Hver borgar brúsann?

Ritstjórnargrein í nóvember 2001

1. nóv. 2001

Undirritaður er einn þeirra sem hefur undanfarin ár fylgst með breytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði og fagnað í einlægni þeim framförum sem þar hafa orðið í átt til aukins frjálsræðis og samkeppni. Hef í lengstu lög viljað trúa því að með sömu og svipuðum starfsskilyrðum og galopnu hagkerfi myndum við fara að haga okkur eins og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, versla við og keppa við.

Undirritaður er einn þeirra sem hefur undanfarin ár fylgst með breytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði og fagnað í einlægni þeim framförum sem þar hafa orðið í átt til aukins frjálsræðis og samkeppni. Hef í lengstu lög viljað trúa því að með sömu og svipuðum starfsskilyrðum og galopnu hagkerfi myndum við fara að haga okkur eins og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, versla við og keppa við.

Fjarlæg framtíðarsýn
Við myndum þá einnig í framtíðinni búa við svipaðan stöðugleika í verðlags- og gengismálum, svipað vaxtastig og bankaþjónustu o.s.frv. Undirritaður á þessa dagana æ erfiðara með að sjá þennan draum rætast. Íslenska krónan heldur áfram að falla þó að hún sé nú orðin lægra metin en verið hefur um áratuga skeið. Vextirnir eru tvö- til þrefaldir á við nágrannalöndin og álagning bankanna ofan á himinháa grunnvexti hækkar stöðugt.

Talnaleikur
Í viðtali við viðskiptablað Mbl. 15. nóv. sl. reyndi talsmaður bankanna, Guðjón Rúnarsson, með talnaleikfimi að slá því upp að vaxtamunur fari hér lækkandi, en vel að merkja, sem hlutfall af niðurstöðutölu efnahagsreiknings. Ekki var sá málflutningur sannfærandi. Undanfarin ár hafa efnahagsreikningar banka og lánastofnana þanist út vegna endurlána og alls konar fjárfestinga í hlutabréfum innan lands og utan, sem ekki bera vexti og reyndar ekki arð heldur um þessar mundir. Ef banki tekur lán til hlutabréfakaupa þá leiðir það sem sagt til þess að reiknaður vaxtamunur minnkar vegna þess að vaxtakostnaður bankans eykst og deilitalan, niðurstöðutala efnahagsreiknings, stækkar. Er þetta frambærilegur málflutningur?

Frétt frá Landsbankanum
Nú vill svo skemmtilega til að daginn eftir viðtalið góða birtist í sama blaði frétt af níu mánaða uppgjöri Landsbankans þar sem eftirfarandi kom fram: „Gengistap af hlutabréfum nam 1.610 milljónum króna og eru umskiptin frá fyrra ári um tveir milljarðar króna, en á sama tímabili í fyrra nam gengishagnaður af hlutabréfum 424 milljónum króna. Vaxtatekjur jukust u.þ.b. sem samsvarar aukningu á gengistapi af hlutabréfum og koma þar til aukin áhrif af verðbólgu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.“ Í annarri frétt sagði: „Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 44% eða 1.892 milljónir króna í samanburði við fyrstu níu mánuði ársins 2000.“ Þarf frekari vitna við? Lántakendur eru umsvifalaust látnir greiða tapið af hlutabréfaeign bankans.

Gamalkunnug staða
Það er ekki einasta að efnahagsástandið sé farið að minna óþægilega á gamla tíma heldur virðast vinnubrögð öflugra og markaðsráðandi fyrirtækja líka minna á gamla tíma. Útrás og jafnvel innrás ungra og djarfra fjármálasnillinga hefur að undanförnu verið að bíða umtalsvert skipbrot og reikningurinn vegna tapsins er sendur þráðbeint til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og heimilanna í landinu.

Einkennileg samkeppni
Það er nefnilega mikill misskilningur sem fram kemur í fréttinni sem áður er vitnað til að: „Íslenskir bankar séu ekki einungis í samkeppni innbyrðis heldur einnig við erlendar lánastofnanir.“ Staðreyndin er sú að samkeppnin nær ekki til nema allra stærstu viðskiptaaðila þessara stofnana. Þeir sem búa við raunverulega samkeppni þurfa ef til vill ekki að greiða reikninginn vegna misheppnaðra fjárfestinga lánastofnana en þeim mun meira kemur í hlut hinna, sem þurfa að taka við því sem að þeim er rétt. Þeir fá tilkynningar um 100 punkta vaxtahækkun án skýringa og engum dettur í hug að þeir kvarti þó gíróseðillinn hækki um 58% á réttum tveim árum.

Áhætta á kostnað annarra
Það er umhugsunarefni hversu mörg af stærstu og öflugustu fyrirtækjum okkar hafa hellt sér út í fjárfestingu í hlutabréfum og orðið að stórum hluta hlutabréfasjóðir. Munurinn er bara sá að þegar verðfall verður á hlutabréfamörkuðum, þá taka eigendur venjulegra hlutabréfasjóða á sig skellinn en þegar skipafélög, olíufélög eða bankar eiga í hlut þá reyna eigendurnir að sjálfsögðu að láta aðra bera skaðann og það er því miður víða hægt þar sem samkeppnin er ekki til trafala.

Sveinn Hannesson