Framtíð fræðslumiðstöðva iðnaðarins
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í ágúst 2005
Samtök iðnaðarins hafa frá stofnun lagt áherslu á mikilvægi menntunar starfsfólks. Í fyrstu stefnuyfirlýsingu SI frá 1993 kemur fram nauðsyn þess að stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja standi til boða menntun við hæfi. Eins og oft hefur verið bent á liggur samkeppnisforskot fyrirtækja um þessar mundir síður í áþreifanlegum eignum eins og fasteignum og tækjum heldur en þáttum sem erfitt er að skilgreina og meta til fjár. Þekkingarauður og mannauður eru meðal þeirra þátta.
SI leggja áherslu á símenntun til að efla mannauð fyrirtækja. Menntun og þjálfun eru meðal helstu forsendna þess að rækta þekkingar- og mannauð. Þess vegna eru Samtök iðnaðarins, ásamt sveinafélögum, eignaraðilar að fræðslumiðstöðvum iðnaðarins: Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins, Fræðsluráði hótel- og matvælagreina, Menntafélagi byggingariðnaðarins og Prenttæknistofnun. Fyrirtæki í annars konar iðnaði hafa ekki notið þjónustu af þessu tagi, hvorki þjónustuiðnaður, UT-iðnaður, plastiðnaður, líftækni- né heilbrigðistækniiðnaður.
Breyttar áherslur
Upphaflega var lögð áhersla á fagleg námskeið tengd nýjum efnum og vinnubrögðum og þess vegna eðlilegt að fyrrnefnd endurmenntunarfélög væru tengd hefðbundnum iðngreinum. Sú hefð að skipta iðnaðinum upp í flokka eftir því úr hvaða hráefni er unnið er hins vegar á undanhaldi. Forráðamenn fyrirtækja hafa áttað sig á því að þeir eiga mesta samleið með þeim fyrirtækjum sem vinna á sama markaði og þjóna sömu viðskiptamönnum óháð því úr hvaða hráefni er unnið. Á sama tíma eru væntingar fyrirtækjanna um þjónustu á sviði endurmenntunar að breytast. Meiri áhersla er lögð á rekstur, stjórnun og samstarf og verkefnavinna fyrir menntamálayfirvöld kallar á breytingar á þessum rekstri. Þá er ljóst að aukið framboð og um leið aukin samkeppni á sviði námskeiðahalds og ýmiss konar fræðslustarfsemi þrýsta á breytingar.
Aukin samvinna
Verkefni um aukið samstarf fræðslumiðstöðva iðnaðarins, sem framkvæmdastjórar menntafélaganna skilgreindu og KPMG skilaði skýrslu um 2004, er algerlega í samræmi við stefnu SI í þessum málaflokki. Samtök iðnaðarins hafa lýst velþóknun sinni á skýrslunni og hyggjast fylgja því eftir af þunga að sú stefna, sem þar er mótuð, nái fram að ganga. SI hafa því lagt áherslu á að fræðslumiðstöðvar iðnaðarins sameini kraftana um allt sem er sameiginlegt og skynsamlegt að vinna saman um.
Þörf fyrir skýra stefnu
Því er ekki að leyna að væntingar SI um aukið sjálfsprottið samstarf menntafélaga iðnaðarins hafa ekki gengið eftir. Þrátt fyrir skýr markmið um aukið samstarf á ýmsum sviðum hefur of hægt miðað í þá átt. Það er óviðunandi að aukið samstarf fræðslumiðstöðvanna skuli ekki þróast eftir fyrirliggjandi áætlun þrátt fyrir mikla undirbúningsvinnu. Því er ekki um annað að ræða en að SI og verkalýðsfélögin, sem að þessu samstarfi koma, taki af skarið og móti skýra stefnu í þessu samstarfi.
Niðurstaða úr stefnumótun
Á stefnumótunarfundi fræðslumiðstöðva iðnaðarins nú í sumar kom skýrt fram að vilji er til aukins samstarfs eða samruna félaganna. Einnig er mikil samstaða um að auka samstarf við aðrar menntastofnanir og þá einkum horft til nýja Háskólans í Reykjavík. Þá er ánægjuleg samstaða um að greina þarfir fyrirtækjanna sem langmest greiða til þessarar starfsemi og sníða þjónustu að þörfum þeirra.
Stefna SI
Í samræmi við þessar niðurstöður hefur vinnuhópur innan SI tekið saman tillögur um stefnu SI í málefnum menntafélaganna. Á stjórnarfundi SI 24. ágúst voru þessar tillögur ræddar og samþykktar. Kjarninn í þeim er sá að stefna að sameiningu FM, FHM, MFB og PTS í eina öfluga en um leið deildaskipta fræðslumiðstöð. Það er í senn raunhæfur og fýsilegur kostur bæði fjárhagslega og faglega. Ætlunin er að fjalla um málefni fræðslumiðstöðvanna á fundi stjórnar og ráðgjafaráðs í september næstkomandi. Samtök iðnaðarins vilja að fyrirkomulag þeirra breytist sem fyrst og helst í góðri samvinnu við sveinafélög. SI líta svo á að með sameiningu fræðslumiðstöðva iðnaðarins náist það markmið sem lýst er sem lokaáfanga í tillögunum eins og þær birtast í fyrrnefndri skýrslu KPMG..