Vaxtalækkun strax

Ritstjórnargrein í ágúst 2001

1. ágú. 2001


Þegar spurt er: „Hvernig gengur í iðnaðinum?“, þá verður stundum fátt um svör. Iðnaðurinn er sem betur fer afar fjölbreyttur og fyrirtækin innbyrðis ólík. Allt frá persónulegri þjónustu og hugbúnaðargerð yfir í þungaiðnað og hátækni. Það sem hér er sagt um stöðu iðnaðarins er nokkurs konar meðaltal byggt á samtölum við forsvarsmenn fyrirtækja úr ólíkum áttum.

Þegar spurt er: „Hvernig gengur í iðnaðinum?“, þá verður stundum fátt um svör. Iðnaðurinn er sem betur fer afar fjölbreyttur og fyrirtækin innbyrðis ólík. Allt frá persónulegri þjónustu og hugbúnaðargerð yfir í þungaiðnað og hátækni. Það sem hér er sagt um stöðu iðnaðarins er nokkurs konar meðaltal byggt á samtölum við forsvarsmenn fyrirtækja úr ólíkum áttum.

Stöðugleikinn brast
Eftir óvenju langt stöðugleikatímabil, það lengsta í sögu lýðveldisins, fór hagkerfið smám saman að ofhitna og einkennin urðu svo flestum eða öllum sýnileg á árunum 1999 - 2000. Vaxandi viðskiptahalli, lausatök í ríkisfjármálum, óraunhæfir kjarasamningar að viðbættu launaskriði einkenna þetta tímabil. Vaxtahækkanir innanlands sem ætlað var að sporna við verðbólgu, sem komin var á skrið, komu of seint og gerðu illt verra; ýttu upp gengi krónunnar fram eftir ári 2000 og juku innstreymi erlends lánsfjármagns vegna fáránlegs vaxtamunar innan lands og utan. Eftir sjö vaxtahækkanir í röð brast traust markaðarins og gengi krónunnar hríðféll í tveim hrinum í lok árs 2000 og á vordögum 2001.

leidari-agust2001-Raungengi-launa-og-vidskiptahallinn

Batnandi samkeppnisstaða en fjárskortur
Hvernig er þá staðan í iðnaðinum eftir allt þetta umrót? Almennt var afkoman í iðnaðinum ákaflega léleg í fyrra. Fram eftir ári fór innlendur kostnaður hækkandi og samkeppnisstaðan gagnvart erlendum keppinautum versnandi. Síðan kemur gengislækkun krónunnar fram sem gengistap samdægurs en þar sem eignirnar eru í krónum þá hækka þær ekkert á móti. Niðurstaðan er almennt dapurleg afkoma á árinu 2000. Sama þróun hélt áfram á fyrri hluta þessa árs. Sú einkennilega staða er nú komin upp að mælt á mælikvarða raungengis hefur samkeppnisstaðan gagnvart erlendum keppinautum sennilega ekki verið betri síðan 1983 en iðnfyrirtækin eru bara enn ekki farin að merkja þennan bata. Sex mánaða uppgjörin eru mjög víða með umtalsverðu tapi og flestir eru sammála um að alger fjármagnsskortur sé ríkjandi.

Viðbrögðin
Hvað gera menn í þessari stöðu? Viðbrögðin eru þau að fresta framkvæmdum og jafnvel öllu viðhaldi. Í mörgum tilvikum hefur myndast svigrúm til verðhækkana þar sem innflutningur hefur hækkað í verði. Verðlagsþróunin að undanförnu sýnir að margir hafa nýtt þetta svigrúm sem ekki er að undra. Síðan er ekki erfitt að spá því að eftir sumarleyfi muni fyrirtækin fara að hagræða og fækka fólki umfram það sem sjálfkrafa gerist þegar skólafólkið fer aftur í skólana.

Ábyrgð vinnumarkaðarins
Sú kjaraskerðing sem óneitanlega fylgir gengisfellingunum að undanförnu gefur ekkert tilefni til launahækkana, þvert á móti er einasta leiðin til að verja kaupmáttinn sú að fyrirtækin geti nýtt batnandi samkeppnisstöðu til að bæta afkomuna og blása til nýrrar sóknar. Framleiðniaukning er forsenda raunverulegra kjarabóta en gengislækkun krónunnar veldur ekki tafarlausri framleiðniaukningu. Launahækkanir nú væru því einungis ávísun á verðbólgu og atvinnuleysi sem bitna myndi þyngst á þeim sem verst standa á vinnumarkaði. Þarna verða atvinnurekendur og samtök þeirra að axla ábyrgð og vonandi sýna forsvarsmenn launþega skilning á því hvernig staðan er.

Vextir sem drepa
Taprekstur og þar með minnkandi lánstraust og fáránlega háir vextir munu fyrirsjáanlega verða banabiti einhverra fyrirtækja á næstu mánuðum. Seðlabankinn virðist vera að slást við þenslu sem hvarf eins og dögg fyrir sólu með gengislækkun krónunnar. Verðhækkanir sem nú eru að koma fram eru allt annars eðlis en verðhækkanir þensluáranna 1999-2000. Sá sem þetta skrifar er ekki alveg viss um það hvort það er mótuð stefna Seðlabankans að slaka ekki á klónni fyrr en gjaldþrotahrina ríður yfir. Þar á bæ tala menn um að vextirnir eigi að bíta en hvort þeir eiga að drepa er ekki ljóst. Enginn atvinnurekstur þolir þetta vaxtastig til lengdar. Það er orðið meira en tímabært að lækka vexti hér á landi umtalsvert en það er þó sennilega orðið of seint fyrir þau fyrirtæki sem tæpast standa.

Sveinn Hannesson.