Undarleg sýn á umheiminn

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í janúar 2005

25. jan. 2005

  • Jón Steindór Valdimarsson
EES-samningurinn tryggir aðgang að 455 milljóna manna markaði, frelsi í viðskiptum, frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Hann er langmikilvægasti milliríkjasamningur sem Ísland á aðild að og hefur haft víðtæk áhrif á íslenskt atvinnulíf og samfélag.

EES-samningurinn tryggir aðgang að 455 milljóna manna markaði, frelsi í viðskiptum, frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Hann er langmikilvægasti milliríkjasamningur sem Ísland á aðild að og hefur haft víðtæk áhrif á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og uppbygging atvinnulífsins hafa tekið stakkaskiptum frá því að samningurinn tók gildi 1. janúar 1994. Án nokkurs efa má rekja stærsta hluta þess til beinna og  óbeinna áhrifa EES-samningsins.

Flestir sammála um jákvæð áhrif

Fyrir um ári spurði Gallup fyrir Samtök iðnaðarins um áhrif EES-samningsins á íslenskt samfélag í tilefni af 10 ára afmæli hans. Forsvarsmenn fyrirtækja í iðnaði velktust ekki í vafa og töldu rúm 82% áhrifin jákvæð en aðeins tæp 7% neikvæð. Svipað var uppi á teningnum þegar almenningur var spurður töldu 72% áhrifin jákvæð en 12% neikvæð.

Tveir þriðju utanríkisviðskipta okkar innan EES

EES-samningurinn þýðir að vettvangur atvinnustarfseminnar er ekki lengur bundinn við staðbundinn heimamarkað heldur er allur EES-markaðurinn undir og þar sitja allir við sama borð hvað leikreglur snertir. Frá þessu eru þó tvo veigamikil frávik sem eru landbúnaður og sjávarútvegur.

EES-markaðurinn er langmikilvægasti markaður Íslands. Milli 70 og 80% utanríkisviðskipa Íslands eru við lönd á þeim markaði. Hann er því sannkallaður hornsteinn viðskipta Íslands við önnur ríki.

Sameiginlegt viðskiptaumhverfi

EES-samningurinn er tveggja stoða, annars vegar eru EFTA-ríkin þrjú og hins vegar ESB-ríkin 25. Samningurinn gerir ráð fyrir einsleitni á markaðnum, þ.e. að ekki skipti máli í hvaða landi tiltekin atvik verða. Um þau gildi sömu reglur og þeim verði framfylgt á sama hátt. Til þess að tryggja þetta hafa EFTA-ríkin sett upp eigin stofnanir sem endurspegla hliðstætt kerfi ESB megin, a.m.k. að hluta, sem eru Ráðherraráðið, Evrópudómstólinn og Framkvæmdastjórnin. Samsvarandi EFTA-stofnanir eru fastanefnd EFTA, EFTA-dómstóllinn og ESA  Eftirlitsstofnun EFTA.

Sökum þess hve víðtækur EES-samningurinn er hefur þurft að leiða fjölda nýrra ákvæða í íslensk lög og breyta öðrum. Þá er samningurinn þeirrar náttúru að breyti ESB sínum reglum á samningssviðinu leiðir það til þess að EFTA-ríkin í EES stoð samningsins verða einnig að breyta sínum til samræmis. Starfs skilyrði atvinnulífsins eru því í ríkum mæli ákveðin af Evrópusambandinu og staðreyndin er sú að þær reglur, sem þaðan koma, henta okkur í flestum tilvikum ágætlega enda er um að ræða samræmdar reglur sem ríki ESB hafa komið sér saman um. Oftar en ekki leysa nýjar reglur af hólmi margar og misjafnar reglur einstakra aðildarríkja ESB og einfalda því regluverkið á svæðinu verulega.

Ótrúlegur málflutningur

Þessar grundvallarstaðreyndir um EES-samninginn eru rifjaðar upp í tilefni þess að í Viðskiptablaðinu þann 7. janúar sl. viðrar Ragnar Árnason, prófessor við hagfræðiskor Háskóla Íslands, þær hugmyndir sínar, eftir að hafa sjálfur greint kost og löst á aðildinni að EES-samningnum, að það sé „... tímabært að við skoðum hvort okkar hag sé ekki beinlínis betur borgið með því að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu og vera lausir við þetta.“

Óhætt er að segja að málflutningur Ragnars stangast algjörlega á við hagsmuni íslensks iðnaðar og íslensks atvinnulífs í heild sinni og þar með hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Hann er sömuleiðis á skjön við það sem 28 Evrópuríki hafa talið sér fyrir bestu. Sviss reynir að gera stöðu sína eins líka aðild að EES-samningnum og unnt er með mörgum tvíhliðasamningum sem hefur tekið nærri áratug að semja um við ESB. Þá er ljóst að Búlgaría, Rúmenía og Tyrkland sækjast eftir aðild að ESB. Það eru því að minnsta kosti 32 Evrópuríki sem telja hag sínum best borgið með víðtækri samvinnu innan ESB og EES. Allt þetta er ákaflega léttvægt í huga Ragnars og er helst á honum að skilja að Íslandi farnist best með því að slíta sem mest sambandið við Evrópuríki enda standi þau Íslandi að baki á flestum sviðum.

Barnaskapur

Ragnari virðist að lítið mál sé að semja við ESB um þá þætti sem okkur hugnast úr EES-samningnum, s.s. fjórfrelsið. „Ég  reikna fastlega með því að við getum gert slíka samninga við ESB engu að síður. Þetta er þeirra hagsmunamál ekki síður en okkar,“ sagði hann í Kastljósinu 11. janúar síðastliðinn. Hér virðist gengið að því gefnu að við getum valið það sem okkur hugnast úr EES-samstarfinu, breytt því í tvíhliðasamning við ESB eins og ekkert sé. Með fullri virðingu fyrir þýðingu Íslands fyrir þær 450 milljónir manna sem eru innan ESB er ég hræddur um að málið sé ekki svona einfalt. Það hafa Svisslendingar fengið að reyna í níu ára samningaþrefi við ESB um tvíhliðasamninga sér til handa og er þó ekki blöðum um að fletta að Sviss er ESB miklu mikilvægara en Ísland.

Sleggjudómar

Raunar er erfitt að taka nokkurt mark á orðum Ragnars um EES-samninginn og trúa að talað sé í alvöru. Nægir í því sambandi að nefna fá dæmi. Um evrópska skóla segir Ragnar: „En þá ber þess að geta að almennt eru ekki góðir skólar í  löndum Evrópusambandsins, þó vissulega séu þeir fáeinir.“ Um samstarf við evrópska vísindamenn segir Ragnar: „Og yfirleitt er það þannig að við gefum af okkar þekkingu en fáum eiginlega ekkert í staðinn. Þeir standa einfaldlega aftar á fjölmörgum af þessum sviðum.“  Þá vefst ekki heldur fyrir Ragnari hvernig bregðast eigi við því ef erfitt verður með útflutning til ESB. „Það myndi kosta sáralítið að færa útflutninginn eitthvað annað en til Evrópusambandsins.“

Það er sem betur fer afar fátítt að lesa í einu viðtali annað eins samsafn af rakalausum fullyrðingum, drýldni og sleggjudómum. Þó tekur steininn úr þegar í hlut á prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Jón Steindór Valdimarsson