Vextir sem bíta

Ritstjórnargrein í febrúar 2001

1. feb. 2001

Hagsveiflur liðinna ára hafa flestar eða allar átt uppruna sinn í hafinu annaðhvort vegna breytilegs afla eða verðsveiflna á afurðum og olíu. Þótt þessar sveiflur hafi verið hver með sínu sniði, mislangar og miskrappar hafa öll hagvaxtarskeið endað með einhvers konar gjaldeyris- og afkomukreppu. Sú uppsveifla, sem staðið hefur allar götur frá árinu 1994, er ekki með gamla laginu. Hún kemur ekki úr hafinu. Þegar skoðað er hvaðan hagvöxtur liðinna ára er sprottinn kemur í ljós að hann á rætur að rekja til iðnaðar, verslunar og þjónustustarfsemi. Margir, þar á meðal hagfræðingar sem ástæða er til að taka mark á, hafa talið að breytingar á hagkerfinu, opnun þess og aukin samkeppni leiði til sjálfvirkrar sveiflujöfnunar.

Hagsveiflur liðinna ára hafa flestar eða allar átt uppruna sinn í hafinu annaðhvort vegna breytilegs afla eða verðsveiflna á afurðum og olíu. Þótt þessar sveiflur hafi verið hver með sínu sniði, mislangar og miskrappar hafa öll hagvaxtarskeið endað með einhvers konar gjaldeyris- og afkomukreppu. Sú uppsveifla, sem staðið hefur allar götur frá árinu 1994, er ekki með gamla laginu. Hún kemur ekki úr hafinu. Þegar skoðað er hvaðan hagvöxtur liðinna ára er sprottinn kemur í ljós að hann á rætur að rekja til iðnaðar, verslunar og þjónustustarfsemi. Margir, þar á meðal hagfræðingar sem ástæða er til að taka mark á, hafa talið að breytingar á hagkerfinu, opnun þess og aukin samkeppni leiði til sjálfvirkrar sveiflujöfnunar.

IÐNAÐURINN VIÐKVÆMUR
Iðnaðurinn hefur öðrum atvinnugreinum fremur farið illa út úr miklum og tíðum efnahagssveiflum liðinna ára. Ástæðan er sú að iðnþróun byggist á langvarandi vöruþróunar- og markaðsstarfi. Það tekur þess vegna langan tíma að byggja upp aftur það sem rifið er niður á þensluskeiðum í sjávarútvegi og efnahagslegum slysum sem þeim hefur jafnan fylgt. Eftir síðasta stórslys af þessu tagi fækkaði ársverkum í almennum iðnaði um 4.600 á árunum 1987-1993. Þetta skýrir vel hvers vegna krafan um sveiflujöfnun og stöðugleika hefur átt mikinn hljómgrunn í iðnaðinum.

NÝJA HAGKERFIÐ
Menn hafa undanfarin ár horft til Bandaríkjanna með undrun og aðdáun. Nýja hagkerfið knúið áfram af tækniframförum, traustum rekstrarskilyrðum og sveigjanlegum vinnumarkaði veldur framleiðniaukningu og auknum kaupmætti. Verðbólgan hefur verið lítil og dalurinn sterkur. Á meðan fyrirtækin blómstruðu og hlutabréfaverð var hátt virtust fáir hafa áhyggjur af háum vöxtum og viðskiptahalla. Þetta fór hins vegar að breytast þegar leið á árið 2000.

HVAÐ GERA ÞEIR?
Einkenni okkar hagkerfis eru að mörgu leyti svipuð því bandaríska þótt stærðin sé auðvitað gerólík. Vextir eru að vísu helmingi hærri hér en í Bandaríkjunum og viðskiptahallinn er rúmlega tvöfaldur miðað við landsframleiðslu svo að ekki sé nú minnst á stöðugleika gjaldmiðilsins. Hlutabréf hafa að undanförnu fallið mjög í verði. Það, sem athygli vekur nú, er að um leið og dregur úr hagvextinum í Bandaríkjunum grípa stjórnvöld til vaxtalækkana til þess létta undir með fyrirtækjunum og forðast svokallaða harða lendingu. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna vill lækka skatta á fyrirtæki og virtustu hagfræðingar landsins hafa tekið undir. Þeir telja að skattalækkun á fyrirtæki sé tímabær í ljósi góðrar afkomu og minnkandi skulda ríkissjóðs. Markmiðið er að efla hagvöxtinn að nýju og halda honum í jafnvægi.

VAXTAOKRIÐ SLIGAR
Íslensk fyrirtæki eru í opinni og óheftri samkeppni við fyrirtæki í Evrópu og út um allan heim. Vextir hér á landi eru hins vegar rúmlega tvöfaldir evruvextir eins og sjá má af meðfylgjandi mynd hér að neðan. Flestir sjá að hin einhliða hagstjórn okkar með síendurteknum vaxtahækkunum er ekki trúverðug og hún fær því vart staðist til lengdar. Gengi krónunnar er haldið uppi með handafli. Upphaf Asíukreppunnar frægu var öfgafullt samspil viðskiptahalla, fastgengis og ofurvaxta sem endaði með gjaldeyriskreppu og fjármagnsflótta. Þegar sú kreppa brast á voru menn enn að tala um að þörf væri á að hækka vextina enn frekar! Fjárfestarnir sáu hins vegar að vextirnir voru að sliga efnahagslífið og lögðu á flótta.

leidari-februar-2002-kronu-og_evruvextir

TÍMABÆRT AÐ SLAKA Á KLÓNNI?
Bandaríkjamenn leita nú mjúkrar lendingar með skattalækkunum á fyrirtæki og vaxtalækkunum. Forsætisráðherra okkar hefur nýlega tekið í sama streng og sagt að tímabært sé að huga að skattalækkun á fyrirtæki og að vaxtalækkun sé skammt undan. Þetta vekur vonir um að slakað verði á klónni áður en afkoma fyrirtækjanna og tiltrú fjárfesta brestur. Vandinn hér er að tímasetja þessar breytingar því að hagtölugerð okkar virðist vera ákaflega frumstæð og langt á eftir tímanum. Hættan er því sú að of seint verði gripið í taumana. Sjö vaxtahækkanir í röð hafa langvarandi og bítandi áhrif á atvinnulífið. Yfirlýst markmið er að draga úr þenslunni en ekki að bíta höfuðið af fyrirtækjunum í landinu. Þá verður engin mjúk lending að minnsta kosti ekki í iðnaðinum þótt opinberir starfsmenn haldi sjálfsagt flestir vinnunni.