Forgangsröðun samgöngumannvirkja
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í maí 2005
Því miður er ekki hefð fyrir því að einstakir stjórnarþingmenn skeri upp herör og beiti sér fyrir sjálfstæðum tillöguflutningi á Alþingi. Helst eru það einhver ópólitísk smámál t.d. um fána, fuglaveiðar eða hnefaleika sem fá að fljóta í gegn og verða að lögum eftir nokkrar tilraunir. Hefð er fyrir því að stjórnarþingmenn hafi hægt um sig en þingmenn í stjórnarandstöðu leggja fram fjöldann allan af frumvörpum sem samviskusamlega eru svæfð svefninum langa í þingnefndum.
Rödd úr Kópavogi
Það er að vonum að breytingar tillögur Gunnars Birgissonar við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 20052008 veki talsverða athygli. Í fyrsta lagi er Gunnar stjórnarþingmaður af SV-horninu. Í öðru lagi hefur hann faglega þekkingu á því sem um er að ræða. Síðast en ekki síst bera tillögur hans vott um að hann vill forgangsraða framkvæmdum í takt við arðsemi þeirra.
Útdeiling vegafjár í maí
Það er einkennileg umræða sem á sér stað um útdeilingu vegafjár þessa dagana. Það er í sjálfu sér ótrúlegt að þessi umræða um framkvæmdir á árinu 2005 skuli vera á dagskrá í maímánuði á síðustu dögum þinghaldsins þegar löngu ætti að vera búið að bjóða út framkvæmdir ársins og verktakar ættu að vera byrjaðir á framkvæmdum eða a.m.k. að undirbúa þær. Það er nefnilega vitað að öllum verkum á helst að ljúka í október þó að dragist langt fram á sumar að bjóða út.
Kjördæmapotið
Það er augljóst hverjum sem sækir Útboðsþing SI í janúar að áhersla í uppbyggingu opinberra bygginga og samgöngumannvirkja endurspeglast sterklega af því úr hvaða kjördæmi viðkomandi ráðherra kemur. Ekki þarf að færa fram nein dæmi þessu til sönnunar enda öllum augljóst og hefur oftar en ekki verið aðhlátursefni verktaka á Útboðsþingum liðinna ára. Reyndar má stórlega draga í efa að stjórnmálamenn eigi að vera að vasast í því að skipta fjárveitingum til vega og hafna heldur einungis að ákveða heildarfjárveitingar til málaflokka en láta fagmenn um að forgangsraða verkefnum.
Sárabætur í formi samgöngumannvirkja
Það er kominn tími til að hætta að dýpka hafnir og leggja vegi sem sárabætur til íbúa þeirra staða sem hafa glatað efnahagslegum tilverugrunni sínum hvort sem það er vegna breyttra atvinnuhátta eða stjórnvaldsákvarðana. Þeim fjármunum er kastað á glæ og væru miklu betur komnir í aðstoð við íbúana sjálfa þannig að þeir annaðhvort geti flutt búferlum eða skapað sér ný atvinnutækifæri. Aukin menntun og markviss uppbyggingarstefna á sviði hátækni er miklu skynsamlegri fjárfesting en óarðbærar vegaframkvæmdir og ónotaðir flugvellir og hafnir á víð og dreif um landið.
Arðsemi ráði forgangsröðun að mestu
Bæði er skynsamlegt og tímabært að forgangsraða opinberum framkvæmdum fyrst og fremst á grundvelli arðsemisútreikninga. Í þeim útreikningum á að sjálfsögðu að taka fullt tillit til umhverfisþátta, mengunar og slysahættu. Það er t.d. afar líklegt að arðbært sé að fækka þeim dauðagildrum sem einbreiðar brýr á hringveginum eru. Það er einnig hægt að taka inn í arðsemisútreikninga félagslega þætti eins og sérstök vandamál einstakra byggðarlaga eða landshluta. Sjálfsagt væri það nauðsynlegt á meðan verið væri söðla um frá pólitískum ákvörðunum yfir í ákvarðanir byggðar á arðsemisút reikningum. Slíkir þættir gætu t.d. vegið að hámarki 20 25% í upphafi og færu síðan minnkandi.
Allir tapa á vitleysunni
Þau átök, sem nú eiga sér stað um skiptingu fjár til samgöngumála, eru engum til góðs. Þjóðin í heild tapar á því að ráðast í óarðbærar framkvæmdir meðan arðbærari verkefni bíða. Ótaldar vinnustundir glatast hjá þeim sem nota samgöngumannvirki sem ekki anna umferðinni. Þetta er vítahringur því að fyrirtækin þurfa að fjölga eigin bílum eftir því sem tafir eru meiri í umferðinni. Það þarf fleiri leigubíla eftir því sem fleiri sitja fastir í umferðinni. Þannig vindur vandinn upp á sig. Á sama tíma er tekin ákvörðun um að setja marga milljarða í jarðgöng sem fyrir tveim árum var frestað vegna hættu á efnahagsþenslu. Það er von að þjóðin sé ekki sammála svona undarlegum ákvörðunum og þær verða heldur ekki nein pólitísk lyftistöng fyrir þá sem að þeim standa.