðaþekkir hann.

Hvað er að?
En hvað er það sem verktakarnir kvarta yfir? Því miður er listinn langur en það helsta er þetta:

Hönnun er ekki lokið þegar verkið hefst. Algengt er að verktakar fái hverja teikninguna eftir aðra meðan þeir eru að vinna verkið. Nýlegt dæmi er um 5 mismunandi útgáfur af jarðvinnuteikningum og framhaldið er í samræmi við þetta. Oft má ekki á milli sjá hvorir eru á undan þeir sem smíða eða hinir sem teikna.
Tilboðsfrestir eru allt of stuttir í stórum og flóknum verkum. Fjöldi undirverktaka og birgja innan lands og utan þurfa að reikna út verð og gera tilboð í stórum og flóknum verkefnum. Ekkert tillit er tekið til þessa við tímasetningar.
Verktíminn í heild er frá upphafi ákveðinn of skammur. Allar tafir vegna hönnunar, undirbúnings og útboða stytta verktímann stundum svo mjög að verkið er ekki lengur eðlisfræðilega framkvæmanlegt á þeim tíma sem veittur er.
Lítill sem enginn undirbúningstími fyrir verktaka sem er nánast ætlað að byrja vinnu við verkið með fullum afköstum um leið og verkkaupi hefur gert upp hug sinn um að semja við hann.
Allri ábyrgð velt yfir á verktaka. Þeim er ætlað axla ábyrgð á því hver verðlagsþróunin verður tvö til þrjú ár fram í tímann með óverðtryggðum verksamningum þegar mikil óvissa ríkir um þróunina næstu tvo til þrjá mánuði. Verktökum er ætlað að skipuleggja og samræma vinnu þegar tímapressan setur alla framkvæmdina í uppnám þannig að hver þvælist fyrir öðrum. Algengt er að í útboðsgögnum séu settir sérskilmálar við ÍST 30 sem eru almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir. Frávik frá þessum viðteknu leikreglum eru undantekningalaust einhliða til hagsbóta fyrir verkkaupa en á kostnað verktaka.
Þessu verður að breyta!
Þetta er ekki fögur lýsing en því miður allt of algengt að svona sé staðið að verki. Það er augljóst að í svona vinnubrögðum felst mikil sóun og upp koma stöðug átök um það hver eigi að bera kostnaðinn af þeirri sóun. Verktakar og verkkaupar ættu að taka höndum saman um að breyta þessu. Það væri verðugt verkefni að takast á við á nýju ári.

Sveinn Hannesson