Afnemum tvöfalt kerfi neysluskatta

- Ristjórnargrein í mars og apríl 2004

19. apr. 2004

  • Jón Steindór Valdimarsson
Á síðustu misserum hafa margvíslegar endurbætur orðið í skattkerfinu og enn frekari umbætur hafa verið boðaðar. Þetta er fagnaðarefni.

Á síðustu misserum hafa margvíslegar endurbætur orðið í skattkerfinu og enn frekari umbætur hafa verið boðaðar. Þetta er fagnaðarefni. Fækkun og breikkun skattstofna samhliða lækkun skatthlutfalla er besta leiðin til þess að gera skatta réttlátari, bæta skattheimtu og tryggja skatttekjur. Stjórnvöld hafa boðað breytingar á skattlagningu matvæla. Þar gefst kjörið tækifæri til þess að afnema óréttláta mismunun, einfalda skattkerfið og draga úr skattheimtu sem bitnar þyngst á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Skattlagning matvöru

Virðisaukaskattur er í tveimur þrepum, 14% og 24,5%. Flest matvæli eru í 14% þrepinu en alls ekki öll. Ávaxtasafar, kolsýrt vatn, maltöl, kökur, sætt kex, kakóduft, ídýfur, gosdrykkir og súkkulaði eru dæmi um matvæli sem bera 24,5% virðisaukaskatt.

Annar skattur, sem ekki er eins vel þekkur, er vörugjald. Vörugjöld eru lögð á marga flokka matvæla. Hér má nefna kaffi, te, súpur, sultur, súkkulaði, síróp, ávaxtasafa, súkkulaði, sælgæti, með og án sykurs, gosdrykki og rjómaís. Gjaldflokkar vörugjaldsins eru fjölmargir og spanna frá 8 - 400 króna á hvert kíló eða lítra vöru sem á í hlut. Sum þessara matvæla eru í efra þrepi virðisaukaskattsins en önnur í því neðra. Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir afnámi þessa fyrirkomulags. Þau vilja að öll matvæli séu í sama þrepi virðisaukaskatts og að vörugjöld á matvæli verði afnumin.

Bitnar á neytendum og framleiðendum Núverandi skattlagning felur í sér mismunun sem bitnar á framleiðendum og neytendum. Hér er um að ræða umtalsverða tekjuöflun ríkissjóðs undir yfirskini neyslustýringar í þágu hollustu. Við nánari skoðun standast þau rök ekki. Fátt bendir til að þessi skattheimta dragi úr neyslu. Nægir í því sambandi að benda á að Íslendingar og Norðmenn drekka allra þjóða mest af gosdrykkjum en svo vill til að þeir skattleggja þá líka mest allra þjóða. Neysla kolsýrðs vatns stóreykst einnig þótt það sé skattlagt með sama hætti og gosdrykkir. Hvort tveggja er í hærra þrepi virðisaukaskattsins og ber vörugjald.

Andstætt alþjóðlegri þróun

Hið séríslenska fyrirkomulag skattlagningar matvæla er í andstöðu við alþjóðlega þróun. Hvergi á Norðurlöndum, og sennilega í allri V-Evrópu, er matvælum skipt milli virðisaukaskattþrepa. Allt sem mönnum er ætlað að borða er sett í sama þrep. Fyrir fáum árum stigu Svíar þetta skref og leggja nú 12% virðisaukaskatt á öll matvæli. Vörugjöld á Íslandi stinga mjög í stúf við það sem annars staðar tíðkast. Flestar þjóðir eru sammála um að leggja beri vörugjöld á tóbak, áfengi, bensín og bíla. Á Íslandi hefur verið gengið mun lengra og eru vörugjöld lögð á fjölmarga vöruflokka, þ.m.t. margar tegundir byggingavara og matvæla. Danir og Norðmenn eru þeir einu sem enn halda úti vörugjöldum sem líkjast því sem hér tíðkast en Finnar hafa aflagt þau að mestu og Svíar með öllu.

Of hár matarreikningur

Matarreikningur heimilanna er verulega hærri en ella vegna þessa sérkennilega kerfis. Skattlagningin er ein af skýringum þess að íslensk matarkarfa er dýrari en erlendar. Þar að auki benda hérlendar neyslukannanir til þess að þau matvæli, sem skattlögð eru sérstaklega með þessum hætti, vegi hlutfallslega þyngra í matarútgjöldum þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Stöðugt meiri alþjóðleg samskipti, viðskipti, samkeppni og ferðalög gera samanburð milli landa á verðlagi og þar með skattalegu umhverfi auðveldari og þau frávik sem eru á skattkerfum um leið meira áberandi. Tvískipting skattlagningar á matvæli og hið umfangsmikla vörugjaldskerfi eru lýsandi dæmi um það sem miður fer í íslenskri skattlagningu og valda því að ýmsar vörur hér á landi eru óeðlilega dýrar þar sem um er að ræða dulda skattlagningu sem ekki er á allra vitorði.

Samstaða

Það er samstaða meðal þeirra sem koma að framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla að löngu sé tímabært að einfalda og samræma skattlagningu matvæla. Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, gerði þessi mál að sérstöku áhersluatriði í ræðu sinni á svokölluðum Skattadegi 13. janúar sl. og sagði m.a.: „...brýnna er að afnema skaðlega og neyslustýrandi skatta eins og stimpilgjöld og vörugjöld heldur en að lækka lægra skattþrep í virðisaukaskatti. Reglusetning um breytileg skattþrep í virðisaukaskatti er afar dýr og óskilvirk leið til þess að bæta hag heimilanna. Sú breyting á ekki að vera hluti af almennri stefnumörkun í skattamálum til lengri tíma enda er hún ekki niðurstaða rökræðna eða rannsókna á því hvaða leiðir í skattamálum stuðli best að bættum hag þjóðarinnar. Stjórnvöld ættu því tvímælalaust að taka til endurskoðunar áform um lækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts og gaumgæfa fremur hvort ekki sé affarasælla að vinna að afnámi vörugjalda.“

Kjörið tækifæri

Það væru mikil mistök að auka enn á misrétti í skattlagningu matvæla með því að nota ekki tækifærið við fyrirhugaða breytingu á skattlagningu og samræma álagningu virðisaukaskatts og afnema vörugjöld. Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld að grípa tækifærið og hverfa frá tvöföldu kerfi neysluskatta á matvæli.

Jón Steindór Valdimarsson