Erlend lán eða áhættufé
Ritstjórnargrein í júlí 2001
Æ fleiri hafa að undanförnu tekið undir með þeim sem telja að háir vextir og veik staða íslensku krónunnar sé orðin íslenskum fyrirtækjum og fjölskyldum slíkur myllusteinn um háls að vart verði við unað. Þarna hafa menn á borð við Hörð Arnarson í Marel og Þorgeir Baldursson í Odda tjáð sig opinberlega með mjög skýrum hætti svo að eftir hefur verið tekið.
Æ fleiri hafa að undanförnu tekið undir með þeim sem telja að háir vextir og veik staða íslensku krónunnar sé orðin íslenskum fyrirtækjum og fjölskyldum slíkur myllusteinn um háls að vart verði við unað. Þarna hafa menn á borð við Hörð Arnarson í Marel og Þorgeir Baldursson í Odda tjáð sig opinberlega með mjög skýrum hætti svo að eftir hefur verið tekið.
Ekki til að tala um
Þeir sem ekki vilja ræða málin hafa svo sem látið í sér heyra líka. Nokkrir hafa opinberlega lýst hneykslan sinni yfir því að þessi mál skuli yfirleitt vera rædd. Í leiðara dagblaðs var nýlega fjallað um illa ígrundaða aðför að veikburða gjaldmiðli. Í sama streng hefur þekktur verðbréfamiðlari tekið og er helst á honum að skilja að umræðan innan iðnaðarins hafi valdið falli krónunnar. Vandinn er því miður meiri en svo að við í iðnaðinum getum leyst hann með því einu að þegja þunnu hljóði.
Hagfræðileg úttekt
Íslendingar eru ekki í Evrópusambandinu. Upptaka evrunnar er því hvorki áhlaupaverk né skammtímalausn. Þetta er vissulega rétt en á móti má spyrja hvort ekki sé tímabært að gera á því vandaða og hlutlausa hagfræðiúttekt hvort aðild að ESB og upptaka evrunnar sé okkur hagkvæm eða ekki. Úttekt utanríkisráðuneytisins á stöðu okkar í Evrópu hefur leitt í ljós að við myndum greiða meira til ESB en við myndum fá á móti í formi styrkja en það er margt fleira sem hér skiptir máli og vegur raunar margfalt þyngra.
Erlent fjármagn: Lán en ekki fjárfesting
Við höfum að sönnu fengið mikið af erlendu fjármagni inn í landið undanfarin ár en það er nær allt í formi lánsfjár. Á sama tíma höfum við fjárfest mikið í hlutabréfum erlendis. Reynslan sýnir að erlendir fjárfestar eru að óbreyttu tregir til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Erfitt eða ógerlegt er sennilega að meta þau áhrif, sem það hefur á gerð kjarasamninga, að við erum að semja í mynt sem á sér langa sögu verðbólgu og gengisfellinga. Allir, sem til þekkja, vita þó að áralöng reynsla af verðbólgu og óstöðugleika gengis hefur ýtt undir launahækkanir hér á landi umfram það sem innstæða er fyrir.
Vextirnir vega þyngst
Í opinni og óheftri samkeppni er stöðugleiki forsenda hagvaxtar. Þau rök að hagsveiflur hér á landi séu í öðrum takti en hjá nágrannalöndunum og við þurfum þess vegna að stjórna sjálf okkar peningamálum, eru ekki trúverðug. Það sýnir reynslan undanfarnar vikur og mánuði. Flestir eru farnir að sjá að veikur gjaldmiðill okkar er undirrót efnahagsvanda og gengissveiflna en ekki tæki til að bregðast við honum. Allar götur frá 1994 hefur munur á vöxtum hér á landi og í evrulöndum farið vaxandi. Engin úttekt hefur verið gerð á því hversu hár sá reikningur er sem íslensk fyrirtæki og heimili þurfa að greiða á hverju ári umfram það sem vera þyrfti ef við værum með evru í stað krónunnar. Þó er auðséð að það eru tugir milljarða á ári. Þá er ótalinn umsýslu- og yfirfærslukostnaður sem þeir losna við sem eru hluti af stærra myntsvæði.
Tvær leiðir
Við þurfum vandaða hagfræðilega úttekt á öllum þessum atriðum og á grundvelli hennar þurfum við að ákveða stefnuna í Evrópumálum. Ef við eigum langa og erfiða leið fyrir höndum er vænlegast að marka tafarlaust stefnuna og ferðbúast sem fyrst. Hin leiðin er sú að gera ekkert en bíða bara og sjá hvað aðrir ætla að gera. Það er ekki vænlegur kostur, þó við getum á meðan árin líða, ornað okkur við drauma um að Ísland verði í framtíðinni alþjóðleg fríhöfn og fjármálamiðstöð. Það verða bara draumar.
Mikilvægt innlegg
Eitt mikilvægasta innleggið í þessa umræðu að undanförnu kom nýlega frá Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, sem hittir naglann á höfuðið þar sem haft er eftir honum í Fréttablaðinu: „Það er afskaplega sláandi hvað mikið fjármagn hefur farið úr landi og lítið sem ekkert komið inn í landið.“ Hann bendir réttilega á að gengissveiflurnar geri fyrirtækjunum erfitt fyrir auk þess sem þær hamli gegn erlendri fjárfestingu. Í viðtalinu leggur Halldór höfuðáherslu á að efla útflutningsframleiðslu og skapa skilyrði fyrir hagvöxt. Hann segir ólíklegt að raunhæfur möguleiki sé að fá undanþágu til að taka upp evru án inngöngu í ESB en umræða um slíkt hafi hins vegar farið fram sérstaklega hjá Norðmönnum. „Það er eitt af því sem sjálfsagt er að ræða í tengslum við þróun EES - samningsins“, segir Halldór í þessu sama viðtali.
Þetta eru orð í tíma töluð.
Sveinn Hannesson