Veldur hver á heldur

Ritstjórnargrein í janúar 2001

1. jan. 2001

Það er í verkahring samkeppnisyfirvalda að tryggja heilbrigða samkeppni á grundvelli samkeppnislaga og sjá til þess að fyrirtækin virði settar leikreglur. Það er hins vegar ekki þeirra hlutverk að stjórna því á hvern hátt atvinnulífið þróast. Stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna eiga að ráða hvort og hvernig fyrirtæki kaupa eða selja hvert annað, renna saman eða klofna. Hitt er líka jafn ljóst að markaðsráðandi fyrirtæki eiga að vera undir sérstöku eftirliti samkeppnisyfirvalda.

Það er í verkahring samkeppnisyfirvalda að tryggja heilbrigða samkeppni á grundvelli samkeppnislaga og sjá til þess að fyrirtækin virði settar leikreglur. Það er hins vegar ekki þeirra hlutverk að stjórna því á hvern hátt atvinnulífið þróast. Stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna eiga að ráða hvort og hvernig fyrirtæki kaupa eða selja hvert annað, renna saman eða klofna. Hitt er líka jafn ljóst að markaðsráðandi fyrirtæki eiga að vera undir sérstöku eftirliti samkeppnisyfirvalda.

VONBRIGÐI
Það voru mikil vonbrigði fyrir Samtök iðnaðarins þegar samkeppnisráð ákvað að ógilda kaup Prentsmiðjunnar Odda hf. á Steindórsprenti-Gutenberg ehf. Niðurstaðan bendir eindregið til þess að samkeppnisyfirvöld telji betra að tryggja samkeppni með því að stjórna þróun atvinnulífsins en að hafa eftirlit með því að samkeppnisreglum sé fylgt. Það er miður. Endanleg niðurstaða þessa máls getur haft víðtæk áhrif á iðnaðinn og allt íslenskt atvinnulíf og hindrað nauðsynlega hagræðingu og samruna fyrirtækja. Þess vegna láta Samtök iðnaðarins sig málið varða og geta ekki setið aðgerðarlaus hjá. Rétt er að minna á að um 60 fyrirtæki í blaða- og prentiðnaði eiga aðild að Samtökunum, þar á meðal öll helstu fyrirtækin í greininni.

NÝTT ÚRRÆÐI
Samkeppnisyfirvöldum var fengið aukið vald til að takast á við markaðsráðandi fyrirtæki með lagabreytingum sem tóku gildi í desember sl., m.a. vegna þrýstings frá Samtökum iðnaðarins. Misnotkun markaðsráðandi stöðu hefur ekki fyrr verið bönnuð með afdráttarlausum hætti í íslenskum lögum og því hafa samkeppnisyfirvöld ný og virk úrræði til þess að þvinga þau fyrirtæki sem það gera til þess að láta af þeirri háttsemi með banni, fyrirmælum eða tilteknum skilyrðum. Samkeppnisráð getur líka með ákvörðunum sínum hlutast til um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa enda verði ekki með öðru móti komið í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni.

BANN VIÐ SAMRUNA
Samtök iðnaðarins hafa alla tíð haldið því fram að ekki væri skynsamlegt að veita samkeppnisyfirvöldum heimildir til þess að ógilda samruna/yfirtöku fyrirtækja. Engu að síður er í samkeppnislögum ákvæði sem heimilar samkeppnisyfirvöldum að banna fyrirtækjum að sameinast. Það er hliðstætt því sem tíðkast í öðrum löndum. Sá mikilvægi munur er þó á að á Íslandi er miðað við einn milljarð íslenskra króna í sameiginlega veltu fyrirtækjanna til þess að afskipti yfirvalda komi til greina en 40 milljarða í Danmörku og 36 milljarða í Svíþjóð og þá þurfa a.m.k. tvö fyrirtækjanna að velta a.m.k. 50 milljónum íslenskra króna á Íslandi, rúmum þremur milljörðum í Danmörku og 900 milljónum í Svíþjóð. Hér er því ólíku saman að jafna. Danir hafa aldrei beitt sinni heimild. Svíar hafa á síðustu fimm árum sótt þrjú mál fyrir dómstólum til þess að banna samruna og náði bann fram að ganga í tveimur tilvikum. Á síðustu 10 árum hefur framkvæmdastjórn ESB aðeins gripið 13 sinnum til þess ráðs að banna samruna. Þetta sýnir að hvarvetna er litið á bannið sem neyðarúrræði. Því er ekki að heilsa hér. Í málum Myllunnar, Odda og ríkisbankanna grípur samkeppnisráð til sleggjunnar þar sem hamar hefði dugað.

VIÐBRÖGÐ MARKAÐARINS
Það er ómögulegt að skilja hvernig samkeppnisráð metur hvað gerist við samruna og áhrif hans á markaðinn og samkeppni. Í Oddamálinu er því slegið föstu að innlendir og erlendir keppinautar muni eða geti ekki brugðist við. Líka er slegið föstu að kaupendur muni eða geti ekki brugðist við samrunanum og þess vegna geti Oddasamsteypan hagað sér óháð keppinautum og viðskiptavinum. Tímarita-og bókaútgáfa er á örfárra höndum og stærsta einstaka prentverkið, símaskráin, er á einni hendi. Það mætti heita sérkennilegt ef þessir aðilar brygðust ekki við ef Oddasamsteypan tæki að haga sér óháð þessum viðskiptavinum sínum. Til þess hafa þeir alla burði og tækifæri.

Það er eins og samkeppnisráð hafi alveg gleymt fullyrðingum sínum þegar það vildi banna sameiningu Myllunnar og Samsölubakarís. Þar var alveg það sama uppi á teningnum. Fullyrt var fullum fetum að markaðurinn gæti ekki og myndi ekki bregðast við sameiningunni og samkeppnin væri fyrir bí. Á daginn kom hins vegar að markaðurinn brást við. Nýtt verksmiðjubakarí var reist á mettíma og bakar nú brauð í samkeppni við Mylluna- Brauð. Í málatilbúnaði samkeppnisráðs stendur því ekki steinn yfir steini.

Þessi atburðarás sýnir einmitt í hnotskurn að samkeppnisyfirvöld eiga ekki og geta ekki stjórnað uppbyggingu atvinnulífsins. Það er ekki þeirra hlutverk og getur aldrei leitt til góðs fyrir einn né neinn.

Jón Steindór Valdimarsson