Átak til að verjast kennitöluflakki
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í desember 2004
Auglýsingar SI og frásagnir í Íslenskum iðnaði af kennitöluflakki og svikum í viðskiptum hafa vakið mikil viðbrögð. Af þeim viðbrögðum að dæma er vandamálið stærra og alvarlegra en flesta grunar. Margir hafa haft samband og sagt ófagrar sögur, sem til þessa hafa legið í þagnargildi. Engu er líkara en að menn veigri sér við því að segja frá eigin óförum í viðskiptum við ránsmenn. Skammist sín fyrir að hafa gengið í gildruna og látið ræna sig.
Leitið upplýsinga um eigin viðskiptamenn
Það er greinilega þörf á samstilltu átaki til að hemja þessa óværu í íslensku viðskiptalífi. Best er að byrja umbótastarfið heima fyrir og það er greinilega ástæða til að hvetja seljendur vöru og þjónustu til að afla sér upplýsinga um viðsemjendur sína. Sem betur fer er safnað upplýsingum um viðskiptasögu fyrirtækja og einstaklinga og slíkar upplýsingar eru aðgengilegar hjá fyrirtækjum á borð við Lánstraust hf.
Flakkað á milli birgja
Flest fólk er sem betur fer heiðarlegt og gengur út frá því að viðskiptavinir sínir séu það einnig. Reynslan sýnir hins vegar að margir hafa farið flatt á viðskiptum við óreiðumenn og kennitöluflakkara sem einskis svífast. Því er full ástæða til að vera á verði og afla sér upplýsinga um viðsemjendur áður en stofnað er til umtalsverðra viðskipta. Talsvert er einnig um að fyrirtæki sem eru komin eða eru að komast í þrot fari á milli og skipti um birgja og undirverktaka. Flestir taka nýjum við skiptamönnum opnum örmum en allt of fáir hafa fyrir því að kanna hvernig ferill nýja viðskiptamannsins hefur verið.
Skylt að hætta vonlausum rekstri
Þá er rétt að minna stjórnendur og eigendur fyrirtækja sem standa höllum fæti á ábyrgð sína á því að halda ekki áfram í vonlausum rekstri löngu eftir að öll von er úti um að vinna megi sig út úr vandanum. Með því að halda slíkum rekstri áfram er einungis verið að skaða viðskiptavini enn frekar og jafnvel geta menn bakað sjálfum sér skaðabótaábyrgð. Raunar er ótrúlega fátítt að látið sé á hana reyna.
Þáttur fjármálastofnana
Átak til að stemma stigu við svikum og kennitöluflakki skilar tæpast árangri nema fjármálastofnanir taki fullan þátt í því. Allt of algengt er að lánastofnanir aðstoði kennitöluflakkara við að halda áfram uppteknum hætti og of mörg dæmi eru um að lánastofnanir taki þátt í að skipuleggja það sem kalla mætti vel undirbúið gjaldþrot. Þrotamaður heldur síðan áfram rekstri og bankaviðskiptum eins og ekkert hafi í skorist. Fjármálastofnanir geta ekki sóma síns vegna aðstoðað óreiðumenn við að ræna viðskiptamenn sína.
Opinber innkaup
Síðast en ekki síst verða opinberir aðilar, sem standa fyrir opinberum innkaupum og framkvæmdum, að varast að skipta við kennitöluflakkara og svikahrappa. Samtök iðnaðarins telja að opinberir aðilar geti með einfaldri breytingu á verklagi komist hjá því að eiga viðskipti við slíka aðila. Þau hafa ritað Reykjavíkurborg bréf þar sem lagt er til að breyting í þessa veru verði gerð á 23. gr. innkaupareglna borgarinnar. Þá hefur Framkvæmdasýslunni, Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landsvirkjun verið ritað bréf með samhljóðandi tillögu að ákvæði í útboðslýsingar.
Í VI. kafla laga um opinber innkaup nr. 94/2001 er mælt fyrir um þær kröfur sem verkkaupi skuli gera til hæfni bjóðenda og heimild hans til að vísa bjóðanda frá. Gert er að skilyrði að bjóðandi sé ekki undir né hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum, hafi ekki fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða sé í annarri sambærilegri stöðu. Alvarleg vanræksla í starfi eða röng upplýsingagjöf um fjárhagslega getu á samkvæmt lögunum að útiloka fyrirtæki frá viðskiptum í opinberum innkaupum.
Engum í hag að beina viðskiptum til kennitöluflakkara
Undanfarið hefur komið fram að opinberir aðilar hérlendis skoði lítt eða ekki viðskiptasögu bjóðenda í útboðum. Meginhlutverk innkaupastofnana lögum samkvæmt er þó að tryggja hagkvæmni í meðferð almannafjár og stuðla að samkeppni á jafnræðisgrunni. Lög um opinber innkaup mæla skýrt fyrir um að þær aðstæður sem einkenna kennitöluflakkara þ.e. vanskil og greiðsluþrot, útiloki samningsgerð.
Fyrir nokkrum árum tókst með sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins og opinberra innkaupastofnana að stemma stigu við gerviverktöku. Þá var aðferðin sú að taka upp sérstakt samræmt ákvæði í útboðslýsingar. Nú gera Samtök iðnaðarins sams konar tillögu um samræmt ákvæði til höfuðs kennitöluflakki. Hún er efnislega svohljóðandi:
Sé kennitala bjóðanda nýrri en 5 ára skal kanna viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda. Leiði sú könnun í ljós nýlegt greiðslu eða gjaldþrot sbr. 28. gr. laga um opinber innkaup (gjaldþrot, nauðarsamninga, greiðslustöðvun ofl.) ber að vísa bjóðanda frá, enda eigi í hlut öldungis sams konar rekstrareining, með sömu eða nær sömu eigendur, í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi, á sama markaði en með nýja kennitölu.
Það er skoðun Samtaka iðnaðarins að þetta breytta verklag við opinber innkaup geti ásamt samstilltu átaki fjármálastofnana og annarra fyrirtækja skipt sköpum til að stemma stigu við ómældu tjóni sem kennitöluflakkarar baka íslensku atvinnulífi og heiðarlegum þátttakendum á markaði.