Afar góð reynsla af evrunni
Ritstjórnargrein í september 2004
Reynsla Evruþjóða af evrunni hefur verið afar góð síðan hún var tekin í notkun fyrir tæpum sex árum. Þetta kom fram á fundi sem Samtök iðnaðarins og Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands héldu sameiginlega 21. september. Ræðumaðurinn, dr. Paul van den Noord, deildarstjóri á hagfræðideild OECD í París, sem sér um gerð árlegrar skýrslu stofnunarinnar um efnahagsmál á Evrusvæðinu, reifaði kosti og galla evrunnar og hvað þjóðirnar þurfa að gera til að njóta ávinnings af henni.
Ávinningurinn er skýr
Efnahagslegur ávinningur af ESB aðild og upptöku evrunnar byggist á þátttöku á hinum sameiginlega markaði sem hefur leyst úr læðingi mikla verðmætasköpun. Með evrunni hurfu gengissveiflur í viðskiptum Evruþjóða, fjármálamarkaðir dýpkuðu, vextir urðu áþekkir á svæðinu í heild, verðlagning varð gegnsæ og samkeppni jókst. Ávinningurinn af því hagræði mun aukast eftir því sem myntsamstarfið festist í sessi.
Evran hefur staðist væntingar
Ýmis áföll dundu yfir heimsbyggðina eftir að evran var tekin upp. Hlutabréf hröpuðu árið 2000, hryðjuverkaárásir voru gerðar árið 2001 og hagkerfi heimsins fór í gegnum krappa lægð. Þrátt fyrir það gekk evrusamstarfið vel þótt stærri aðildarríkin hafi átt í vandræðum með að halda ríkisfjármálum sínum innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í sáttmálanum um stöðugleika og hagvöxt. Rót vanda þeirra er aðallega skortur á sveigjanleika á vinnumarkaði. Það ástand hefur ekki með evruna að gera og þau njóta einnig ávinnings af henni. Talið er að ástandið í Þýskalandi væri verra nú ef evrunnar hefði ekki notið við.
Smærri ríkin réðu við mun lægri vexti og gengi
Helstu áhyggjur af upptöku evrunnar í smærri ríkum sambandsins voru að verðbólga færi úr böndunum þegar þau hefðu ekki lengur eigin peningastjórn og vaxtastigið lækkaði til jafns við stærri aðildarríkin. Það merkilega er að smærri ríkin réðu við upptöku evrunnar þó að peningaleg skilyrði yrðu skyndilega mun hagstæðari. Ofan á langtímaávinninginn af lækkun vaxta kom tímabundið ástand þar sem gengi evrunnar lækkaði mikið og vextir á svæðinu í heild voru lækkaðir vegna veikburða ástands í stærri ríkjunum. Smærri ríkin fundu því fyrir gífurlega jákvæðri breytingu í peningalegum skilyrðum. Hagfræðingar tala um ,,áfall" í þessu samhengi. Verðbólgan jókst nokkuð og fasteignaverð hækkaði í mörgum þeirra. Á móti kom að hin alþjóðlega niðursveifla hafði áhrif til að verðbólgan rénaði. Þá var munur á verðbólgu milli einstakra landa á Evrusvæðinu ekki teljandi meiri en milli ólíkra svæða innan Bandaríkjanna. Það er merkileg niðurstaða að verðbólgan fór ekki úr böndunum.
Írska undrið
Talað hefur verið um Írska undrið, vegna mikilla efnahagsframfara í landinu frá aðild að ESB. Rétt er að Írar nutu þess að launastigið var lágt og nægt vinnuafl var til staðar. En árangur Íra tengist að miklu leyti skynsömu vali þeirra. Þeir hafa lagt áherslu á sveigjanlegan vinnumarkað og hófsemi í launamálum, skynsamlega stjórn ríkisfjármála, menntamál og hátækniframleiðslu. Fyrir vikið hafa þeir uppskorið mikið innflæði erlendrar fjárfestingar, sérstaklega frá Bandaríkjunum. Þótt hagvöxtur hafi haldið áfram að vera langmestur á Írlandi eftir að evran var innleidd hefur Írum tekist að draga úr verðbólgunni. Ástæðuna má einkum rekja til mikilar framleiðniaukningar sem byggist á framangreindum þáttum.
Mikil eftirspurn minna vandamál
Fleiri þættir útskýra árangur hinna smærri ríkja Evrusvæðisins við að auka hagvöxt en hemja verðbólguna. Helst má nefna samþættingu vöru og þjónustumarkaða á svæðinu í heild. Það hefur dregið úr áhrifum takmarkana í innlendri framleiðslugetu sem kynda undir verðbólgu. Auðveldara er að sinna umframeftirspurn með innfluttri vöru og þjónustu en áður.
Viðskiptasveiflur verða samhverfar
Staðhæft hefur verið að ríki í myntsamstarfi, sem verður fyrir sérstöku áfalli, eigi erfiðara með að komast úr lægð vegna þess að peningastefna svæðisins er því óhagstæð. Þessar áhyggjur hafa reynst óþarfar. Með samþættingu vöru- og fjár - málamarkaða hefur dregið úr áhrifum einstakra áfalla og í raun leitt til þess að viðskiptasveiflur landanna hafa orðið meira samstíga. Um leið hefur komið í ljós að minni líkur eru á fjármálakreppu í kjölfar áfalla þar sem gengissveiflur eru ekki lengur til staðar. Þó er ljóst að ríkisfjármálin fá aukið vægi í myntsamstarfi við að draga úr sveiflum með svokallaðri sjálfvirkri sveiflujöfnun. Mikilvægt er að ríkisfjármálin standist þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
Ávinningurinn krefst réttra viðbragða
Að lokum var dregið fram mikilvægi þess að ríki með hátt tekjustig stuðli að því að þegnarnir fái tækifæri til að afla sér viðeigandi menntunar en það auðveldar fyrirtækjunum að innleiða tækninýjungar og auka framleiðni. Írska leiðin, að stórauka sjálfbæran hagvöxt á grundvelli útflutnings á alþjóðamarkaði, er öllum fær í myntsamstarfinu ef ríkin tryggja réttar aðstæður fyrir slíka markaðsstarfsemi. Um leið njóta þau hins mikla ávinnings af evrunni.