Tímabært að slaka á klónni
Ritstjórnargrein í mars-apríl 2001
Í ræðu sinni á Iðnþingi 16. mars sl. minnti Vilmundur Jósefsson, formaður SI á að Samtökin hafa undanfarin ár, eða allt frá árinu 1998, varað við þenslu og hvatt til aðhaldsaðgerða af hálfu opinberra aðila. Eftirspurn hefur undanfarin ár vaxið mun hraðar en hagvöxturinn og sú umframeyðsla hefur verið fjármögnuð með erlendum lánum. Þetta hafa SI talið háskalega þróun.
Í ræðu sinni á Iðnþingi 16. mars sl. minnti Vilmundur Jósefsson, formaður SI á að Samtökin hafa undanfarin ár, eða allt frá árinu 1998, varað við þenslu og hvatt til aðhaldsaðgerða af hálfu opinberra aðila. Eftirspurn hefur undanfarin ár vaxið mun hraðar en hagvöxturinn og sú umframeyðsla hefur verið fjármögnuð með erlendum lánum. Þetta hafa SI talið háskalega þróun.
RÖÐ VAXTAHÆKKANA
Þrátt fyrir töluvert aðhald í rekstri hins opinbera og hávaxtastefnu Seðlabankans fór efnahagsstarfsemin yfir þanþol hagkerfisins árið 1999. Verðbólgan fór af stað. Allt frá upphafi hagvaxtarskeiðsins 1994-1995 hafa vextir hérlendis verið mun hærri en í nágrannalöndum okkar en nú keyrði gersamlega um þverbak. Hver vaxtahækkunin rak aðra og langt umfram verðbólguna. Þessar vaxtahækkanir voru skiljanlegar og jafnvel ásættanlegar sem skammtíma aðgerð til að keyra niður eftirspurn og hægja á verðbólgu. Gagnsemi þessara vaxtahækkana er þó umdeilanleg. Þær virðast lítil áhrif hafa á lántökur heimilanna en stóru fyrirtækin hafa á hinn bóginn leitað út fyrir landsteinana í trausti heitstrenginga Seðlabankans um að verja gengi krónunnar hvað sem á dynur.
HAGKERFIÐ AÐ KÓLNA
Nú hefur dregið úr verðbólgu. Kannanir sýna að velta í almennum iðnaði jókst lítið eða ekkert á síðasta ári. Afkoma í iðnaði hefur versnað til muna og spennan á vinnumarkaði hefur minnkað. Hátt raungengi, há laun og háir vextir vega að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Markaðshlutdeild fyrirtækjanna erlendis minnkar og halli á viðskiptum við útlönd eykst. Um leið hægir merkjanlega á efnahagslífinu eins og veltutölur fyrirtækja sýna. Spáð er samdrætti í fjárfestingum sem hafa verið miklar undanfarin ár.
TÍMABÆRT AÐ SLAKA Á KLÓNNI
Við þessar aðstæður leggjum við hiklaust til að slakað verði á klónni líkt og verið er að gera í Bandaríkjunum þar sem hagsveiflan er á sama róli og hér. Þar, rétt eins og hér, dregur snögglega úr hagvexti eftir langt og kröftugt hagvaxtarskeið og viðbrögðin eru vaxtalækkun og loforð um að skattar á fyrirtæki verði lækkaðir. Harðar aðhaldsaðgerðir á sama tíma og afkoma fyrirtækjanna og hlutabréfaverð hríðfellur geta leitt til skyndilegrar lækkunar fjárfestingar og þar með hættu á harðri lendingu efnahagslífsins.
MJÚK LENDING
Nú ríður á að feta sig varlega niður brekkuna eftir langt þensluskeið í stað þess að keyra fram af brúninni á fullri ferð eins og við höfum jafnan gert í lok hvers hagvaxtarskeiðs. Nýlegar ákvarðanir um að hverfa frá fastgengisstefnunni er stórt skref í þessa átt. Fyrsta vaxtalækkunin eftir hrinu vaxtahækkana undanfarin tvö ár er einnig rétt ákvörðun og mjög mikilvægt skref. Þá eru nú mjög til umræðu aðgerðir til að lækka skattbyrði fyrirtækjanna í landinu. Eignarskattur og stimpilgjöld hafa sérstaklega verið nefnd í þessu sambandi. Slík aðgerð er tímabær nú og vonandi nær hún fram að ganga. Allt gefur þetta aukna von um að takast megi að ná mjúkri lendingu.
BETRI OG NÝRRI UPPLÝSINGAR
Vilmundur gerði í ræðu sinni að umræðuefni að upplýsingar um efnahagsmál og hagtölugerð almennt væri hér langt frá því að vera fullnægjandi. Þannig er það a.m.k. hvað iðnaðinn varðar að upplýsingar um afkomu og framleiðslu eru mörg ár á eftir tímanum. Slíkt er háskalegt þegar mikið liggur við að hagstjórnin sé sívökul og byggð á nýjum og traustum upplýsingum.
FÆRRI SPÁMENN - NÝRRI TÖLUR
Nú er rætt um að endurskoða verkefni Seðlabanka, Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar á þessu sviði. Okkur í iðnaðinum þykir full þörf á því. Við erum orðnir fullsaddir á því að fá spádóma um verðbólgu og hagvöxt úr öllum áttum sem reynslan sýnir að eru mistækar svo að ekki sé meira sagt. Okkur þætti mun gagnlegra að fá traustar og nýlegar upplýsingar um starfsmannafjölda, launaþróun, markaðshlutdeild og afkomu í iðnaðinum. Vonandi verða einhverjir af spámönnunum settir í það verkefni að sjá atvinnulífinu fyrir brúklegum upplýsingum um þessa grundvallarþætti. Slíkt myndi auðvelda hagstjórnina og létta spámönnunum eftirleikinn.
Sveinn Hannesson