Góður árangur en fallvaltur

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í október 2005

25. okt. 2005

  • Jón Steindór Valdimarsson
Íslenska krónan er lítill gjaldmiðill og íslenska hagkerfið er lítið. Hvort tveggja er því mjög næmt fyrir öllum sveiflum þar sem inn og útstreymi vöru, þjónustu og peninga kemur við sögu. Gengi íslensku krónunnar skiptir sköpum fyrir afkomu samkeppnis- og útflutningsgreina okkar.

Óhætt er að fullyrða að Ísland sé í hópi þeirra ríkja þar sem lífskjör eru hvað best og starfsskilyrði atvinnulífsins koma vel út á margvíslega mælikvarða sem notaðir eru í alþjóðlegum samanburði. Íslenskar aðstæður hafa vakið athygli, ekki síst í kjölfar þess að íslenskir athafnamenn hafa gerst stórtækir við kaup á fyrirtækjum erlendis. Þetta er gleðilegt og sýnir að hér hefur margt gott verið gert. Dæmi um þetta er að á nýliðnum aðalfundi Dansk industri (Samtaka iðnaðarins í Danmörku) var Ísland tekið sem fyrirmynd að því sem vel er gert, ásamt Írlandi og Massachusetts í Bandaríkjunum. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar.

Margt vel gert

Þegar staða Íslands er skoðuð er oftast staldrað við nokkur atriði sem þykja til fyrirmyndar. Fyrst ber að nefna íslenska skattkerfið. Tiltölulega lágir tekjuskattar á fyrirtæki og einstaklinga eru öfundarefni, svo og lágur skattur á fjármagnstekjur, afnám hátekjuskatts og eignarskatts. Skattar af þessu tagi örva til athafna og vinnu.

Atvinnuþátttaka er óvenju mikil hér á landi. Konur eru virkari á vinnumarkaði en í flestum öðrum löndum og við höfum ekki gengið eins langt og margar aðrar þjóðir í að lækka lífeyrisaldur. Þá stendur lífeyriskerfi okkar óvenju styrkum fótum miðað við mörg önnur. Bótakerfi okkar hafa verið þannig að þeir vinna sem geta. Annars staðar hefur víða verið gengið of langt í að gera bótakerfi meira aðlaðandi en vinnu. Þessu til viðbótar kemur langur vinnutími. Þegar allt þetta er talið munar um minna. Á fundi Dansk industri kom fram að ef Danir væru jafn vinnusamir myndi það þýða að þeir hefðu úr um 85 milljörðum danskra króna úr að spila árlega en það jafngildir kostnaði við rekstur sjúkrahúsa þar í landi.

Sveigjanleiki á vinnumarkaði er talinn kostur. Þar hefur Ísland sem betur fer varðveitt sérstöðu sína en mörg vestræn ríki, ekki síst á öðrum Norðurlöndum og norðanverðri Evrópu gert sína vinnumarkaði skaðlega ósveigjanlega og er Þýskaland gott dæmi um það.

Frumkvöðlaandi og vilji til sjálfsbjargar og sjálfstæðis er ríkur hér á landi í samanburði við mörg önnur lönd. Hin síðari ár hefur aukist skilningur á gildi vísinda, rannsókna og þróunarstarfs, samhliða eflingu atvinnulífs sem byggist á virðisaukandi starfsemi menntaðs vinnuafls.

Varðveita verður kostina

Allt hvetur þetta frekar en letur til athafna og hagvaxtar. Kappkosta verður að varðveita þessa góðu stöðu sem við höfum í þessum efnum og helst gera enn betur. Hvorki má draga úr sveigjanleika á vinnumarkaði né grípa til neinna þeirra aðgerða sem draga úr atvinnuþátttöku. Halda ber áfram á braut skattalækkana þegar réttar aðstæður eru fyrir hendi og sníða af augljósa vankanta á borð við vörugjöld og stimpilgjöld. Leggja á enn meiri áherslu á uppbyggingu hátækniiðnaðar og tækni og verkmenntun en verið hefur.

Skeinuhættar sveiflur

Þótt okkur vegni vel eru augljósar blikur á lofti, blikur sem geta kollvarpað því sem áunnist hefur og ekki er minnst á í þeim alþjóðlega samanburði þar sem Ísland er jafnan í efstu sætum. Íslenska krónan er lítill gjaldmiðill og íslenska hagkerfið er lítið. Hvort tveggja er því mjög næmt fyrir öllum sveiflum þar sem inn og útstreymi vöru, þjónustu og peninga kemur við sögu. Gengi íslensku krónunnar skiptir sköpum fyrir afkomu samkeppnis- og útflutningsgreina okkar. Á síðustu 5 árum hefur dollarinn kostað á bilinu 58 til 110 íslenskar krónur og evran 72 til 97 krónur. Það þarf ekki hagspeking til þess að sjá hversu alvarlegar afleiðingar þetta hefur fyrir hvern þann sem fær greitt í erlendri mynt og þarf að skipta í krónur. Verðsveiflan, þegar dollarinn á í hlut, er 88% en 35% þegar evran kemur við sögu. Það eru þessar gífurlegu sveiflur sem eru og verða okkur skeinuhættar. Við þær verður ekki unað.

Gengi gjaldmiðla Norðurlanda gagnvart evru

Það er athyglisvert að skoða stöðu annarra Norðurlandaþjóða að þessu leyti gagnvart evru. Finnar finna engar sveiflur í viðskiptum sem gerð eru í evrum enda þeirra eigin mynt. Danir hafa að nafninu til eigin mynt en hún er svo fasttengd evrunni að sveiflur eru vart merkjanlegar. Svíum hefur tekist að halda sveiflum sænsku krónunnar innan við 5% frá því að seðlabanki þeirra varð sjálfstæður og tók upp verðbólgumarkmið, líkt og sá íslenski. Norðmenn eru á hinn bóginn undir sömu sök seldir og Íslendingar enda þótt þeirra sveiflur séu talsvert minni. Þar í landi eiga útflutnings og samkeppnisgreinar við sömu vandamál að stríða og okkar.

Evran vegur þyngst

Milli 60 og 70% inn og útflutningsverslunar okkar eru við ESB. Stærstur hluti viðskipta okkar er því við ríki sem hafa tekið upp evru, tengst henni traustum böndum eða miða efnahagsstjórn sína við að geta tekið hana upp. Með því að taka upp evru væri því unnt að draga að verulegu leyti úr sveiflum í inn og útflutningsverðlagi, draga úr áhrifum inn og útstreymis fjármagns eins og nú er vegna skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í íslenskum krónum og stórframkvæmda á Austurlandi. Vaxtamunur milli Íslands og annarra ríkja myndi minnka og ábyrg hagstjórn yrði óhjákvæmileg.