Nýsköpunarsjóður er sérstakur

Ritstjórnargrein í júlí 2004

14. júl. 2004

  • Jón Steindór Valdimarsson
Mikilvægt er að sjóðurinn geti verið sveigjanlegur og viðbragðsfljótur í starfsemi sinni og umfram allt þolinmóður í fjárfestingum sínum. Þetta er og á að vera sérstaða Nýsköpunarsjóðs og eðlilegt að ríkisvaldið sinni skyldum sínum við fjármögnun nýsköpunar í landinu með því að efla og auðvelda starfsemi hans á alla lund.

Varla verður um það deilt að hagsæld og velferð hvers þjóðfélags er reist á getu til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Ekki dugar að halda í horfinu og líta eingöngu til þess sem dugað hefur hingað til. Hér gildir að standa sig jafnvel og helst betur en þeir sem best gera eigi að tryggja lífskjör í fremstu röð. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að hver vinnandi hönd skapi þjóðarbúinu eins mikil verðmæti og unnt er. Mannaflsfrek starfsemi verður að víkja fyrir hátæknivæddri framleiðslu sem byggist á starfsfólki sem er eins vel menntað til hugar og handa og best verður á kosið. Skapa þarf skilyrði til þess að uppbygging atvinnulífs af þessu tagi verði sem greiðust og örust.

Samið við ríkisvaldið

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er fyrir margra hluta sakir einstakur í sinni röð. Hann varð til með samkomulagi stjórnvalda og samtaka í iðnaði og sjávarútvegi þegar ákveðið var að gera róttækar breytingar á fjárfestingarlánasjóðum þessara atvinnugreina. Samkomulagið fól í sér að sameina eldri sjóði og skipta eiginfé þeirra í hlutföllunum 60/40 og stofna Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) með sex milljarða króna stofnfé og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með fjögurra milljarða stofnfé. Ríkið einkavæddi FBA með góðum hagnaði sem rann í ríkissjóð. Samtök í iðnaði, sjávarútvegi og ASÍ fengu hins vegar í sinn hlut Nýsköpunarsjóðinn þrátt fyrir að í lögum um hann segi að hann sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Þessi staðreynd endurspeglast í skipan stjórnar sjóðsins en þar er kveðið á um að atvinnulífið fari með meirihluta í stjórn sjóðsins og felur í sér viðurkenningu stjórnvalda á hlutdeild iðnaðar og sjávarútvegs í uppbyggingu eiginfjár fjárfestingarlánasjóða iðnaðar- og sjávarútvegs í áratugi.

Nýsköpun er þolinmæðisverk

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er mikilvægur og ómissandi hlekkur við nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Starf hans hefur skilað miklum og góðum árangri og augljóst að knýjandi þörf er fyrir starfsemi hans. Sjóðurinn hefur á sex ára starfstíma sínum fjárfest í meira en 100 fyrirtækjum. Hins vegar hefur það komið á daginn að upphaflegt ráðstöfunarfé hans var ekki nóg miðað við þörfina og sömuleiðis að það tekur sjóðinn mun lengri tíma að enduheimta þær fjárfestingar sem skila arði en talið var í upphafi. Við þessu á að sjálfsögðu að bregðast með því að efla sjóðinn. Hér hefur ríkið vissulega veigamiklu hlutverki að gegna vegna þess að fjárfestar á markaði ráða ekki við nauðsynlegar en áhættusamar nýsköpunar- og sprotafjárfestingar. Þar er með öðrum orðum markaðsbrestur. Þetta er viðurkennt í öllum samkeppnis­löndum okkar og þar kemur ríkisvaldið alls staðar að framtaks­fjárfestingum með myndarlegum hætti.

Skyldur ríkisins við nýsköpun

Nýsköpunarsjóður á að taka virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum fyrirtækjum þar sem saman fara nýsköpunargildi, líkur á góðri arðsemi og atvinnuuppbyggingu. Eðli málsins samkvæmt eru þessi verkefni áhættusamari og taka lengri tíma en flestir almennir fjárfestar eru tilbúnir að takast á við. Mikilvægt er að sjóðurinn geti verið sveigjanlegur og viðbragðsfljótur í starfsemi sinni og umfram allt þolinmóður í fjárfestingum sínum. Þetta er og á að vera sérstaða Nýsköpunarsjóðs og eðlilegt að ríkisvaldið sinni skyldum sínum við fjármögnun nýsköpunar í landinu með því að efla og auðvelda starfsemi hans á alla lund. Sérlega væri kjörið tækifæri að gera það nú þegar skortur er á áhættufé en ríkið hefur loks dregið sig út úr starfsemi viðskiptabanka þar sem hlutverki þess var löngu lokið. Það væri skynsamleg fjárfesting.

Peningar skapa peninga

Það má með fullum sanni segja að ekkert fé hafi til þessa runnið úr sjóðum ríkisins til Nýsköpunarsjóðsins. Atvinnulífið sjálft hefur hingað til lagt sjóðnum til alla þá fjármuni sem hann hefur haft úr að spila. Á þessu varð þó ánægjuleg breyting í vor þegar lögum var breytt og ákveðið að eigið fé Framtakssjóðs renni til Nýsköpunarsjóðs en ekki til ríkissjóðs að starfstíma hans loknum. Með þessu má ætla að eiginfjárstaða Nýsköpunarsjóðs batni um ríflega 500 milljónir en í sjálfu sér er ekki lagt fram nýtt fé til nýsköpunarverkefna. Vonandi má líta á þessa ráðstöfun sem vísbendingu um frekari framlög ríkisins til sjóðsins. Með þessum lagabreytingum var Nýsköpunarsjóði einnig gert kleift að stofna svokallaða framtakssjóði (sjóðasjóði) í samvinnu við aðra fjárfesta. Vonir eru bundnar við að með þessu hætti verði hægt að laða að meira fjármagn til framtaksfjárfestinga ekki síst frá íslensku lífeyrissjóðunum. Til þess að sú leið gagnist sem skyldi þarf ríkissjóður að leggja Nýsköpunarsjóði til nokkurt fé og sömuleiðis er nauðsynlegt að skoða vendilega lagaramma um fjárfestingar í slíkum framtakssjóðum til þess að gera þá fýsilega fjárfestingu í augum lífeyrissjóðanna og annarra fjárfesta, innlendra sem erlendra.

Sjálfstæði frá duttlungum

Nýsköpunarsjóður þarf fullkomið sjálfstæði í starfsemi sinni. Stjórn hans verður að leggja kapp á fagleg og nútímaleg vinnubrögð, efla tengsl og samvinnu við aðra fjárfesta innanlands en ekki síður erlendis. Heppilegt væri að lög um Nýsköpunarsjóð og reglugerð um starfsemi hans verði einfölduð eins og framast er kostur og stjórn sjóðsins lögð sú skylda á herðar að setja starfseminni reglur og bera þá um leið fulla ábyrgð á rekstri og starfsemi sjóðsins. Vel má velta því fyrir sér hvort skynsamlegt væri að breyta á rekstrarformi sjóðsins til að tryggja sveigjanleika hans og sjálfstæði enn frekar, t.d að gera hann að sjálfseignarstofnun. Það er óneitanlega óheppilegt fyrir sjóð eins og Nýsköpunarsjóð að þurfa að sæta pólitískum duttlungum á Alþingi hverju sinni og velvilja ráðherra og embættismanna þegar stjórn sjóðsins telur nauðsynlegt að gera breytingar. Það eru ekki nútímalegir stjórnunarhættir.