Samkeppni á fjármagnsmarkaði?

Ritstjórnargrein í september 2001

1. sep. 2001

Mikil umræða hefur að vonum verið um vaxtastigið á Íslandi þar sem grunnvextir (stýrivextir) hafa langtímum saman verið tvöfaldir og nú nærri þrefaldir á við það sem þekkist í nágrannalöndum. Hitt hefur mun minna verið rætt að íslenskar lánastofnanir hafa notað tækifærið og aukið eigin álagningu, það er vaxtamun inn- og útlána, verulega að undanförnu.

Mikil umræða hefur að vonum verið um vaxtastigið á Íslandi þar sem grunnvextir (stýrivextir) hafa langtímum saman verið tvöfaldir og nú nærri þrefaldir á við það sem þekkist í nágrannalöndum. Hitt hefur mun minna verið rætt að íslenskar lánastofnanir hafa notað tækifærið og aukið eigin álagningu, það er vaxtamun inn- og útlána, verulega að undanförnu.

Samkeppni og hagræðing
Undirritaður er einn þeirra sem trúað hefur því að frelsi í fjármagnsflutningum, aukin samkeppni og hagræðing í bankakerfinu myndi skila okkur þeim árangri að vaxtamunur inn- og útlána myndi minnka og þjónusta batna. Það er vissulega brýnt þar sem vaxtamunur eða álagning íslenska bankakerfisins hefur á undanförnum árum verið allt að helmingi hærri en annars staðar á Norðurlöndum. En hvernig er þessi samkeppni?

Jákvæð þróun um hríð...
Í kjölfar EES-samningsins og minnkandi útlánatapa virtist þróunin hér á landi stefna í rétta átt og vaxtamunur inn- og útlána lækkaði um nálega 1% á árunum 1995-1998 eða úr 4,5% í 3,5% á sama tíma og vaxtamunur í Noregi, þar sem hann var næsthæstur, lækkaði úr 2,7% í 2,0%. Samkeppni lánastofnana virtist fara vaxandi með auknu frelsi.

VextirSvo einkennilegt sem það er, þá er ekki hlaupið að því að afla upplýsinga um þróun vaxtamunar hér á landi síðustu misserin. Á það reyndi nýlega þegar til stóð að bera saman þróun vaxtamunar og þóknana á Norðurlöndunum á fundi systursamtaka okkar fyrr í þessum mánuði. Leitað var til Seðlabanka, Fjármálaeftirlits og Samtaka fjármálastofnana. Enginn hafði tiltækar upplýsingar um þróun vaxtamunar og þóknana síðustu árin. Ugglaust eru þessar upplýsingar einhvers staðar tiltækar í bankakerfinu og hér með er sérstaklega beðið um að þær verði birtar opinberlega.

...hefur breyst í öfugþróun
Þótt nákvæmar upplýsingar skorti liggur þó ljóst fyrir að lánastofnanir hafa notað tækifærið og stóraukið eigin álagningu síðustu misserin. Lítið en lýsandi dæmi um þetta er tilkynning til lántakenda Iðnlánasjóðs sáluga sem nú eru orðnir lántakendur í Íslandsbanka eftir stuttan stans í FBA. Þarna er ekki verið með neina smámunasemi heldur hækkað vaxtaálag um heilt prósentustig eða 100 punkta í einu eins og það er kallað á bankamáli. Þeir, sem svona vinna, óttast ekki samkeppni.

Hvort þetta hefur átt við alla lántakendur eða einungis hina smærri getur bankinn einn upplýst en allar líkur eru til þess að svo hafi ekki verið. Því er nefnilega þannig varið að samkeppni á fjármagnsmarkaði virðist einungis ná til stærstu fyrirtækjanna. Svo mikið er víst að stuðningur Samtaka iðnaðarins við sameiningu lánasjóða sjávarútvegs og iðnaðar hefði ekki verið jafn eindreginn og hann var ef menn hefðu séð fyrir þessar og aðrar viðlíka sendingar sem komið hafa úr sömu átt.

Samkeppni einungis fyrir þá stóru?
Á raforkumarkaði eru það einungis stóriðjufyrirtækin sem fá raforku á samkeppnisfæru heimsmarkaðsverði enda ræður verðið einfaldlega staðsetningunni. Önnur fyrirtæki og heimilin í landinu neyðast til að taka við því sem að þeim er rétt frá einokunarfyrirtækjum. Svipuð staða virðist uppi á fjármagnsmarkaðinum. Það eru einungis allra stærstu fyrirtækin sem búa við einhverja raunverulega samkeppni. Hin taka því sem að þeim er rétt og eiga í æ færri hús að venda í orðtaksins fyllstu merkingu þar sem lánastofnunum og afgreiðslustöðum þeirra fer fækkandi.

Braskið í bankakerfinu
Þrátt fyrir fækkun afgreiðslustaða er aukin framleiðni og hagræðing í bankakerfinu furðu lítil. Starfsfólki fækkar lítið þótt flestir afgreiði sig nú orðið sjálfir á netinu. Gjaldtaka í formi þóknana hækkar stöðugt. Krafan um aukna arðsemi umfram framleiðniaukningu veldur auknum vaxtamun og skortur á samkeppni veitir það svigrúm sem þarf til þess. Þessu til viðbótar eru bankarnir sjálfir og stórir hópar stjórnenda þeirra á bólakafi í alls konar braski með hlutabréf bæði í bönkunum sjálfum og í fyrirtækjum sem jafnframt eru stærstu viðskiptamenn þessara sömu banka. En hverjir fá reikninginn þegar slík viðskipti misheppnast og útlánatöpin vaxa á ný? Því er fljótsvarað. Það eru litlir og meðalstórir viðskiptamenn þessara lánastofnana.

Sveinn Hannesson