Viðbrögð við rekstrarvanda verktaka

- Ritstjórnargrein í nóvember 2000

1. nóv. 2000

Eins og flestir vita hefur verðbólguhraðinn hér á landi mælst um 5% síðustu 12 mánuði. Mikil spenna hefur verið á vinnumarkaði og skortur á vinnuafli hefur víða leitt til launaskriðs sem er langt umfram það sem samið var um í kjarasamningum í ársbyrjun. Þetta á ekki síst við um byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 9-10% á milli ára fyrstu 6 mánuði þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Verð á íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum hefur að flestra mati fylgt kostnaðarþróuninni.

Eins og flestir vita hefur verðbólguhraðinn hér á landi mælst um 5% síðustu 12 mánuði. Mikil spenna hefur verið á vinnumarkaði og skortur á vinnuafli hefur víða leitt til launaskriðs sem er langt umfram það sem samið var um í kjarasamningum í ársbyrjun. Þetta á ekki síst við um byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 9-10% á milli ára fyrstu 6 mánuði þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Verð á íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum hefur að flestra mati fylgt kostnaðarþróuninni.

HÖRÐ SAMKEPPNI HELDUR VERÐINU NIÐRI
Jarðvinnuverktakar hafa nokkuð aðra sögu að segja. Verkefnaframboð þar hefur ekki verið það mikið að verð hafi hækkað eins og í byggingariðnaðinum. Lægstu tilboð í jarðvinnuverkefni eru enn í flestum tilvikum tugi prósenta undir kostnaðaráætlunum og eru þó flestir sammála um að kostnaðaráætlanirnar séu farnar að taka mið af þessum lágu tilboðum og þeirri taumlausu samkeppni sem ríkt hefur á þeim markaði.

MIKLAR KOSTNAÐARHÆKKANIR EN ...
Stjórn Samtaka iðnaðarins fjallaði í síðasta mánuði um þetta ástand og sendi í framhaldi af því frá sér ályktun þar sem fram kemur að rekstrarkostnaður fyrirtækja í jarðvinnu hefur hækkað langt umfram almennar verðlagsbreytingar. Langhæst ber, eins og vænta má, um 60% hækkun á olíuverði sl. 12 mánuði en sé litið lengra hefur olíuverð tvöfaldast á hálfu öðru ári. Aðrir veigamiklir þættir í rekstri jarðvinnuverktaka hafa einnig hækkað svo nemur tugum prósenta. Útseld vinna verkstæða hefur t.d. hækkað á bilinu 25-35% á síðustu 12 mánuðum og koma þær hækkanir ofan á verulegar hækkanir á fyrra ári. Sömu sögu er einnig að segja um hækkun bifreiða- og tækjatrygginga. þar má sem dæmi nefna að ökutækjatryggingin ein og sér hækkaði um 30% í sumar.

... ENGAR VERÐBÆTUR
Undanfarin ár hefur sú stefna verið uppi að hverfa frá verktryggingu verksamninga og má sem dæmi nefna að Vegagerðin verðtryggir ekki verksamninga nema verktími sé lengri en 24 mánuðir. Um þetta segir í ályktun stjórnar SI: "Jarðvinnuverktakar búa við það fyrirkomulag að nánast öll verk þeirra eru tilboðsverk og bundin föstu verði sem breytist ekki þrátt fyrir kostnaðarhækkanir ... þeir verða því óvenjulega hart úti þegar verðforsendur tilboða þeirra breytast jafn mikið og raun ber vitni á verktímanum."

Stjórnarmenn í SI eru ekki frekar en aðrir Íslendingar talsmenn þess að taka upp verðtryggingu vítt og breitt í þjóðfélaginu og setja þar með gömlu verðbólgu hringekjuna í gang. Hins vegar hefur stjórnin beint þeim tilmælum til verkkaupa að tekin verði upp ákvæði eða tilteknar verðlagsforsendur í verksamninga sem tryggi að eðlilegt tillit verði tekið til verulegra breytinga á verðlagi helstu kostnaðarþátta hjá jarðvinnuverktökum en slíkar verðbreytingar hafa að undanförnu kollvarpað forsendum verksamninga. Stjórn SI segir í lok ályktunar sinnar að óeðlilegt sé að jarðvinnuverktakar beri þessa áhættu einir.

JÁKVÆÐ VIÐBRÖGÐ HJÁ VEGAGERÐINNI
Nú hefur Vegagerðin tilkynnt að hún muni bæta verktökum olíuhækkanir á þessu ári eftir sérstökum reglum enda séu þær hækkanir langt umfram það sem vænta mátti og vart verði hjá því komist að taka tillit til þeirra. Um það eru auðvitað engar reglur til hvenær verðhækkanir eru orðnar svo miklar að ekki verði hjá því komist að taka tillit til þeirra. Þeim mun meiri ástæða er til að hrósa forsvarsmönnum Vegagerðarinnar fyrir að taka frumkvæði í þessu máli og bregðast við aðsteðjandi vanda jarðvinnuverktaka. Nánari reglna um útreikning bóta er að vænta á næstu dögum. Vonandi fylgja aðrir verkkaupar þessu fordæmi Vegagerðarinnar enda hlýtur sú ákvörðun að vera stefnumarkandi. Framundan er einnig að móta leikreglur um að tilteknar verðforsendur helstu kostnaðarþátta á þessu sviði verði teknar inn í verksamninga í framtíðinni.

TÍMABÆR LÆKKUN ÞUNGASKATTS
Á þessum vettvangi hefur helst til lítið verið um hrós til handa stjórnvöldum en það er full ástæða til að hrósa fjármálaráðherra fyrir þá ákvörðun hans, sem tilkynnt var nýlega, að lækka mælagjald þungaskatts um 10% sem að sögn mun minnka skattheimtu ríkissjóðs af þessum atvinnutækjum um nálega 300 millj.kr. á ári. Breytingar á þungaskatti hafa verið svo tíðar á undanförnum misserum að ógerlegt er að finna út með fullri vissu að hve miklu leyti tekjuauki ríkissjóðs af þungaskatti stafar af bættri innheimtu, aukinni umferð eða kerfisbreytingum. Greiðendum þungaskatts hefur jafnan þótt að hverri kerfisbreytingu fylgdu auknar álögur. Nú hefur fjármálaráðherra Geir H. Haarde sem sagt brugðist við háværum kvörtunum með lækkun þungaskatts sem að vonum kemur sér vel við þær aðstæður sem að framan er lýst þar sem kostnaðarhækkanir eru að sliga fyrirtækin. Það eru skynsamleg viðbrögð og fyrir þau er rétt og skylt að þakka.

Sveinn Hannesson