Sami grautur í sömu skál

- Ritstjórnargrein í október 2000

1. okt. 2000

Almenn samstaða er um að aðild Íslands að samningnum um EES hafi orðið íslenskum iðnaði og atvinnulífinu í heild til góðs. Meginbreytingin er aukin samkeppni og almennar evrópskar leikreglur sem tekið hafa við af okkar heimatilbúnu leikreglum og pólitísku ákvörðunum.

Almenn samstaða er um að aðild Íslands að samningnum um EES hafi orðið íslenskum iðnaði og atvinnulífinu í heild til góðs. Meginbreytingin er aukin samkeppni og almennar evrópskar leikreglur sem tekið hafa við af okkar heimatilbúnu leikreglum og pólitísku ákvörðunum.

Þessar almennu leikreglur eru samræmd niðurstaða 15 ESB ríkja en gilda á öllu EES svæðinu, þannig að við og Norðmenn tökum upp þessar sömu reglur. Samráðið um innihald þessara reglna er lítið og minnkandi enda hafa EFTA ríkin Ísland og Noregur lítið bolmagn til að halda uppi þeirri umfjöllun sem til þyrfti til mótvægis við ESB.

MÖTUNEYTI ESB
Mörgum þótti hnyttilega að orði komist þegar sagt var að aðild að ESB væri eins og að vera í föstu fæði í mötuneyti. Þar verði að éta allt sem fram er borið fyrr eða seinna. Að vísu sé einstaka sinnum hægt að semja um tímabundin frávik eða aðlögun en að lokum verði allir að éta sama grautinn hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þetta er að mestu rétt en þar með er ekki öll sagan sögð.

Okkur líkar misvel við þær reglurnar sem frá Brussel koma og þær eiga misvel við á Íslandi og í Noregi, í útjaðri Evrópu. Það er hins vegar staðreynd að þessar reglur eru sameiginleg niðurstaða þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við, versla við og keppa við. Þess vegna hentar okkur best sami reglugrautur og þeim. Hinn valkosturinn er nefnilega það myglaða starfsskilyrða sérfæði sem íslenskir stjórnmálamenn hafa borið á borð fyrir íslenskt atvinnulíf áratugum saman.

Í FÖSTU FÆÐI Í FORSTOFUNNI
Við erum í þeirri sérkennilegu stöðu með Norðmönnum að vera kostgangarar í föstu fæði í reglugerðamötuneyti ESB. Við möglum stundum yfir fæðinu en viljum alls ekki snúa til baka í gamla sérfæðið. Við höfum hins vegar afþakkað að vera í eldhúsinu þar sem verið er að elda grautinn. Rökin eru þessi: Við munum engin áhrif hafa í þessu eldhúsi. Það er búið að skrifa allar uppskriftirnar á öðrum og æðri stöðum. Ólíkt Norðmönnum hefur íslenska þjóðin ekki verið spurð hvort hún vilji vera í eldhúsinu. Stjórnvöld hafa ákveðið að okkur henti best að slafra í okkur það sem að okkur er rétt í forstofunni.

HAGSMUNIR AÐILDARRÍKJA
Stjórnvöld hafa útilokað aðild Íslendinga að ESB, að óbreyttri sjávarútvegsstefnu. Á það hefur hins vegar aldrei verið látið reyna hvort unnt væri að semja um viðunandi niðurstöðu í því máli. Réttur og grundvallarhagsmunir aðildarríkja ESB eru nefnilega ekki fótum troðnir í ESB, heldur ekki þeirra smæstu. Það er til að mynda óhugsandi að reglur verði settar sem myndu kollvarpa umfangsmikilli banka- og fjármálastarfsemi í Lúxemborg. Lúxemborgarar eru litlu fleiri en Íslendingar. Þeir hafa einna hæstar þjóðartekjur á mann í heiminum en hafa þó ekki efni á eigin mynt. Þeir hafa hins vegar lengi verið aðilar að ESB og bera sig bara vel. Allir vita að þeir ráða ekki öllu í ESB eldhúsinu en þeir hafa þó átt sjálfan yfirkokkinn um tíma (Santer fyrrverandi forseta framkvæmdastjórnarinnar).

SKRÝTNIR ÚTREIKNINGAR
Skýrslu utanríkisráðherra hafa sumir viljað túlka sem tilraun til þess að reikna út hvort aðild að ESB myndi borga sig. Niðurstaða þeirra frumstæðu útreikninga er sú að aðild borgi sig ekki. Við myndum greiða meira til ESB en við gætum vænst að fá til baka í formi styrkja. Þessir útreikningar minna mjög á umræðuna um EES samninginn. Þá bentu útreikningar raunar til að sá samningur væri okkur hagkvæmur vegna þess að við myndum fá tollalækkun á saltsíld til Norðurlandanna. Þetta var það eina sem menn gátu reiknað út. Enginn verðmiði var settur á bætt starfsskilyrði atvinnulífsins, t.d. nýjar samkeppnisreglur, frelsi til fjármagnsflutninga eða reglur um opinber innkaup.

Þegar spurt er um rökin með og mót ESB aðild má umræðan ekki byggjast á útreikningum þar sem örfá atriði eru dregin fram en önnur mikilvæg atriði sem erfiðara er að verðmeta eru einfaldlega lögð til hliðar eins og þau séu ekki til.

HVAÐ VANTAR Í DÆMIÐ?
Skiptir okkur engu þó að íslensk heimili og fyrirtæki þurfi að borga helmingi hærri vexti af lánunum en í nágrannalöndunum? Skiptir engu að vitað er og viðurkennt að matvælaverð í ESB er mun lægra en hér á landi? Skiptir engu máli að íslensk fyrirtæki þurfa enn að búa við sveiflur í tekjum og afkomu vegna gengissveiflna íslensku krónunnar? Hvað kostar að halda áfram með eigin gjaldmiðil, handónýta mynt, sem hvergi er gildur gjaldmiðill nema á Íslandi? Skiptir engu máli að erlendir aðilar eru tregir til að fjárfesta hér vegna þess að við erum ekki aðilar að ESB?

Hvernig er hægt að reikna út að ESB aðild komi ekki til greina án þess að taka ofangreind atriði inn í það reikningsdæmi? Hvar eru þeir útreikningar?

Sveinn Hannesson