Rökin sem ekki eru rædd
Ritstjórnargrein í október 2001 rtitill
Umræður um aðild að Evrópusambandinu (ESB) hafa verið af skornum skammti. Það er einkum tvennt sem einkennir málflutning andstæðinga aðildar. Annars vegar er að það sé ekkert sem kalli á aðild, EES-samningurinn þjóni þeim tilgangi sem honum var ætlaður og dugi okkur vel. Þess vegna sé skynsamlegast að bíða og sjá hverju fram vindur innan ESB. Hins vegar halda þeir því fram að fylgjendur aðildar hafi ekki sett fram nein efnahagsleg eða áþreifanleg rök fyrir aðild Íslands að ESB. Hvort tveggja er fjarri sanni en svo virðist sem margvísleg rök, sem sett hafa verið fram fyrir aðild, nái einhverra hluta vegna ekki til andstæðinga aðildar eða þeir kjósi einfaldlega að skella skollaeyrum við þeim.
Umræður um aðild að Evrópusambandinu (ESB) hafa verið af skornum skammti. Það er einkum tvennt sem einkennir málflutning andstæðinga aðildar. Annars vegar er að það sé ekkert sem kalli á aðild, EES-samningurinn þjóni þeim tilgangi sem honum var ætlaður og dugi okkur vel. Þess vegna sé skynsamlegast að bíða og sjá hverju fram vindur innan ESB. Hins vegar halda þeir því fram að fylgjendur aðildar hafi ekki sett fram nein efnahagsleg eða áþreifanleg rök fyrir aðild Íslands að ESB. Hvort tveggja er fjarri sanni en svo virðist sem margvísleg rök, sem sett hafa verið fram fyrir aðild, nái einhverra hluta vegna ekki til andstæðinga aðildar eða þeir kjósi einfaldlega að skella skollaeyrum við þeim.
Bið er til tjóns
Það er alveg sama hvaða skoðun menn hafa á því hvort Ísland eigi að verða aðili að ESB eða ekki, því seinna sem það gerist þeim mun erfiðara verður að semja um aðild og líkurnar á því að ná fram hagstæðum samningum fyrir sérhagsmuni Íslands minnka. Rökin fyrir þessu eru einföld. ESB er að stækka og því fjölgar þeim sjónarmiðum stöðugt sem þarf að sætta í samningaviðræðum um aðild. Þyngdarpunkturinn í ESB færist suður og austur og þar með minnka áhrif þeirra þjóða sem hingað til hafa sýnt skilning og lýst samúð með sjónarmiðum og sérhagsmunum Íslendinga. Strax af þessum sökum er öll bið í málinu einungis fallin til þess að grafa undan stöðu Íslands í aðildarviðræðum.
Kostir og gallar
Það hvarflar varla að nokkrum, sem aðhyllist aðild að ESB, að halda því fram að henni fylgi engir ókostir eða vandamál sem takast verður á við. Hitt er alrangt að engin áþreifanleg rök séu fyrir aðild. Öðru nær. Þau rök eru yfirgnæfandi og varða verulega efnahagslega hagsmuni og lífskjör þjóðarinnar. Gerðu þau það ekki væri engin ástæða til þess að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu.
Án þess að leggja andstæðingum aðildar orð í munn er óhætt að fullyrða að ein meginröksemd þeirra er sú að hagsmunir íslensks sjávarútvegs verði fyrir borð bornir, forræði auðlindarinnar hverfi til Brussel og við verðum að þola veiði erlendra skipa í íslenskri lögsögu. Hvort eða að hvað miklu leyti þetta er rétt er umdeilt en úr því fæst ekki endanlega skorið nema í aðildarsamningi. Hér skal því þó haldið fram að vel sé unnt að ná viðunandi lausn í þessum efnum. Það gengur auðvitað ekki að láta staðar numið við hagsmuni sjávarútvegsins í umræðunni um aðild, síst af öllu án þess að láta á það reyna.
Kostir við aðild eru margvíslegir og þess vegna enginn hörgull á rökum fyrir því að aðild að ESB væri hagstæð í bráð og lengd.
Áþreifanlegir hagsmunir
Suma af kostum aðildar er ekki auðvelt að meta til fjár eins og t.d. að taka fullan þátt í mótun nýrra reglna og ákvörðunum sem gilda eiga í íslensku samfélagi. Öðru máli gegnir um að taka upp evru í stað krónu. Því fylgir stöðugleiki, minni viðskiptakostnaður og lægri vextir. Enginn vafi er á að örsmá og veik mynt fælir erlenda fjárfesta frá landinu. Upptaka evru myndi á hinn bóginn auðvelda slíka fjárfestingu. Allt myndi þetta stuðla að bættu umhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf og gera Ísland fýsilegra í augum erlendra fjárfesta.
Því hefur verið haldið fram að hvert prósentustig vaxta kosti fyrirtæki og heimili landsins um 11 milljarða króna. Vextir á Íslandi eru um þessar mundir tvisvar til þrisvar sinnum hærri en innan ESB. Hér er um tugi milljarða að tefla á ári hverju. Varla er hægt að draga í efa að það eru efnahagslegir hagsmunir fyrir atvinnulífið en ekki síður skuldsett heimili Íslendinga að lækka hér vexti. Gera má ráð fyrir að matvælaverð lækki verulega við aðild að ESB og það snertir sannarlega lífskjörin. Hér hafa verið nefnd örfá en mjög mikilvæg rök fyrir því að aðild að Evrópusambandinu yrði Íslendingum til hagsbóta. Þegar þessi atriði eru vegin á móti ókostunum er ótvírætt að heildarhagsmunum þjóðarinnar er betur borgið með aðild en að standa utan Evrópusambandsins
Fólk veit sínu viti
Í könnunum, sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í júlí og ágúst, kemur í ljós að 50% Íslendinga eru fylgjandi aðild að ESB en 37% andvíg. Í könnun Gallup meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins kemur í ljós að 58% eru fylgjandi aðild og 30% andvíg. Þá telja 68% aðild góða fyrir efnahag Íslands og 67% eru hlynnt því að taka upp evru í stað krónu. Ekki er nokkur ástæða til þess að ætla að svarendur hafi haft annað í huga en efnahagslega hagsmuni og lífskjör þegar þeir svöruðu þessum spurningum.
Jón Steindór Valdimarsson