Uppsveifla í byggingariðnaði og mannvirkjagerð

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í júlí 2005

15. júl. 2005

  • Sveinn Hannesson
Byggingariðnaður er að tæknivæðast og hann er einnig í vaxandi mæli í samkeppni við erlend byggingarfyrirtæki og framleiðendur byggingarvara. Þessi þróun kallar á nútímalega stjórnunar- og rekstrarhætti og um leið færri og stærri fyrirtæki.

Eitt mesta vaxtarskeið bygginga- og mannvirkjaiðnaðar um áratuga skeið stendur nú yfir. Reyndir forustumenn í þessum greinum vitna um að þeir hafi aldrei áður upplifað svo mikil umsvif. Púlsinn, fréttablað Iðntæknistofnunar og RB sem nýlega fjallaði um fjármunamyndun í byggingariðnaði, staðfestir þetta. Verðmætasköpun í iðnaði og mannvirkjagerð er um fjórðungur af landsframleiðslu, mannvirkjagerðin ein er með 10,3% af landsframleiðslu. Púlsinn bendir á að árið 2003 var 68,5% af varanlegri fjármunamyndun (fjárfestingu) í landinu í mannvirkjagerð.

Víða er pottur brotinn

Þrátt fyrir þennan uppgang er alveg ljóst að ýmis starfsskilyrði hafa verið þessari mikilvægu atvinnugrein til trafala. Þar má einkum nefna:

1. Árstímabundnar sveiflur og sveiflur í eftirspurn milli ára.
2. Lóðaskort og óskipulagt lóðaframboð.
3. Smáfyrirtæki sem koma og fara.
4. Samkeppni við svarta starfsemi og kennitöluflakk.
5. Gæðavandamál og skort á fagmennsku.
6. Tvístraða hagsmunagæslu.
7. Málefni byggingariðnaðar heyra undir þrjú ráðuneyti.

Vert er að líta á nokkur atriði sem snúa að rekstri fyrirtækjanna sjálfra og setja í samhengi við það sem forustumenn í byggingariðnaði og mannvirkjagerð segja í þessu tölublaði Íslensks iðnaðar.

Mennta- og gæðamál

Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks, leggur áherslu á góða menntun starfsmanna sinna. Þekking fyrirtækisins er bundin fólki, mannauði, sem getur nýtt hæfileika sína við ólíkar og síbreytilegar aðstæður. Sérstök áhersla er lögð á öryggis- og gæðamál. Undir þetta tekur Eiður Haraldsson, framkvæmdastjóri Háfells. Hann telur það hafa skipt sköpum fyrir sinn rekstur að hafa tekið upp gæðakerfi. Vonir hans standa til að bygginga- og jarðverktakafyrirtæki vinni öll í framtíðinni samkvæmt samræmdu gæðakerfi.

Mikilvæg þjónusta í boði hjá SI

Yfirlýsingar Lofts og Eiðs gefa SI byr í seglin. Undanfarin ár hafa Samtökin einmitt lagt mikla áherslu á þjónustu við fyrirtæki sín á sviði gæða- og menntamála. Hjá Samtökunum vinnur sérfræðingur sem er reiðubúinn að aðstoða fyrirtæki við að stíga fyrstu skrefin til að koma á fót eigin gæðastjórnun. Sömuleiðis eru Samtökin með sérfræðing á sviði menntamála sem vísar fyrirtækjum veginn við að sækja menntun og þjálfun fyrir starfsfólk sitt. Menntafélag byggingariðnaðarins sér um endur- og símenntun á sviði byggingariðnaðarins. Öllum fyrirtækjum í bygginga- og mannvirkjaiðnaði stendur til boða að nýta sér þessa þjónustu. Aðeins þarf að lyfta síma eða senda tölvupóst til að fá upplýsingar.
Byggingariðnaður er að tæknivæðast og hann er einnig í vaxandi mæli í samkeppni við erlend byggingarfyrirtæki og framleiðendur byggingarvara.  Þessi þróun kallar á nútímalega stjórnunar- og rekstrarhætti og um leið færri og stærri fyrirtæki.

Verk að vinna fyrir opinbera aðila

Ætlast verður til að opinberir aðilar taki einnig til hendinni. Þar er efst á blaði að koma byggingariðnaði undir eitt ráðuneyti. Í öðru lagi þurfa sveitarfélögin í landinu, ekki síst á SV-horninu, að taka sig á í skipulagsmálum og samræma lóðaframboð. Það er umhugsunarvert sem þeir Kjartan Ragnarsson hjá Nýju húsi ehf. og Jóhann Hlöðversson hjá Risi ehf. segja um lóðaframboð. Skortur á lóðum leiðir af sér óþarflega hátt fermetraverð sem skilar sér ekki til byggingafyrirtækisins heldur eingöngu til sveitarfélagsins. Það er enginn vafi á því að sveiflukennt lóðaframboð á stóran þátt í miklum fjölda smáfyrirtækja sem flest eru skammlíf. Afleiðingarnar eru hins vegar gæðavandamál, svört atvinnustarfsemi, gjaldþrot og kennitöluflakk. Stjórnvöld þurfa af alvöru að koma að því með atvinnugreininni sjálfri að taka á þessum vanda.

Markvissari vinnubrögð við útboð

Þó að hluti fyrirtækja í mannvirkjagerð vinni einkum við að byggja og selja fasteignir, þá er samt stærri hluti sem starfar á opnum tilboðsmarkaði. Opinberir aðilar eru stærstu verkkauparnir og er því mikilvægt að farið sé að gildandi reglum undanbragða- og   undantekningalaust. Kostnaður verktaka við tilboðsgerð er oft umtalsverður og því mikilvægt að leikreglur sem unnið er eftir við mat á tilboðum séu ljósar fyrirfram. Prútt um einingaverð eftir að tilboð hafa verið opnuð á ekki að þekkjast.

Draga má verulega úr árstímabundnum sveiflum

Aukin tækni, afköst og batnandi veðurfar draga úr árstíðabundnum sveiflum sem áður einkenndu byggingariðnað. Nú er hægt að byggja hús árið um kring sem ætti að leiða til jafnari og betri rekstrar. Ólafur Guðmundsson, pípulagningameistari í Hafnarfirði bendir á að verkkaupar óski flestir eftir afhendingu fullbúinna verka á haustin. Þessi ósk markist fremur af hefð en raunverulegri þörf. Minni árstímasveiflur og eðlilegur verktími er allra hagur. Það er beinlínis fáránlegt að verklok í langflestum opinberum útboðum bera upp á októbermánuð rétt eins og reiknað sé með að mannvirkjagerð leggist af yfir vetrartímann. Nútíma byggingarfyrirtæki leggjast ekki í dvala á veturna.