Útrás eða flótti

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í júní 2005

15. jún. 2005

  • Sveinn Hannesson
Það er fyllilega tímabært að íslensk stjórnvöld móti stefnu og framkvæmdaáætlun um hvernig við viljum að íslenskt atvinnulíf þróist á næstu árum og hvernig best verði tryggt að starfsskilyrði hér verði þannig að íslensk fyrirtæki geti byggt upp starfsemi hér á landi ekki síður en í öðrum löndum.

Enginn velkist í vafa um að vöxtur stærstu og öflugustu fyrirtækja okkar hefur byggst á því að þau geta leitað út fyrir landsteinana. Þetta er í daglegu tali nefnd útrás íslensks atvinnulífs og varla er nokkur maður sem dregur í efa að hún sé af hinu góða. Fyrir íslensk fyrirtæki er það að sjálfsögðu fyrst og fremst aðgangur að markaði milljónaþjóða sem sóst er eftir. Þá má nefna tækni- og markaðsþekkingu, beina fjárfestingu erlendis, erlenda fjárfestingu hér á landi og síðast en ekki síst rekstur og framleiðslu í betra rekstrarumhverfi.

Umtalsverður árangur

Íslendingum hefur orðið verulega ágengt við að koma framleiðslu sinni á markað erlendis og þeir eru óragir að auka vöxt eigin fyrirtækja með fjárfestingum og uppkaupum á erlendum fyrirtækjum í ólíkum greinum. Við látum okkur í léttu rúmi liggja þó að ýmsir aðilar í röðum kaupsýslu- og fréttamanna láti í ljós undrun sína yfir „Íslensku innrásinni’’ eins og Danir kalla hana.

Ójafnvægi í beinum fjárfestingum

Gallinn við þetta er sá einn að sum þessara fyrirtækja verða fljótlega að litlu eða engu leyti íslensk. Þau flytja beinlínis alla sína starfsemi úr landi. Við höfum alls ekki náð nauðsynlegu jafnvægi í fjárfestingum eins og t.d. Danir. Fjárfestingar Dana erlendis eru á hverju ári svipaðar því sem erlendir aðilar fjárfesta fyrir í Danmörku. Þetta hefur okkur ekki auðnast þrátt fyrir lágt tekjuskattshlutfall fyrirtækja og t.d. ekki heldur frændum okkar Finnum. Það sætir reyndar furðu þar sem þeir eru ávallt í verðlaunasæti þegar gerður er samanburður á starfsskilyrðum fyrirtækja í ólíkum löndum. Fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi hafa verið hverfandi litlar ef undan er skilinn orkufrekur iðnaður. Þau fyrirtæki hafa hingað til samið sig meira eða minna frá almennum starfsskilyrðum t.d. í skattamálum og þau hafa einnig dregið úr áhættu sinni með því að tengja helstu aðföng sín, þ.e. rafmagnsverð, við heimsmarkaðsverð á framleiðslu sinni.

Styrkleiki og veikleiki

Miklar úrbætur á skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja eru stórt skref í þá átt að gera Ísland að álitlegum stað til að fjárfesta og stunda atvinnurekstur. Hins vegar eru aðrir þættir sem fæla frá og þar vegur örugglega langþyngst hin óstöðuga og sveiflukennda mynt okkar. Launhækkanir hér á landi eru einnig nálega tvöfaldar á við það sem almennt gerist í nágrannalöndum okkar. Slík þróun til margra ára er ekki freistandi umhverfi fyrir fjárfesta. Í þriðja lagi má nefna að þó að EES-samningurinn tryggi okkur aðgang að innri markaði ESB er alls óvíst hvort hann fær staðist til frambúðar ef horft er til næstu áratuga.

Stefnumótun nágrannaþjóða

Nágrannaþjóðir okkar eru í óða önn að móta sér stefnu um það hvernig þær geti sem best tryggt eigin samkeppnishæfni á tímum hnattvæðingar og alþjóðlegrar samkeppni. Danir hafa að finnskri fyrirmynd hafið mikla vinnu til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Þeir setja markið hátt og hafa lýst því yfir að Danmörk eigi að vera samkeppishæfasta samfélag í heimi árið 2015. Allar nágrannaþjóðir okkar ætla að auka menntun og rannsóknir sem allra mest en gæta þess jafnframt að almenn starfsskilyrði fyrir atvinnurekstur séu í fremstu röð og alls ekki lakari en í nágranna- og samkeppnislöndum. Höfuðáhersla er lögð á að skapa sem flest hátæknistörf þar sem verðmætasköpunin stendur undir þeim kröfum sem við gerum um laun og lífskjör. Fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu í ólíkum löndum eru í harðri og óheftri samkeppni sín á milli. En um leið eru löndin sjálf með sín fjarskipta-, fjármála-, mennta- og skattkerfi í bullandi samkeppni um fjárfestingar, framleiðslu, fjármagn og fólk.

Tímabært að við mótum okkur stefnu

Það er fyllilega tímabært að íslensk stjórnvöld móti stefnu og framkvæmdaáætlun um hvernig við viljum að íslenskt atvinnulíf þróist á næstu árum og hvernig best verði tryggt að starfsskilyrði hér verði þannig að íslensk fyrirtæki geti byggt upp starfsemi hér á landi ekki síður en í öðrum löndum. Hér er enga tryggingu hægt að kaupa frekar en í annarri samkeppni. Finnar hafa byggt upp tæknimenntun. Þeir gengu í ESB og tóku upp evru, vextir eru lágir og þar ríkir fjármálalegur stöðugleiki og starfsskilyrði fyrirtækja eru talin góð í alþjóðlegum samanburði. Samt eiga þeir í erfiðleikum með að laða til sín erlenda fjárfesta. Engum dettur í hug að þeir væru betur settir ef þeir hefðu ekki árum saman unnið hörðum höndum að því að bæta eigin starfsskilyrði.

Gerist ekki af sjálfu sér

Spurningin sem við Íslendingar þurfum að spyrja okkur er þessi: Hvernig ætlum við að standa að því að auka hér verk- og tæknimenntun, efla rannsóknir og nýsköpunar- og þróunarstarf, tryggja aðgang okkar að erlendum mörkuðum til frambúðar og síðast en ekki síst að tryggja stöðugleika í verðlagi og gengisskráningu og eðlilegt vaxtastig? Þetta gerist ekki af sjálfu sér en gerist það ekki fara fyrirtækin annað. Því miður fara þau bestu fyrst. Þau eru mörg þegar með starfsemi erlendis og eiga auðveldast með að fara.

Þá breytist útrásin í flótta.