Fjölbreytt menntun eykur samkeppnishæfni

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í nóvember 2004

25. nóv. 2004

  • Sveinn Hannesson
„Mannauðurinn skiptir miklu máli vegna þess að þegar allt kemur til alls snýst fyrirtækjarekstur um starfsemi fólks og byggist á framlagi þess. Hámörkun á arðsemi fyrirtækja helst í hendur við framfarasinnað, áhugasamt og vel hæft starfsfólk“ segir Sveinn Hannesson m.a. í nýjasta leiðara Íslensks iðnaðar.

Samningur stjórnvalda, Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs Íslands um stofnun nýs háskóla er stórfrétt. Hér ná stjórnvöld og atvinnulíf breiðri samstöðu og ætla að láta verkin tala. Því er ekki að leyna að Samtök iðnaðarins urðu fyrir vonbrigðum á sínum tíma þegar ekki tókst samkomulag um að breyta Tækniskólanum í einkarekinn Tækniháskóla. Nú hefur þetta skref verið stigið og þar með staðfest að einkarekstur skóla er ekki lengur feimnismál eða skammaryrði heldur raunhæf og viðurkennd aðferð til þess að nýta betur opinbert fjármagn. Um leið sýna samtök í atvinnulífinu að þau geta staðið saman um stór verkefni.

Þáttur menntamálaráðherra og rektora

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur sýnt óvenjumikla áræðni og framsýni með þessari gjörð. Í undirbúningsvinnu að stofnun nýs háskóla hefur hún í senn átt frumkvæðið að sameiningu skólanna og rekið málið áfram af krafti. Stefanía Katrín Karlsdóttir, rektor THÍ, og Guðfinna Bjarnadóttir, rektor HR, hafa unnið þétt með ráðherra að því að gera þessa hugmynd að veruleika. Segja má að þessar þrjár konur hafi unnið tímamótaverk og fyrir það eiga þær heiður skilinn.

Miklar væntingar

Nýr sameinaður háskóli hefur alla burði til að standa undir væntingum um stórbætta þjónustu við atvinnulífið án þess að gert sé lítið úr núverandi framlagi skólanna tveggja. Margar deildir verða starfræktar við skólann og með því að bjóða blandað nám milli þeirra útskrifast fólk sem er færara en ella til að sinna margvíslegum og margbreytilegum störfum í atvinnulífinu. Hér hlýtur að vera um forgangsverkefni að ræða hjá háskólaráði og stjórnendum nýs háskóla. Hinn nýi háskóli á að hafa alla burði til að keppa við háskóla hérlendis sem erlendis. Þessi tæplega 2.000 nemenda háskóli mun veita Háskóla Íslands verðuga samkeppni.

Menntamál eru samkeppnismál

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um mikilvægi þekkingar og menntunar. Mannauðurinn skiptir miklu máli vegna þess að þegar allt kemur til alls snýst fyrirtækjarekstur um starfsemi fólks og byggist á framlagi þess. Hámörkun á arðsemi fyrirtækja helst í hendur við framfarasinnað, áhugasamt og vel hæft starfsfólk. Góður starfsmaður verður ekki til af sjálfu sér. Menntun er lykilþáttur í að móta einstakling sem vel hæfan þátttakanda í störfum samfélagsins. Menntakerfið er þess vegna þjónusta sem á að tryggja einstaklingnum bestu hugsanlegu verkfærin til lífsgæða. Um leið er góð og rétt menntun besta tryggingin - ef einhver trygging er til - fyrir góðri, langri og ábatasamri starfsævi. Nútímarekstur fyrirtækja gengur ekki vel nema starfsmenn hafi hlotið rétta og góða menntun til að sinna þeim verkefnum sem bíða þeirra.

Verk- og tæknifræðimenntun efst á blaði

Samtök iðnaðarins telja að sameining HR og THÍ feli í sér fjölmörg tækifæri til að efla menntun í þágu atvinnulífsins. Mikilvægt er að háskólaráð og stjórnendur ætli háskólanum frá upphafi stórt hlutverk í þessu skyni. Þar er auðvitað efst á blaði að skólinn hefur heimild menntamálaráðuneytisins til að auka kennslu í tæknifræði og hefja kennslu í verkfræði. Þessar greinar eru grunnur að stöðugri uppbyggingu hátæknifyrirtækja og tæknivæðingu íslensks iðnaðar. Fyrirtæki í iðnaði hafa þörf fyrir stöðugt fleiri verk- og tæknifræðinga. Auk akademískra áherslna þarf háskólinn að veita iðnaðarmönnum brautargengi til frekara náms, m.a. með líkum hætti og frumgreinadeild THÍ hefur gert. Mikilvægt er að reynsla nemenda í atvinnulífinu sé metin með sambærilegum hætti og nám í skóla.

Tengsl við fræðslu- og rannsóknastofnanir

SI leggja einnig áherslu á að nýr háskóli bjóði fræðslu- og rannsóknastofnunum í atvinnulífinu til samstarfs og gefi þeim kost á að vera í sambýli í nýjum húsakynnum sem byggja þarf yfir starfsemi háskólans innan fárra ára. Með því móti nýtist aðstaða og starfsfólk þessara stofnana betur og þannig má mæta vaxandi þörf fyrir endurmenntun og verklega kennslu í atvinnulífinu.