Samkeppnishæf starfsskilyrði

- Ritstjórnargrein í desember 2000

1. des. 2000

Við, sem komin erum til vits og ára, höfum á síðustu sjö árum upplifað lengsta hagvaxtarskeið í sögu íslenska lýðveldisins. Miklar framfarir undanfarin ár má margar hverjar ótvírætt rekja beint eða óbeint til EES samningsins. En erum við komin í einhverja friðarhöfn þar sem við höfum tryggt okkur sess meðal þeirra þjóða sem búa þegnum sínum bestu lífsskilyrði sem völ er á? Við viljum og ætlum okkur að vera í hópi 10 - 20 þeirra bestu. Erum við þar og verðum við þar? Í stað þess að hælast um yfir þeim árangri, sem náðst hefur að undanförnu, ættum við að einhenda okkur í það verkefni að gera enn betur og laga það sem betur má fara í starfsumhverfi okkar.

Við, sem komin erum til vits og ára, höfum á síðustu sjö árum upplifað lengsta hagvaxtarskeið í sögu íslenska lýðveldisins. Miklar framfarir undanfarin ár má margar hverjar ótvírætt rekja beint eða óbeint til EES samningsins. En erum við komin í einhverja friðarhöfn þar sem við höfum tryggt okkur sess meðal þeirra þjóða sem búa þegnum sínum bestu lífsskilyrði sem völ er á? Við viljum og ætlum okkur að vera í hópi 10 - 20 þeirra bestu. Erum við þar og verðum við þar? Í stað þess að hælast um yfir þeim árangri, sem náðst hefur að undanförnu, ættum við að einhenda okkur í það verkefni að gera enn betur og laga það sem betur má fara í starfsumhverfi okkar.

ÖNNUR LÖGMAL HÉR
Efnahagsvandi okkar er sem fyrr heimatilbúinn. Að hluta til má rekja hann til þeirrar rótgrónu trúar okkar að almenn efnahagslögmál gildi ekki á Íslandi. Við trúum því sem sé að okkur henti ekki að hafa sömu leikreglur og aðrar þjóðir. Við höldum að við getum hækkað laun ár eftir ár umfram framleiðniaukningu. Við teljum okkur trú um að við getum falið verðbólgu með endalausum vaxta- og gengishækkunum. Við höldum að við getum haft gott og vel menntað vinnuafl án þess að verja jafnmiklu fé og aðrar þjóðir til menntamála. Við höldum að við getum greitt helmingi hærri vexti en keppinautar okkar á frjálsum markaði án þess að verða undir í samkeppninni. Við segjumst vilja draga úr þenslu og trúum því að það sé samt í góðu lagi að hækka fjárlögin um 13% á milli ára. "Flýtur meðan ekki sekkur," gæti verið okkar kjörorð.

EKKI SAMKEPPNISHÆFT?
Í ágætu erindi, sem Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar hf., flutti á fundi um stöðu og horfur í iðnaði nýlega spurði hann þessarar grundvallarspurningar: "Er Ísland samkeppnishæft við Evrópusambandslönd?" Svar hans var því miður NEI og hann rökstuddi þessa niðurstöðu sína.

Kostir á borð við ódýrt og sveigjanlegt vinnuafl, nálægð við náttúruauðlindir, hátt menntunarstig þjóðarinnar, lítil skriffinnska og lítill umhverfiskostnaður megna ekki, að hans mati, að vega á móti ókostunum. Sumir ókostirnir eins og lítill heimamarkaður og fjarlægð frá mörkuðum eru gamalkunnir. Aðrir veikleikar í samkeppnisstöðu okkar eru þeim mun verri: Gengissveiflur íslensku krónunnar og háir vextir sem fyrirtæki og almenningur hér á landi þurfa að greiða umfram nágrannana. Sveiflukennt umhverfi og fákeppni í flutningum og á fjármagnsmarkaði vega þar þyngst en að auki bitnar það á fyrirtækjum í fiskiðnaði að hafa ekki tollfrjálsan aðgang að Evrópumarkaði.

Á sama fundi ræddi Hörður Arnarson, forstjóri Marel hf., um forsendur vaxtarmöguleika íslenskra fyrirtækja. Hann talaði um skort á menntuðu vinnuafli á næstu árum, verðbólgu, gengishækkun krónunnar og síðan gengissveiflur og síðast en ekki síst vaxtaokrið.

VERÐUM AÐ BREGÐAST VIÐ
Við eigum að hlusta á það sem menn á borð við Hörð og Ágúst eru að segja. Þeir eru báðir með rekstur erlendis og hafa þess vegna þá yfirsýn og þann samanburð sem þarf. Ef á okkur hallar hvað varðar starfsskilyrðin hér heima er algerlega opin leið fyrir þeirra fyrirtæki og fjölmörg önnur að flytja starfsemina smám saman úr landi.

Í opinni og óheftri samkeppni verður að bregðast fljótt við. Gallinn er hins vegar sá að alþjóðavæðing, einkavæðing, og samkeppnisvæðing Íslands byrjaði allt of seint og gengur allt of hægt. Það er tvímælalaust okkar efnahagslegi Akkilesarhæll. Við héldum í tolla og höft 20-30 árum lengur en aðrar Evrópuþjóðir. Við vorum í hópi Afríkuríkja hvað varðar bann við erlendri fjárfestingu og fjármagnsflutningum. Það tók okkur nærri 20 ár að hverfa frá söluskatti í virðisaukaskatt og þannig mætti endalaust telja. Okkur hefur nákvæmlega ekkert miðað í Evrópuumræðunni undanfarinn áratug. Úrbætur í starfsskilyrðum hafa flestar komið fyrir þrýsting að utan fremur en frumkvæði íslenskra stjórnvalda.

HVAÐ ER Í ÓLAGI?
Við þurfum að horfast í augu við það að á nokkrum sviðum erum við í hópi vanþróaðra þjóða. The Global Competitiveness Report 2000, sem kom út í september sl., staðfestir ótvírætt þetta stöðumat. Hvað varðar hagvaxtarmöguleika framtíðarinnar erum við í 24. sæti og á niðurleið. Í þessum alþjóðlega samanburði fáum við algera falleinkunn á sviði fjármála og alþjóðavæðingar. Við erum klárlega með falleinkunn hvað varðar stöðugleika gengis. Gengisskráning er óvíða talin jafn óhagstæð útflutningi og hér. Vaxtamunur inn- og útlána er með því mesta sem þekkist og þjóðhagslegur sparnaður háskalega lítill og fer minnkandi. Við verðum að horfast í auga við þessa stöðu og reyna að bregðast við henni í stað þess að láta sem ekkert sé.

Sveinn Hannesson