Eru ekki allir í stuði!

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í febrúar 2005

22. feb. 2005

  • Sveinn Hannesson
Er nema von að öll þjóðin sé á því að nú sé veisla og rétt að taka þátt í gleðskapnum með myndarbrag?

Ekkert lát er á fréttum af landvinningum Íslendinga erlendis. Íslenskir viðskiptajöfrar kaupa erlend fyrirtæki í hverri viku. Erlendir fréttamenn og menn í viðskiptum spyrja í forundran hvaðan allir þessir peningar komi. Það er von að spurt sé því að íslenskir viðskiptajöfrar hafa til þessa verið fáséðir í útlöndum. Hér heima er unnið að stærstu virkjanaframkvæmdum sögunnar. Bygging nýs álvers er hafin og stækkun annars. Atvinnuleysi er lítið og fer minnandi. Við fáum toppeinkunn í lánshæfismati erlendra matsfyrirtækja. Bankarnir eru nýbúnir að gefa út afkomutölur sem sýna tuga milljarða króna hagnað, meiri hagnað en dæmi eru til um áður hér á landi og þótt víðar væri leitað. Er nema von að öll þjóðin sé á því að nú sé veisla og rétt að taka þátt í gleðskapnum með myndarbrag?

Samkeppnisgreinum blæðir í rólegheimtum

Framkvæmdastjórar og málsvarar fyrirtækja í útflutnings og samkeppnisgreinum sjást ekki mikið í fjölmiðlum um þessar mundir. Ekki er gert mikið úr því þó að fiskvinnsla á Hofsósi eða Stöðvarfirði leggst af. Í iðnaðinum eru hefðbundin framleiðslufyrirtæki að missa markaðshlutdeild á eigin heimamarkaði í samkeppni við innfluttan varning. Það þykir ekki fréttnæmt þó að íslensk fyrirtæki missi af einni og einni sölu. Menn taka frekar eftir því ef fyrirtækin taka sig upp og flytja starfsemi sína að hluta eða jafnvel að mestu leyti úr landi eins og Plastprent, 66° Norður og Hampiðjan. En látum það ekki spilla góðu gamni. Þetta er auðvitað liður í útrásinni og hver er á móti útrás íslenskra fyrirtæka sem allt of lengi hafa liðið fyrir það að starfa á litlum og erfiðum heimamarkaði.

Viðskiptahallinn ógnvænlegur og krónan riðar til falls

Þá virðast fáir hafa af því teljandi áhyggjur þó að viðskiptahallinn aukist úr rúmum7% af landsframleiðslu á nýliðnu ári í 10 13% halla árin 20052006. Flestir hagfræðingar segja þó að slíkur viðskiptahalli fái ekki staðist og gengisfall krónunnar sé óumflýjanlegt. Ekki sé spurning hvort það gerist heldur hvenær. Enn sér ekki fyrir endann á þeirri hækkun krónunnar sem hófst árið 2002. Flestir eru þó sammála um að gengi íslensku krónunnar sé langt frá því að vera í jafnvægi.

Innstreymi fjármagns er ekki nema að hluta vegna stóriðjuframkvæmda enda byrjaði krónan að styrkjast löngu áður en þær framkvæmdir komust á hönnunarstig. Það sem skýrir þessa hækkun eru miklar væntingar þjóðarinnar og viðbrögð Seðlabanka Íslands sem enn á ný hækkar skammtímavexti og nú enn meira og hraðar og í stærri stökkum en áður hefur gerst.

Hátt gengi ryður iðnaði og fiskvinnslu úr landi

Samkvæmt lögmálum hagfræðinnar ættu svo gífurlegar vaxtahækkanir að hafa þau áhrif að draga úr neyslu og kæla niður hagkerfið. Það gerist ekki hér því að flóðgáttir erlendrar lántöku eru opnar og þar við bætist að vextir af húsnæðislánum hafa á sama tíma lækkað stórlega. Hvað gerir íslenska eyðsluklóin við þessar aðstæður? Hún kaupir stærra hús með 80% eða 100% húsnæðisláni og borgar upp VISA skuldirnar og yfirdráttinn í leiðinni og kemur út með afgang til að kaupa bíl og þvottavél. Einu merkjanlegu áhrifin af vaxtahækkunum Seðlabankans að undanförnu eru þau að gengi íslensku krónunnar hækkar enn og iðnaði og fiskvinnslu er ýtt úr landi. Ferðamenn fara annað í sumarleyfinu og viðskiptahallinn eykst. 

Ekkert við þessu að gera?

Viðskiptahallinn er besti mælikvarðinn á eyðslugleðina. Timburmennirnir verða mældir í atvinnuleysi. Það er nefnilega alls ekki víst að þeir, sem nú taka þátt í Hrunadansinum af mestum krafti, hafi ennþá vinnu þegar kemur að skuldadögum í niðursveiflunni.

Allt er þetta vel þekkt en er nokkuð við þessu að gera? Er þetta ekki bara sá fórnarkostnaður sem þjóðin verður að greiða fyrir þann ávinning að hafa laðað til sín erlend stóriðjufyrirtæki? Vissu ekki allir að búast mætti við háu gengi krónunnar og háum vöxtum meðan þessar framkvæmdir stæðu yfir? Það er rétt að við, sem lengi höfum búið við óstöðuga og sveiflukennda krónu, bjuggumst við að þrengja myndi að samkeppnisgreinunum á þensluskeiði sem reiknað var með að yrði í hámarki á árunum 20052006. Miklar væntingar urðu hins vegar til þess að gengi krónunnar fór strax að hækka á árinu 2002 og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. 

Gengissveiflurnar drepa

Flestir kjarasamningar eru til fjögurra ára og fela í sér kostnaðarhækkanir á bilinu 1618%. Það er helmingi meiri hækkun en almennt gerist í nágranna og samkeppnislöndum okkar. Skýringin er auðvitað sú að allir vita að hér má vænta meiri sveiflna í verðlagi og gengi en í nágrannalöndunum. Við þurfum að hækka meira af því að við greiðum í óstöðugum gjaldmiðli. Einungis frá miðjum febrúar 2004 til sama tíma í ár hefur gengisvísitala íslensku krónunnar hækkað um rúm 7%. Sú breyting hefur meiri neikvæð áhrif á afkomu dæmigerðs iðnfyrirtækis í samkeppnisiðnaði heldur en allar umsamdar launahækkanir nýgerðra kjarasamninga. Hörður Arnarson, forstjóri Marels, hefur sýnt fram á þetta með ágætum dæmum. Niðurstaða hans er sú að 5% gengishækkun krónunnar jafngildi nærri 16% launahækkun og 15% gengishækkun samsvari 47% launahækkun. 

Tökum upp evru

Sem betur fer virðist stór hópur hagfræðinga og stjórnmálamanna vera farinn að átta sig á því að íslensk fyrirtæki geta ekki unað við þessar sveiflur í gengi gjaldmiðils okkar. Almennt er viðurkennt að sameiginleg mynt gerir allt í senn að draga úr gengissveiflum, auka og auðvelda viðskipti og minnka kostnað. Við getum ekki við það unað að ný erlend fjárfesting kosti það að því, sem fyrir er, sé rutt úr landi í stórum stíl. Lausn vandans er þekkt. Tökum upp evruna, sameiginlega mynt Evrópuríkja.

 

Sveinn Hannesson