Óþrjótandi auðlind framtíðarinnar
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í Mars/Apríl 2005
Þegar hagtölur og hagsaga eru skoðuð fer ekki milli mála að íslenska hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum áratug eða svo. Hagvöxtur hefur aukist og á að miklu leyti rætur að rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi en áður var. Ástæðurnar fyrir þessari umbyltingu eru margslungnar en tengjast ekki síst hinu breytta starfsumhverfi fyrirtækja sem hefur fylgt EES-samningnum.
Í iðnaði hafa áhrifin komið fram með velgengni fyrirtækja sem hafa frá því að vera lítil sprotafyrirtæki þróast í stórfyrirtæki á borð við Actavis, Össur, Marel og Íslenska erfðagreiningu. Hátæknigreinar iðnaðar hafa verið í mikilli sókn og hlutdeild þeirra í framlagi til verðmætasköpunar hefur aukist úr um 1% árið 1998 í 4% árið 2004. Þessar greinar voru vart merkjanlegar í hagtölum fyrir rúmum áratug. Þetta er mikil breyting því hér er verið að tala um hlutdeild af heildarverðmætasköpuninni.
Í spá um þróunina næstu árin er reiknað með að verðmætasköpun hátæknifyrirtækja verði orðin um 8% af landsframleiðslu árið 2010. Það er svipuð stærð og veiðar og vinnsla samanlagðar eða mannvirkjagerð í heild.
Þögul bylting
Iðnaður aflar um 22% gjaldeyristekna þjóðarbúsins og hefur sú hlutdeild tvöfaldast frá gildistöku EES samningsins árið 1994. Nálega helming aukningarinnar má rekja til útflutnings hátæknigreina iðnaðarins sem var hverfandi lítill fyrir rúmum áratug en er nú um 7%. Hinn helmingur aukningarinnar skiptist nokkuð jafnt á milli afurða stóriðju og annarra iðnaðarvara. Þetta er merkilegasta breyting í útflutningi Íslendinga hin síðari ár og hefur vakið ótrúlega litla athygli.
Hátæknivörur og þjónusta margfalda sinn hlut
Gangi það eftir sem mörgum þykir ótrúlegt að hátæknifyrirtækin eigi eftir að auka hlutdeild sína í gjaldeyristekjum úr 7% í 15% fram til ársins 2010 eru hátæknivörur og þjónusta orðnar ein af meginstoðum í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Það er einmitt sú framtíðarsýn sem Samtök upplýsingatæknifyrirtækja hafa sett fram undir yfirskriftinni Þriðja stoðin. Það er alls ekki sjálfgefið að hér vaxi upp kröftugur og þróttmikill iðnaður sem byggst á hátækni. Til þess þarf samstillt átak um efnahagslegan stöðugleika, gott menntakerfi, rannsókna og þróunarstarf og loks þarf að efla fjárfesta á borð við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins svo þeir geti sinnt fjárfestingum í vænlegum sprota og nýsköpunarfyrirtækjum með þolinmóðu fjármagni. Umfram allt þarf mótaða og markvissa stefnu og samvinnu fyrirtækja og stjórnvalda.
40% gjaldeyristekna úr iðnaði árið 2010?
Gangi sú spá, eftir sem sett er fram í Hátækniskýrslunni margumræddu, verður innan fárra ára gerbreytt landslag í íslensku atvinnulífi. Framleiðsla áls verður fyrirsjáanlega orðin yfir 700 þúsund tonn á ári og hlutdeild stóriðju í gjaldeyristekjum orðin um 23%. Samanlagðar gjaldeyristekjur iðnaðarins, þ.e. stóriðju, hátækni og almenns iðnaðar gætu þá verið komnar upp í um 40% af árlegum gjaldeyristekjum. Þetta er síður en svo fjarlægur draumur heldur það sem búast má við að verði að veruleika á næstu 5 árum.
Óþrjótandi auðlind
Það er gleðilegt að Íslendingar beisla í auknum mæli tækniframfarir og skapa með þeim ný verðmæti. Þessi þróun er einnig jákvæð vegna fjölda vel launaðra starfa sem verða til í slíkri starfsemi. Þá hefur þjónustustarfsemi ýmiss konar einnig verið í mikilli sókn. Íslenska hagkerfið er nú orðið mun áþekkara því sem þekkist í nágrannalöndum okkar í Evrópu. Um leið og það gerist átta menn sig á því að atvinnulíf okkar lýtur sömu lögmálum og atvinnulíf annarra þjóða. Þær þjóðir hafa áttað sig á því að framtíðin liggur í að nýta hugvitið, auðlindina sem sker sig úr að því leyti að hún vex þeim mun meira sem af henni er ausið.