Til of mikils mælst?
Ritstjórnargrein í júní 2001
Það er heldur dauft hljóðið í atvinnurekendum þessa dagana og það á ekki eingöngu við um iðnaðinn. Ástæðan er sú að þeir eiga í mesta basli með reksturinn. Mjög margir voru með taprekstur í fyrra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í fyrra rak hver vaxtahækkunin aðra í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna við verðbólgu og þenslu en með þeim afleiðingum að gengi krónunnar styrktist talsvert fram eftir árinu. Allir vita hvað það þýðir fyrir samkeppnisgreinar að greiða þrefalda vexti á við keppinautana á sama tíma og innflutt vara og þjónusta lækkar í verði, hvort sem sú lækkun nær að skila sér alla leið til neytenda eða ekki.
Það er heldur dauft hljóðið í atvinnurekendum þessa dagana og það á ekki eingöngu við um iðnaðinn. Ástæðan er sú að þeir eiga í mesta basli með reksturinn. Mjög margir voru með taprekstur í fyrra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í fyrra rak hver vaxtahækkunin aðra í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna við verðbólgu og þenslu en með þeim afleiðingum að gengi krónunnar styrktist talsvert fram eftir árinu. Allir vita hvað það þýðir fyrir samkeppnisgreinar að greiða þrefalda vexti á við keppinautana á sama tíma og innflutt vara og þjónusta lækkar í verði, hvort sem sú lækkun nær að skila sér alla leið til neytenda eða ekki.
Úr öskunni í eldinn
Fyrirtækin brugðust mörg hver við gífurlegum innlendum vaxtahækkunum með því að skipta yfir í erlend lán með mun lægri vöxtum. Gengislækkun ísl. krónunnar í árslok hafði afar slæm áhrif á þau fyrirtæki a.m.k. til skamms tíma litið. Sama þróun hefur síðan haldið áfram og gengið mun lengra en nokkurn óraði fyrir. Tapreksturinn heldur áfram og enn sjást engin merki um að „brælan á gjaldeyrismarkaðinum“ sé að ganga yfir. Menn sitja sem sé eftir með gengistapið, þrefalda innlenda vexti og verðbólgu sem er meiri en sést hefur hér á landi um langt árabil. Batnandi samkeppnisstaða í framtíðinni vegna gengislækkunar krónunnar er að sönnu ljóstýra í myrkrinu en nýjustu tölur um launaþróun benda til þess að þeim bata hafi þegar verið ráðstafað fyrirfram.
Hvað vill iðnaðurinn?
Samkeppnisgreinarnar þola illa vaxta- og gengishækkanir. Gengisfellingar og verðbólga eru síst betri. Þeir, sem ekki skilja þetta, furða sig á að atvinnulífið viti bara ekkert hvað það vill. Hvað eru þessir menn alltaf að kveina? Vita þeir ekkert hvað þeir vilja? Það virðist seint ætla að skiljast að atvinnulífið þarf stöðugleika.
Sveiflurnar brjóta niður
Það er erfitt að byggja upp iðnað ef maður býr í harmonikku, þar sem samdráttur og þensla skiptist á, var haft eftir merkum hagfræðingi fyrir nokkrum árum. Það er svo miklu fljótlegra að rífa niður en að byggja upp. Þetta hefur ekkert breyst. Þess vegna er alger samstaða í iðnaðinum um það að koma sér í skjól frá þessum óþolandi sveiflum. Það, sem menn sjá nærtækast, er að biðja um evru í stað íslensku krónunnar. Við gefum ekkert fyrir rökin um sjálfstæða peningastjórn og sjáum raunar ekki í hverju sú stjórn er fólgin þessa dagana. Við viljum stöðugleika, lægri vexti og möguleika á erlendri fjárfestingu. Er það óhófleg heimtufrekja?
Sveinn Hannesson