Er iðnaðurinn á förum?
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í október 2004
Þegar hagtölur og hagsaga eru skoðuð fer ekki milli mála að íslenska hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum tíu árum. Hagvöxtur hefur aukist og á rætur að rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Ástæðurnar fyrir þessari umbyltingu eru margþættar en tengjast fyrst og fremst hinu breytta starfsumhverfi fyrirtækja sem hefur fylgt EES-samningnum.
Undanfarin ár hefur ríkt meiri stöðugleiki hér á landi en áður og stöðugleiki er það sem iðnaðurinn þarf til að geta þrifist.
Ný stórfyrirtæki
Í iðnaði hafa áhrifin komið fram í velgengni stórfyrirtækja á borð við Actavis, Össur, Marel og Íslenska erfðagreiningu, á sviði lyfja, lækningatækja, tölvustýrðra framleiðslutækja, líftækni og upplýsingatækni. Hátæknigreinar iðnaðar hafa verið í mikilli sókn og hlutdeild þeirra í framlagi iðnaðar til verðmætasköpunar hefur aukist á 10 árum úr um 3% í 16%. Stærsta stökkið í verðmætasköpuninni er í upplýsingatækniiðnaði sem og í lyfja- og lækningatækjaframleiðslu þar sem hlutdeildin jókst úr 0,6% í 3,4%. Það er gleðilegt að Íslendingar beisla í auknum mæli tækniframfarir og skapa með þeim ný verðmæti. Reyndar er ekki í önnur hús að venda því að ekki mun störfum fjölga í hefðbundnum greinum landbúnaðar og sjávarútvegs. Í stað þess að ausa af brunni náttúruauðlinda er verðmætasköpunin í hátæknifyrirtækjum fyrst og fremst sótt í hugvit og þekkingu, auðlind sem stækkar þeim mun meir sem af er tekið.
Þessi þróun er einnig jákvæð vegna fjölda vel launaðra starfa sem verða til í slíkri starfsemi. Þá hefur þjónustustarfsemi ýmiss konar einnig verið í mikilli sókn. Íslenska hagkerfið er nú orðið mun áþekkara því sem þekkist í nágrannalöndum okkar í Evrópu en áður var.
Er iðnaðurinn á förum?
Stjórn Samtaka iðnaðarins var nýlega á ferð í Lettlandi og þar hafa allmargir Íslendingar haslað sér völl með myndarlegum hætti. Um svipað leyti varpaði Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, fram þeirri spurningu hvort íslenskur iðnaður væri á leið úr landi. „Þetta er góð spurning,“ segja menn gjarna þegar þeir eru spurðir einhvers sem þeir geta ekki svarað. Hitt er víst að við búum nú við algert frelsi á innri markaði ESB. Við erum í opinni og óheftri samkeppni við 25 Evrópuríki um fjármagn, framleiðslu og vinnuafl. Ef eitthvað hallar á í starfsskilyrðum milli landa flyst framleiðslan óhindrað yfir landamærin. Unga fólkið okkar hikar heldur ekki við að flytjast á milli landa ef betri lífskjör bjóðast annars staðar en hér heima.
Erlendur gjaldeyrir á útsölu
Nýtt hágengisástand frá miðju ári 2002 hefur strax haft þau áhrif að hægja á útflutningi á iðnaðarvörum. Hin hliðin á sama peningi er að framleiðsla flyst úr landi. Af einhverjum ástæðum þykir það fréttnæmara þegar fyrirtækin flytja með framleiðslu sína úr landi en þegar innfluttar vörur flæða inn í landið eða íslensk fyrirtæki missa markaðshlutdeild erlendis.
Miklar launahækkanir
Það er ekki eingöngu vegna hárra vaxta og gengis sem framleiðsla flyst úr landi. Aðallega er um að ræða vinnuaflsfreka framleiðslu sem krefst ekki mikillar menntunar. Þetta þarf engan að undra í ljósi þess að árin 1995 til 2003 jókst kaupmáttur á Íslandi á almennum markaði um 30% og jafnvel enn meira hjá opinberum starfsmönnum og bankastarfsmönnum. Þetta er margföld kaupmáttaraukning miðað við önnur lönd. Til samanburðar jókst kaupmáttur um 8% á OECD svæðinu í heild.
Hágengi krónunnar ryður framleiðslu úr landi
Við þessar aðstæður er eðlilegt að framleiðsla flytjist til svæða þar sem laun eru lægri. Hins vegar er hætt við að tímabundið hágengi krónunnar ryðji úr landi ýmiss konar framleiðslu og starfsemi sem ætti að geta þrifist hér. Sú framleiðsla kemur ekki til baka þegar gengi íslensku krónunnar lækkar á ný eftir að núverandi þensluskeiði lýkur.
Eina svarið, sem við höfum við þessu, er að mennta unga fólkið okkar sem best og auka framleiðni fyrirtækjanna með aukinni tæknivæðingu. Reynslan sýnir að það eru hátæknifyrirtækin sem helst þola sæmilega þetta háa gengi íslensku krónunnar. En þó að þau þoli hátt gengi krónunnar betur en önnur má ekki gleyma því að þau eru flest með starfsemi í öðrum löndum og geta auðveldlega fært sig um set. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri hættu. Þessi fyrirtæki megum við síst af öllu missa úr landi.