Fjárhagslegur ávinningur af ESB aðild
- Ritstjórnargrein í september 2000
Hér í blaðinu eru birtar niðurstöður úr skoðanakönnun meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins um Evrópusambandsaðild og forsendur aðildar. Könnunin var unnin af Gallup og úrtakið var mjög stórt eða 500 fyrirtæki og einstaklingar sem aðild eiga að SI.
Hér í blaðinu eru birtar niðurstöður úr skoðanakönnun meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins um Evrópusambandsaðild og forsendur aðildar. Könnunin var unnin af Gallup og úrtakið var mjög stórt eða 500 fyrirtæki og einstaklingar sem aðild eiga að SI.
Tilefnið er að sjálfsögðu að við viljum vita hvaða skoðanir félagsmenn okkar hafa á þessum málum og hvað þeir vilja í þessum efnum. Það er engin ástæða til annars en að samtök atvinnurekenda og launþega taki, eins og í nágrannalöndum okkar, virkan þátt í þeirri Evrópuumræðu sem framundan er hér á landi. Könnunin á að nýtast stjórn og starfsmönnum SI til þess að taka virkan þátt í þessari umræðu.
ÞÖRF UMRÆÐA
Mjög margir félagsmanna SI hafa ekki gert upp hug sinn varðandi aðild að ESB. Þetta þarf ekki að koma á óvart því að óhikað má fullyrða að hvergi í Evrópu hefur umræða um þessi mál verið minni. Tveir af hverjum þremur eru þeirrar skoðunar að umræða um þessi mál sé of lítil.
Ályktun: Félagsmenn í SI vilja umræður um Evrópumál og Evrópusambandsaðild.
FJÁRHAGSLEGUR ÁVINNINGUR
Af þeim, sem afstöðu taka í könnuninni, er umtalsverður meirihluti fylgjandi ESB aðild. Yfirgnæfandi meirihluti er þeirrar skoðunar að aðild að ESB sé hagkvæm fyrir efnahag þjóðarinnar og viðkomandi fyrirtæki. Fáir (15%) telja aðild óhagkvæma fyrir efnahag Íslands og enn færri (10%) telja að aðild myndi verða óhagstæð fyrir eigið fyrirtæki. 92% aðspurðra telja ESB aðild mikilvæga til að tryggja jafna samkeppnisstöðu við atvinnulíf innan ESB landanna.
Ályktun: Félagsmenn í SI telja aðild að ESB fjárhagslegan ávinning.
AÐILD MEÐ SKILYRÐUM
Langflestir eða 84% þeirra, sem hlynntir eru ESB aðild telja að slík aðild sé skilyrðum háð. Þegar félagsmenn eru beðnir að nefna hvaða atriði sé mikilvægast í þessu sambandi nefna langflestir að mikilvægast sé að tryggja Íslendingum a.m.k. 90% aflahlutdeild við strendur Íslands. Þarna stendur hnífurinn í kúnni eins og allir vita. Tveir af hverjum þremur eru þeirrar skoðunar að erfitt sé að ná fram sérkröfum við inngöngu í ESB.
Ályktun: Aðild Íslands að ESB er skilyrðum háð. Vitað er að erfitt er að ná fram sérkröfum í aðildarviðræðum.
VILJA LÁTA Á AÐILD REYNA MEÐ UMSÓKN
Megin munurinn á afstöðu félagsmanna SI annars vegar og stefnu stjórnvalda hins vegar er sá að þeir fyrrnefndu vilja láta á það reyna með aðildarumsókn hvort tekið verði tillit til sérhagsmuna okkar en stjórnvöld hafa til þessa látið nægja að gefa sér að reglurnar gildi og engar undanþágur verði veittar. Geta má nærri hverju embættismenn og stjórnmálamenn ESB hefðu svarað til ef þeir hefðu verið spurðir um það fyrirfram hvort hægt væri að setja sérstakar reglur um heimskautalandbúnað í Skandinavíu, eignarhald á sumarhúsum í Danmörku eða þá hvort Svíar geti óáreittir haldið áfram að taka í vörina. Á sama hátt sömdu Íslendingar, þvert á reglur ESB, um bann við fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi í EES samningnum. Margoft hefur verið á það bent að yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðum við strendur landsins séu þeim slíkt hagsmunamál að óhugsandi sé annað en að taka tillit til þess, hvað sem líður almennum reglum bandalagsins. Fyrrnefnd dæmi sanna nefnilega að það er unnt að semja um sérákvæði ef ríkir hagsmunir eru í húfi og raunar virðast undanþágur stundum vera veittar af næsta lítilvægu tilefni.
Ályktun: Félagsmenn SI vilja láta reyna á samninga aðildarumsókn að ESB.
HVENÆR Á AÐ SÆKJA UM?
Þegar félagsmenn SI eru spurðir hvenær Íslendingar eigi að sækja um ESB aðild, svara 56% að það eigi annaðhvort að gerast strax eða innan 5 ára. Rúmur fjórðungur að það eigi að gerast eftir 5 ár eða meira og tæp 18% vilja alls ekki að það gerist fyrr eða síðar. Þarna kemur greinilega fram að það er einungis rúmur fjórðungur félagsmanna sem er sammála stefnu flestra þeirra þingmanna sem að undanförnu hafa tjáð sig opinberlega um þessi mál. Sú stefna er þessi: Við skulum bíða og sjá hvernig ESB þróast á næstu árum.
Ályktun: Meirihluti félagsmanna í SI er ósammála "við skulum bíða og sjá" stefnunni.
Sveinn Hannesson