Byggingariðnaðurinn og sveitarfélögin

Ritstjórnargrein í ágúst 2004

27. ágú. 2004

  • Sveinn Hannesson

Á Íslandi hefur sveitarfélögum fækkað mjög hin síðari ár en þó er langt frá því að fækkun þeirra sé í samræmi við breytt og aukið hlutverk þeirra í opinberri þjónustu, svo að ekki sé minnst á breyttar samgöngur, þróun byggðar og búsetu.

Á Íslandi hefur sveitarfélögum fækkað mjög hin síðari ár en þó er langt frá því að fækkun þeirra sé í samræmi við breytt og aukið hlutverk þeirra í opinberri þjónustu, svo að ekki sé minnst á breyttar samgöngur, þróun byggðar og búsetu.

Enn eru 105 sveitarfélög á Íslandi, þar af er rúmur helmingur eða 55 með færri en 500 íbúa. Til samanburðar eru 271 sveitarfélag í Danmörku og danska ríkisstjórnin hefur nú lagt til að þeim verði fækkað verulega á næstu árum með því að krefjast þess að lágmarksfjöldi íbúa verði 30.000 í sveitarfélagi.

Nú má svo sem spyrja hvað Samtökum iðnaðarins komi það við hvernig skipulag sveitarstjórnarmála er háttað í landinu? Svarið er að þetta atriði er mjög mikilvægt. Minnstu sveitarfélögin hafa litla möguleika til að fá fólk með nauðsynlega menntun og þjálfun til starfa. Þau hafa oftar en ekki enga burði til að standa fyrir útboðum og verklegum framkvæmdum. Bygginga- og skipulagslög virðast ekki gilda nema sums staðar og byggingarreglugerð er óvíða tekin alvarlega.

Byggingareftirlit verði samræmt

Aukið samræmi á framkvæmd byggingarmálaefna hjá opinberum aðilum er mikilvægt fyrir fyrirtæki í byggingariðnaði. Verktakar hafa oft kvartað undan því að lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa sé eins misjafnt og þeir eru margir. Verktakar, sem eru að hefja vinnu í byggingarfulltrúaumdæmi þar sem þeir hafa ekki unnið í áður, vita ekki hverju þeir mæta. Þeir vita hvorki hvaða leikreglur eru viðhafðar né hvort þær eru yfirleitt nokkrar. Samtök iðnaðarins leggja mikla áherslu á að unnið verði markvisst að því að vinnulag byggingarfulltrúa landsins verði samræmt og að þeir fari eftir þeim ákvæðum sem sett eru í lög og reglugerðir en ekki eftir einhverjum heimasmíðuðum reglum.

Pólitíkin tröllríður sveitarfélögunum

Vandinn er að mörgu leyti annars konar á þéttbýlli svæðum landsins á SV horninu. Þar eru sveitarfélögin að vísu allt of mörg en þar er það ekki fámennið sem kemur í veg fyrir að þau geti sinnt skyldum sínum. Samvinna milli þeirra er allt of lítil og það tekur áratugi að koma á sameiginlegri þjónustu eins og samtengdum almenningssamgöngum eða sameiginlegu slökkviliði. Það er nánast sama hvað rætt er. Pólitískir andstæðingar líta á það sem heilaga skyldu sína að vera á öndverðum meiði í öllum málum. Vegna þess hversu sveitarfélögin eru mörg og þjökuð af stöðugum pólitískum þrætum er afar erfitt fyrir atvinnulífið að vinna með þeim. Samvinna við einn gerir annan að pólitískum andstæðingi hinum megin við lækinn.

Samvinna sveitarfélaga og atvinnulífs ætti þó að geta komið að góðu gagni á ýmsum sviðum:

Skipulag og úthlutun lóðalóða

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu létu að sönnu vinna svæðaskipulag sem samþykkt var árið 2002. Því er m.a. ætlað að leggja meginlínur um framboð lóða fyrir sveitarfélögin. Því miður verður að segja að sveitarfélögin, sem stóðu að gerð þessa svæðaskipulags, hafa ekki tekið á því hvernig stjórna á framboði lóða. Í skipulaginu er tekið á því hvert byggðin á að þróast en ekki hvernig lóðaframboði skuli stjórnað. Þetta mætti leysa með sameiginlegri könnun á spurn eftir lóðum fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Síðan þarf að koma á samráði og samstarfi sveitarfélaganna um það hvernig þessari eftirspurn verði mætt, þannig að hvorki verði umframeftirspurn né lóðaskortur.Skylda þarf sveitarfélögin til að hafa samráð um skipulagningu samliggjandi svæða. Annað býður hættunni heim eins og dæmin sanna.

Svæðaskipting atvinnufyrirtækja

Allir vilja hafa litlar sætar búðir, gallerí og verðbréfa- og upplýsingatæknifyrirtæki með trjágróður og blómabeð. En einhvers staðar verða smiðjur, dráttarbrautir, steypu- og malbikunarstöðvar, brotajárnsvinnsla og annar grófari iðnaður að vera. Slík fyrirtæki hrekjast oft milli sveitarfélaga og eru alls staðar hálfgerðar hornrekur. Þetta er ekki auðvelt að leysa nema með samvinnu sveitarfélaga og samráði við atvinnulífið.

Lóðaútboð sveitarfélaga

Undanfarin ár hefur nokkuð verið rætt um byggingarkostnað og nauðsyn þess að lækka hann. Nefnd hafa verið ýmis atriði, sem betur mættu fara, s.s. lög og reglugerðir, skipulagsmál, framkvæmdastjórnun og útboð sveitarfélaga á byggingalóðum. Nokkur sveitarfélög hafa farið útboðsleiðina við úthlutun lóða og talið mikið hagræði að. Reynslan hefur hins vegar sýnt að tilboð í lóðir hafa verið hærri en sem nemur venjulegum gatnagerðargjöldum. Ástæðan er sennilega fyrst og fremst sú að framboð lóða hefur verið ótryggt og byggingaraðilar hafa seilst hærra í verði en þeir hefðu ella gert ef framboð hefði verið nægilegt og tryggt.

Umferðarmálin

Umferðarmál eru auðvitað mikilvægur þáttur í skipulagsmálum. Ekki er til of mikils mælst að sveitarstjórnir sjái til þess að fært sé milli samvaxinna hverfa á höfuðborgarsvæðinu svo að ekki sé nú talað um helstu umferðarmannvirki sem ganga gegnum sveitarfélögin þver og endilöng. Umferðarþungi og tafir í umferð er stór kostnaðarliður hjá fyrirtækum og fer ört vaxandi. Afkastageta pr. bíl minnkar stöðugt sem leiðir til þess að fjárfest er í fleiri bílum sem enn auka á vandann.

Opinber innkaup

Nú eru liðin rúm 10 ár síðan EES-samningurinn tók gildi. Með honum fylgdu skýrar og fastmótaðar reglur um opinber innkaup yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum. Þessar reglur gilda jafnt um sveitarfélög sem ríkisstofnanir. Ríkið setti síðan fram ákveðna útboðsstefnu fyrir innkaup undir þeim viðmiðunarmörkum. Stefnan var síðan í reglugerð og loks bundin í lög 1998 og endurskoðuð 2001.

Ekkert umbótaferli af þessu tagi hefur átt sér stað hjá sveitarfélögunum fyrr en Reykjavíkurborg tók loks af skarið og setti sér nýjar innkaupareglur í ársbyrjun 2003. Reglur borgarinnar eru mjög svipaðar reglum ríkisins enda ekkert vit í öðru. Hins vegar er full þörf á að atvinnulíf og sveitarfélög taki nú höndum saman um gerð nothæfra innkaupareglna fyrir sveitarfélögin í landinu og þá verði jafnframt komið á fót einni kærunefnd sem úrskurðar í slíkum ágreiningsmálum.

Sveinn Hannesson