Skynsamleg ákvörðun
Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í september 2005
Eftir að netbólan svokallaða sprakk hafa verið afar mögur ár hjá nýsköpunar og sprotafyrirtækjum hér á landi. Áhættufjárfestar kipptu að sér hendinni og hafa undanfarin þrjú ár forðast óskráð fyrirtæki eins og brennd börn sem forðast eldinn. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) fór ekki varhluta af þessum vandræðum og hefur undanfarin ár átt fullt í fangi með að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum, sem hann hafði áður fjárfest í, meðan aðrir hafa haldið að sér höndum.
Nýsköpun í svelti
Samtök iðnaðarins hafa bent á hversu mikilvægt það er að hlúa að vænlegum vaxtarbroddum í atvinnulífinu. Þróun fjármagnsmarkaðar hefur vissulega verið ör hér á landi en á sviði fjármögnunar nýsköpunar og sprotafyrirtækja hefur orðið alvarlegur markaðsbrestur. Þar sem oft tekur 10 til 15 ár að byggja upp hátæknifyrirtæki er það alvarlegt mál fyrir stuðningsumhverfið og fjárfesta ef nýsköpun í atvinnulífinu stöðvast vegna þess að fjármagn vantar þótt tækifærin séu fyrir hendi.
Ný og arðbær störf
Kannanir sýna að við höfum staðið höllum fæti í samanburði við aðrar þjóðir þegar metinn er aðgangur nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni en sömu kannanir sýna einnig að í þjóðinni býr mikill sköpunarkraftur og frumkvöðlaandi. Þessa krafta þarf að virkja því að þeir eru forsenda hagvaxtar í framtíðinni. Ný og arðbær störf þarf til að fylla í skörðin á tímum alþjóðlegrar samkeppni og hnattvæðingar. Allar þjóðir keppa að því að skapa ný og arðbærari störf í stað þeirra sem glatast í alþjóðlegri samkeppni. Takist það hagnast þær á hnattvæðingunni.
Skynsamleg ákvörðun
Það er afar ánægjulegt að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja samtals 2,5 milljörðum króna af söluandvirði Landssímans til þess að efla Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (NSA). Raunar má segja að allur ferillinn við sölu og ráðstöfun söluandvirðis Símans hafi verið afar vel ígrundaður en það lýsir sér best í því að um þetta mál virðist ríkja alger sátt hjá þjóðinni og hefur þó oft verið deilt um smærri mál en þetta. Þörf NSA fyrir nýtt fé er brýn. Stjórn sjóðsins hefur talið nauðsynlegt að sjóðurinn fái þrjá milljarða króna, á næstu tveimur til þremur árum til þess að geta sinnt verkefnum sínum, annars vegar til að verja eldri fjárfestingar og hins vegar til beinna fjárfestinga í nýjum fyrirtækjum.
Samstarfsverkefni atvinnulífs og ríkisvalds
Nýsköpunarsjóður var í upphafi byggður upp af þeim hluta eiginfjár fjárfestingarsjóða sjávarútvegs og iðnaðar sem atvinnulífið var talið eiga. Þar sem erfitt reyndist að sýna fram á formlegt eignarhald að þessum fjármunum varð niðurstaðan sú að sjóðurinn yrði að nafninu til í eigu ríkissjóðs eftir þeirri gömlu reglu að „það sem enginn á það á kóngurinn.“ Hins vegar leggur ríkissjóður nú til verulegt fjárframlag í sjóðinn og innsiglar með þeim hætti samstarf ríkisvalds og atvinnulífs um þetta mikilvæga málefni. Því ber að fagna.
Öðrum fjárfestum opnuð leið
Stjórn NSA hyggst stofna til sérstakra framtakssjóða með öðrum aðilum til þess að leggja fé í nýsköpun. Í fyrstu umferð hefur einkum verið horft til lífeyrissjóða í því sambandi. Viðræður hafa leitt í ljós skýran vilja af hálfu lífeyrissjóða til þess að koma að stofnun sjóðs eða sjóða. Hins vegar eru nokkur atriði sem verður að breyta ýmist strax eða síðar til þess að framtíðarsýn um öflugt samstarf NSA og lífeyrissjóðanna geti orðið að veruleika.
Nokkur atriði sem lagfæra þarf
Nú ríður á að ríkisstjórnin fylgi eftir farsælli ákvörðun með því að lagfæra ýmislegt í regluumhverfi sjóðsins til þess að fjárframlög til hans nýtist sem best og laða að aðra fjárfesta til þess að efla nýsköpun í landinu. Stjórn NSA hefur kynnt stjórnvöldum tillögur í þessum efnum sem ekki fela í sér neinar stórvægilegar breytingar en eru engu að síður nauðsynlegar. Þær lúta að sjálfstæði sjóðsins, t.d. varðandi launakjör starfsmanna og reglur um hámarkseignarhlut NSA í framtakssjóðum. Þá má benda á að í lögum er að finna verulegar takmarkanir á aðkomu lífeyrissjóða að fjárfestingarsjóðum af þessu tagi en skv. lögum mega þeir ekki eiga meira en 15% í slíkum sjóði Það er augljóst að eftir því sem lífeyrissjóðum fækkar og þeir stækka kemur þetta ákvæði í veg fyrir að lífeyrissjóðir geti komið með myndarlegum hætti að sérstökum félögum sem fjárfesta í nýsköpun. Þá er lagarammi um sérhæfð fjárfestingarfélög (samlagsfélög) af því tagi, sem hér um ræðir, ófullnægjandi hér á landi, einkum að því er varðar skattalega meðferð þegar í hlut eiga skattfrjálsir aðilar á borð við NSA og lífeyrissjóðina.
Takist að færa þau atriði, sem rakin hafa verið hér að framan í það horf sem óskað er eftir, eru allar líkur á að í hönd fari nýir og bjartari tímar hvað varðar aðgang nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni.