Krónan fær falleinkunn
Ritstjórnargrein í maí 2001
Í ályktun stjórnar Samtaka iðnaðarins nú nýlega segir: „Upptaka evrunnar myndi leiða til varanlegri stöðugleika í samkeppnisgrundvelli íslenskra fyrirtækja og treysta forsendur þess að hagvöxtur og lífskjör í landinu haldist há og sjálfbær.“
Í ályktun stjórnar Samtaka iðnaðarins nú nýlega segir: „Upptaka evrunnar myndi leiða til varanlegri stöðugleika í samkeppnisgrundvelli íslenskra fyrirtækja og treysta forsendur þess að hagvöxtur og lífskjör í landinu haldist há og sjálfbær.“
Uffe Ellemann-Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur, sagði einhverju sinni á fundi hér í Reykjavík, að aðildarríki ESB hefðu gengið í sambandið af ólíkum ástæðum. Upphaflegt markmið var, eins og allir vita, að koma í veg fyrir illindi og átök milli þjóða V-Evrópu og þó sérstaklega milli Þjóðverja og Frakka. Seinna bættust í hópinn þjóðir eins og Grikkir, Spánverjar og Portúgalir sem voru að feta sig frá einræði til lýðræðis. Bretar hafa að sögn aldrei almennilega vitað hvers vegna þeir gengu í ESB. Danir aftur á móti gengu hvorki í ESB til að stuðla að lýðræði, friði eða frelsi í Evrópu. Þeir gengu inn vegna þess að þeir voru búnir að reikna út að það borgaði sig. Nánar tiltekið voru þeir að hugsa um að fá tollfrjálsan aðgang fyrir svínakjötið sitt til Bretlands og inn á Evrópumarkað.
Er aðild að ESB hagkvæmur kostur?
Í skýrslu utanríkisráðherra, sem út kom í apríl í fyrra, var reynt að slá mati á hvort það myndi borga sig fyrir okkur að sækja um aðild að ESB. Niðurstaðan er engan veginn ljós en hefur verið túlkuð á þann veg að það dæmi sé okkur í óhag. Við myndum greiða meira til ESB en við gætum vænst að fá þaðan í styrki. Inn í þennan útreikning vantar margt fleira en verðmiða á frið og frelsi. Langstærsti þátturinn og sá, sem sannfært hefur marga í iðnaðinum um kosti ESB aðildar, er sá að við verðum að taka upp nýjan gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar. Hún er orðin okkur slíkur myllusteinn um háls að ekki verður lengur við unað.
Hrikalegur kostnaður af krónunni
Því hefur verið slegið fram að hvert % stig í vöxtum, sem við greiðum umfram það sem vera þyrfti, kosti fyrirtæki og heimili í landinu um 11 milljarða króna á ári. Meðal útlánsvextir á Íslandi eru nú um eða yfir 20% en sambærilegir evruvextir eru 7-8%. Lækkun vaxtakostnaðar miðað við evru í stað íslenskrar krónu eru samkvæmt þessu margir tugir milljarða á ári. Þá er ótalinn annar óþarfa viðskiptakostnaður vegna krónunnar, tapaður hagvöxtur vegna óstöðugleika gengis og glötuð tækifæri til að fá hingað til lands erlenda fjárfestingu. Enn má nefna það agaleysi í gerð kjarasamninga sem virðist fylgja því að semja um laun í krónum. Meira og minna innbyggt í þá samninga er að gera ráð fyrir gengisfellingum og verðbólgu, þannig að eðlileg viðmið við framleiðniþróun eru hundsuð og samið um kjarabætur langt umfram það sem gerist hjá keppinautunum. Ástæðan er sú að launin eru greidd í ónýtum gjaldmiðli. Ugglaust er erfitt að reikna út hvað það kostar okkur að burðast með íslensku krónuna og engir útreikningar á því hafa verið gerðir opinberir svo að vitað sé. Það er hrikaleg fjárhæð sem þarna er árlega kastað á glæ. Ef til vill er talan svo há að hana má ekki nefna upphátt frekar en allan þann fisk sem fleygt er í sjóinn á hverju ári.
Löng raunasaga
Þessa dagana er íslenska krónan að ganga gegnum enn eitt hörmungaskeiðið. Fyrirtækin í landinu, sem hröktust undan vaxtaokrinu yfir í erlendar lántökur, hafa fengið skell sem nemur hundruðum milljóna. Gengisfellingin kemur eins og blaut tuska framan í fyrirtæki og heimili þessa lands. En þetta virðist engin áhrif hafa á stjórnvöld eða ráðgjafa þeirra í Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun. Rökin fyrir því að halda áfram með krónuna eru þau að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að hafa okkar eigin mynt og sjálfstæða peningastjórn vegna þess að hagsveiflur hér séu öðruvísi en hjá öðrum þjóðum. Við höfum að undanförnu séð hvernig þetta virkar: Fyrst eru vextir spenntir upp fyrir öll velsæmismörk og síðan fylgir stjórnlaust hrun krónunnar. Iðnaðurinn getur vel hugsað sér að vera laus við sjálfstæða peningastjórn sem skilar þessum árangri.
Falleinkunn á öllum sviðum
Undirritaður hefur heyrt vel upplýsta bankamenn segja að það sé ekkert hægt að fullyrða um það að vextir á Íslandi þurfi endilega að vera miklu hærri en evruvextir um alla framtíð. Það er vonandi rétt að þeir þurfi ekki að vera tvöfaldir eða nærri þrefaldir eins og nú er. Hitt er víst að þeir verða alltaf hærri og það er vegna þess að íslenska krónan er handónýt mynt. Hún stenst engan veginn það þríþætta próf sem nothæf mynt þarf að standast: Reiknieining (unit of account), Gjaldmiðill (medium of exchange) og loks Verðmætageymsla (store of value). Sjá nánar grein Þorsteins Þorgeirssonar, hagfræðings SI, hér í blaðinu. Brennuvargurinn borgar hærra vátryggingariðgjald en góðborgarinn einfaldlega af því að tjónareynslan af honum er verri. Á sama hátt og af sömu ástæðu verða vextir af íslensku krónunni alltaf hærri en af alvöru gjaldmiðlum. Þar veldur löng og raunaleg saga verðbólgu, gengisfellinga og annarra efnahagslegra slysa sem hafa verið fylgifiskar hennar.
Sveinn Hannesson