Enn eitt misheppnað frumvarp um olíugjald

Ritstjórnargrein í maí 2004

13. maí 2004

  • Sveinn Hannesson
Enn einu sinni er komið fram frumvarp um olíugjald og kílómetragjald. Þessi skattheimta hefur verið til umfjöllunar á Alþingi árum saman og gengið á ýmsu án þess að niðurstaða hafi fengist.

Enn einu sinni er komið fram frumvarp um olíugjald og kílómetragjald. Þessi skattheimta hefur verið til umfjöllunar á Alþingi árum saman og gengið á ýmsu án þess að niðurstaða hafi fengist.  Innan vébanda Samtaka iðnaðarins og annarra samtaka atvinnurekenda er fjöldi verktaka, flutningafyrirtækja, þjónustufyrirtækja og framleiðenda sem reka hundruð bifreiða sem þungaskattur og olíugjald tekur til. Þeir eru einhuga um að frumvarpið í nýrri mynd sé enn sem fyrr alvarlega gallað.  

Skattur á skatt ofan

Ástæðan fyrir andstöðu samtakanna við þetta frumvarp er einföld. Með samþykkt þess er alls ekki horfið frá gjaldi á ekna kílómetra um leið og tekið er upp gjald á hvern lítra gas- og dísilolíu eins og víða hefur verið gert. Þvert á móti er ætlunin að halda áfram að leggja gjald á flestar bifreiðar 10 tonn og þyngri, þó að undanskildum bifreiðum til fólksflutninga sem eiga að vera undanþegnar kílómetragjaldi.  

Skattahækkanir sem um munar

Útreikningar sýna að í langflestum tilvikum er um að ræða verulega aukna skattheimtu af bifreiðum yfir þessum 10 tonna þyngdarmörkum. Algeng niðurstaða úr samanburði á skattlagningu fyrir og eftir þessa breytingu er hækkun á bilinu 20-40% en dæmi eru um mun meiri hækkun. Örfá dæmi eru um óbreytta eða nærri óbreytta skattlagningu léttari bifreiða og langflutningabifreiða sem ekið er margfalt meira en almennt tíðkast. Nokkrar tegundir þyngri bifreiða: kranabílar, snjóplógar, steypubílar og slökkvibílar eiga að vera undanþegnar olíugjaldi.  Á heildina litið er þó án vafa um verulega aukna skattheimtu að ræða.  

Auðvelt að gera díselfólksbifreiðar hagkvæmari án þess að ráðast á atvinnutækin

Samtökin skilja og virða þann vilja stjórnvalda að gera rekstur smærri díselbifreiða hagkvæmari. Þau eru á hinn bóginn algerlega andvíg þeirri stefnu að taka upp tvöfalda gjaldtöku á flestar bifreiðar með leyfilega heildarþyngd yfir 10 tonn og stórauka skattheimtu á þær.  Í því sambandi má minna á að um sl. áramót var kílómetragjaldið hækkað um 8%.   

Tillaga samtaka atvinnurekenda

Í sameiginlegri umsögn flestra stærstu samtaka atvinnurekenda hefur verið lagt til að frumvarpinu verði breytt á þann veg að núverandi þungakattskerfi verði óbreytt fyrir bifreiðar 10 tonn og þyngri.  Þessar bifreiðar myndu þá falla undir ákvæði 4. gr. og nota litaða gjaldfrjálsa olíu.  Léttari ökutæki en 10 tonn myndu hins vegar nota ólitaða olíu og greiða olíugjald.  

Með þeim hætti má ná því yfirlýsta markmiði að gera rekstur léttari díselbifreiða hagkvæmari en jafnframt að ríkissjóður fái áfram sömu tekjur af þungaskatti þyngri bifreiða. Frumvarpið gerir hvort eð er ráð fyrir að til sölu verði tvenns konar olía: Lituð gjaldfrjáls olía og ólituð olía með gjaldi. Fyrir vinnuvélar, húshitun, landbúnað o. fl. verður notuð lituð olía.  Samtökin leggja til að þyngri atvinnubifreiðar falli undir sama flokk en greiði kílómetragjald eins og verið hefur. 

Afleitt frumvarp

Fyrir eigendur stærri atvinnubifreiða og neytendur er þetta frumvarp afleitt. Það eykur og flækir skattheimtu og  hækkar flutningskostnað.  Því er lagt til að bifreiðar þyngri en 10 tonn verði áfram í óbreyttu þungaskattskerfi og noti litaða gjaldfrjálsa olíu en léttari bifreiðar noti ólitaða olíu en séu þá algerlega utan við þungaskattskerfið.  

Tilmæli okkar til stjórnvalda eru einföld:  Ef setja á upp tvöfalt kerfi skattlagningar er miklu betra að skattleggja eldsneyti á minni bifreiðarnar, eins og lengi hefur verið gert við bensínið, en skattleggja þyngri bifreiðarnar í hlutfalli við þyngd og akstursvegalengd.   

Um slíka breytingu yrði víðtæk sátt. 

Sveinn Hannesson