Rannsóknastofnanir ráðuneytanna eða atvinnuveganna?

Ritstjórnargrein Íslensks iðnaðar í nóvember 2005

30. nóv. 2005

  • Davíð Lúðvíksson
Stefna Vísinda- og tækniráðs að halda rannsóknastofnunum atvinnuveganna enn um sinn í smáum og veikburða einingum er óskiljanleg. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er ljóst að færa á rannsóknastofnanir atvinnuveganna enn frekar undir áhrifasvið atvinnuvegaráðuneytanna sem endurspegla í raun úrelt skipulag sem löngu er orðið tímabært að breyta. Óhjákvæmilega vakna spurningar um hverjum sé þjónað með þeim tillögum sem nú liggja fyrir – atvinnulífinu eða ráðuneytunum?

Vísinda og tækniráð hefur mótað stefnu um að starfsemi og skipulag rannsóknastofnana atvinnuveganna verði endurskipulögð. Annars vegar á að sameina Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Hins vegar á að sameina rannsóknir á sviði matvælaiðnaðar á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnunar, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar í einkahlutafélagi í eigu ríkisins. Vinnuhópar hafa verið að störfum og nýlega skilað tillögum.

Óskiljanleg stefnumörkun

Samtök iðnaðarins hafa um langt skeið talið æskilegast að rannsóknastarfsemi allra þessara stofnana verði sameinuð í eina öfluga rannsóknastofnun sem starfi í nánum tengslum við atvinnulífið og háskóla á tæknisviðum. Hagræðið ætti að vera augljóst og einstakt tækifæri að tengja þessar stofnanir uppbyggingu háskóla og hátæknisjúkrahúss í Vatnsmýrinni. Með því skapast ný tækifæri til að taka upp þverfagleg viðfangsefni sem krefjast þekkingar á mörgum sviðum og geta fært íslensku atvinnulífi nýja landvinninga á sviðum tækni og þekkingar. Dæmigerð verkefni eru t.d. á matvælasviði þar sem metnaðarfull verkefni um aukið vinnsluvirði matvæla krefjast í vaxandi mæli þekkingar á örverum og eiginleikum matvæla í bland við þekkingu á vinnsluferlum, véltækni, upplýsingatækni, sjálfvirkni, efnistækni og jafnvel nanótækni.

Stefna Vísinda og tækniráðs að halda þessum stofunum enn um sinn í smáum og veikburða einingum er óskiljanleg, jafnvel þótt nú séu stigin hægfara skref í þá átt að stækka einingarnar.

Endurspeglar úrelt skipulag

Í þessu fyrirkomulagi felst í raun fortíðarhugsun sem endurspeglar úrelt skipulag atvinnuvegaráðuneytanna sem löngu er orðið tímabært að breyta. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa lagt mun meiri áherslu á að laga skipulag ráðuneyta sinna að breytingum í atvinnulífinu en gert hefur verið hér á landi.

Okkar skipulag leiðir til þess að úreltri hólfaskiptingu atvinnulífsins er haldið við á ótrúlega mörgum sviðum. Ýmist er togast á um hver eigi að ráða ferðinni í mikilvægum málum eða að verkefnin falla óleyst einhvers staðar milli ráðuneyta þar sem enginn sinnir þeim. Sama á við um rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem oft  keppa um hylli ráðuneyta sinna en hafa takmarkað svigrúm til að koma til móts við óskir og framtíðarþarfir atvinnulífs sem ekki fellur að atvinnuvegaskiptingu ráðuneytanna.

Framtíðaruppbygging atvinnulífsins ekki höfð að leiðarljósi

Þær nefndir, sem iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skipuðu, hafa skilað af sér tillögum. Þegar þær eru skoðaðar blasir við hversu skammt þær ganga og litlar tilraunir gerðar til að skoða í nýju ljósi starfsemi þeirra stofnana sem settar verða á fót. Mest fer fyrir umræðu um hvernig innra skipulagið eigi að líta út.

Í tillögum nefndar iðnaðarráðherra er gert ráð fyrir að sameinuð stofnun verði áfram ríkisstofnun og starfsemin mótuð út frá því sem áður var innan veggja Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og að starfsemi á matvælasviði verði færð út úr starfseminni. Ekki kemur fram hvernig stjórn hennar verður skipuð.  Í tillögum nefndar um matvælarannsóknir er gengið einu skrefi lengra varðandi skipulagsþáttinn. Lagt er til að rekstrarformið verði einkahlutafélag í eigu ríkisins og sjávarútvegsráðherra fari með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu. Einnig er gerð tillaga um 7 manna stjórn sem skipuð verði tveimur fulltrúum sjávarútvegsráðherra, einum fulltrúa landbúnaðarráðherra, einum fulltrúa iðnaðarráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra, einum sameiginlegum fulltrúa HÍ, HR, HA og Landbúnaðarháskólans og loks einum fulltrúa SA. Í báðum tillögunum er lögð áhersla á hagræðingu og samlegðaráhrif en í hvorugri þeirra er gert mikið úr þeim árangri sem að er stefnt í samstarfi við starfsgreinar atvinnulífsins hvað þá að horft sé til framtíðar.

Hverjum er verið að þjóna?

Þegar ljóst var hvert stefndi varðandi breytingar á starfsemi rannsóknastofnananna óskuðu Samtök iðnaðarins eindregið eftir að fá að taka þátt í þeim nefndum sem falið var að vinna tillögur að skipulagsbreytingunum. Við þeirri málaleitan fengust því miður engin önnur viðbrögð en þau að ef menn vildu fá fram einhverjar breytingar yrðu þeir að sætta sig við að málin færu í þann tvískipta farveg sem Vísinda og tækniráð hafði ákveðið.

Þegar fyrirliggjandi tillögur eru skoðaðar nánar liggur ljóst fyrir að verið er að færa rannsóknastofnanir atvinnuveganna enn frekar undir áhrifasvið ráðuneytanna.  Sögulegt tækifæri er ekki nýtt til að ná meiri samhæfingu í starfsemina í einni öflugri stofnun eða félagi sem hefði það að leiðarljósi að vinna náið með fyrirtækjum í atvinnulífinu og samtökum þeirra að uppbyggingu sem skilað gæti mun meiri árangri en fyrra skipulag. Óhjákvæmilega vakna spurningar um hverjum sé þjónað með þeim tillögum sem nú liggja fyrir atvinnulífinu eða ráðuneytunum?