Samskipti atvinnulífs og stjórnvalda

Ritstjórnargrein í júní 2004

18. jún. 2004

  • Sveinn Hannesson
Enginn ætlast til að hagsmunasamtök á borð við SI fái öllu ráðið ein en við ætlumst til að á okkur sé hlustað og tillögur okkar skoðaðar í fullri alvöru. Þess vegna er erfitt að sætta sig við það þegar stjórnvöld og þing sýna af sér óþarfa hroka og yfirgang í samskiptum við atvinnulífið.

Sem betur fer er það oftar en ekki svo að Samtök iðnaðarins eiga greiðan aðgang að stjórnvöldum og þingmönnum til að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri. Samtök iðnaðarins eiga t.d. ágætt samstarf við iðnaðarráðuneyti og ýmsar ríkisstofnanir og sveitarfélög um margvísleg mál sem til framfara heyra. Enginn ætlast til að hagsmunasamtök á borð við SI fái öllu ráðið ein en við ætlumst til að á okkur sé hlustað og tillögur okkar skoðaðar í fullri alvöru. Þess vegna er erfitt að sætta sig við það þegar stjórnvöld og þing sýna af sér óþarfa hroka og yfirgang í samskiptum við atvinnulífið. Hér verða rakin fjögur nýleg dæmi af því tagi.

Olíugjaldið

Nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um olíugjald, sem samin voru með mikilli leynd í fjármálaráðuneyti. Innan vébanda SI og annarra samtaka atvinnurekenda er fjöldi verktaka, flutningafyrirtækja, þjónustufyrirtækja og framleiðenda sem reka hundruð bifreiða sem þungaskattur og olíugjald taka til. Þeir eru einhuga um að þessi lög, sem rekin voru með hraði í gegnum Alþingi, séu meingölluð. Með þeim er skattheimta af þeim bifreiðum í flestum tilvikum stóraukin og tekið upp tvöfalt skattkerfi á bifreiðar 10 tonn og þyngri. Auk gjalds á ekna kílómetra verður tekið upp gjald á hvern lítra dísilolíu. Í sameiginlegri umsögn flestra stærstu samtaka atvinnurekenda var lagt til að frumvarpinu yrði breytt á þann veg að núverandi þungaskattskerfi verði óbreytt fyrir bifreiðar 10 tonn og þyngri. Þetta er einföld tillaga og auðframkvæmanleg og truflar á engan hátt þau áform stjórnvalda að gera rekstur smærri díselbifreiða hagkvæmari. Tillagan fékkst ekki einu sinni rædd, hvorki í ráðuneyti né fyrir þingnefnd.

Rekstrarleyfin

Það er vel þekkt að lög nr. 73/2001 um landflutninga og einkar stíf framkvæmd þeirra hefur gert stjórnendum ýmissa iðnfyrirtækja gramt í geði undanfarin misseri. Tilgangur þess að krefja mjólkurbú og jarðvinnuverktaka um sérstakt starfsleyfi til flutninga þótti frá upphafi óljós með öllu. Undanfarin misseri hafa Samtök iðnaðarins haldið á málum margra aðildarfyrirtækja vegna sekta og ákæra lögreglu. Má segja að þar hafi unnist fullnaðarsigur þegar Skóflan ehf. var sýknuð í Héraðsdómi Vesturlands snemma á þessu ári en þeim dómi áfrýjaði ríkið ekki. Nú er fallinn annar dómur þar sem verktaki í Mosfellsbæ var einnig sýknaður. Þessi deila hefur borist til Ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur sem hefur lagt fyrir samgönguráðuneytið að endurskoða lögin um landflutninga og reglugerðir byggðar á þeim. Enn hefur lögunum ekki verið breytt og enn er Vegagerðin að framkvæma þessa undarlegu gjaldtöku af fullri hörku, þvert á niðurstöðu dómstóla.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Eins og flestir muna hafa staðið yfir átök milli eigenda Íslensks markaðar hf. (ÍM) og stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar(FLE). Stjórn FLE hefur til þessa ekki tekist að móta stefnu sem samræmist nútíma stjórnunar- og verslunarháttum. Enn verr hefur henni gengið að fóta sig á samkeppnislögum. Samkeppnisyfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að forval á leigutökum í flugstöðinni stæðist ekki samkeppnislög og einnig var gerð krafa um að verslunarrekstur og húsaleigustarfsemi ríkisins í FLE yrðu aðskilin. Eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lögin um FLE, sem gera ráð fyrir slíkum samrekstri, væru æðri samkeppnislögum, beið stjórn FLE ekki boðanna og sagði upp leigusamningi ÍM í flugstöðinni. Samkeppnisstofnun úrskurðaði þá uppsögn ólögmæta og enn var FLE gert að skilja að verslunar- og fasteignarekstur í flugstöðinni. Viðbrögð stjórnar FLE urðu þau að gera tilboð um að kaupa upp fyrirtækið. Þegar síðast fréttist virtist það verða niðurstaðan. Í stað þess að fara að samkeppnislögum og aðskilja fasteigna- og verslunarreksturinn og einkavæða hvort tveggja er Íslenskur markaður hf. kominn í eigu ríkissjóðs.

Nýsköpunarsjóður

Rétt er að rifja upp að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) varð til í kjölfar samkomulags milli fulltrúa stjórnvalda og samtaka í iðnaði og sjávarútvegi í árslok 1996 um breytingar á fjárfestingarlánasjóðum þessara atvinnugreina. Annars vegar var ákveðið að stofna Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) með stofnfé að fjárhæð 6 milljarðar króna og hins vegar NSA með stofnfé að fjárhæð 4 milljarðar króna.

Ríkið fékk í sinn hlut Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem var einkavæddur og seldur með miklum hagnaði sem rann í ríkissjóð. Í lögum um NSA segir að hann sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Þrátt fyrir þetta orðalag um eign ríkisins er ljóst að samkomulag var um að sjóðurinn væri í raun eign atvinnulífsins. Þessi staðreynd endurspeglast í skipan stjórnar sjóðsins en þar er kveðið á um að atvinnulífið fari með meirihluta í stjórn sjóðsins og það felur í sér viðurkenningu stjórnvalda á hlutdeild iðnaðar og sjávarútvegs í uppbyggingu eiginfjár fjárfestingarlánasjóða iðnaðar- og sjávarútvegs í áratugi fyrir tilurð NSA.

Þær raddir gerast nú æ háværari að rétt sé að gera Nýsköpunarsjóð upptækan og selja hann. Í ríkisstjórn var því hafnað að sjóðurinn fengi heimild til lántöku til að fleyta sér yfir erfiðleikatímabil þar sem mikill skortur er á áhættufjármagni. Þegar iðnaðarnefnd Alþingis fjallaði síðan um málið sá hún ekki einu sinni ástæðu til að ræða málefni sjóðsins við forsvarsmenn í sjávarútvegi og iðnaði. Má minna á að ekki eru liðin nema 7 ár síðan samkomulag varð um að stofna sjóðinn og að rekstur hans yrði samvinnuverkefni stjórnvalda og atvinnulífs.

Sveinn Hannesson