Olíugjaldið: Endalaus vitleysa?
Eins og alþjóð veit eru flest lög afgreidd á Alþingi í tveim stuttum lotum sem helst má líkja við uppþot. Það fyrra er í maí við og miðað við að þingmenn komist heim í sveitina áður en sauðburður hefst fyrir alvöru. Á haustin er lítið afgreitt af lagafrumvörpum fyrr en í byrjun jólaföstu en þá verður annað uppþot í þinginu þegar langþráð jólafrí þingmanna er í sjónmáli.
Fastir liðir
Meðal þeirra mála, sem orðin eru að föstu umfjöllunarefni þegar svona stendur á, eru lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl. sem urðu að lögum vorið 2004 í miklu tímahraki. Lögin tóku gildi um mitt þetta ár eða 1. júlí 2005 en sl. vor var þeim breytt á síðustu stundu fyrir sumarleyfi áður en þau tóku gildi. Slíkt er raunar fátítt en svo augljósir gallar voru á lögunum að ekki þótti fært að láta þau taka gildi óbreytt. Meðal annars hefðu eigendur námubifreiða að óbreyttu átt að greiða af þeim bæði olíugjald og kílómetragjald þó að slík tæki megi alls ekki aka á þjóðvegum landsins.
Samráðið sem gleymdist
Af hálfu fjármálaráðuneytis var því hátíðlega lofað sl. vor að lögin yrðu endurskoðuð í haust að fenginni nokkurri reynslu og að höfðu samráði við þá hagsmunaaðila sem mest eiga undir þessari skattheimtu. Þetta loforð var gersamlega svikið og samráð alls ekkert. Enn einu sinni kom frumvarp frá fjármálaráðuneytinu samið af embættismönnum sem greinilega hafa takmarkaða þekkingu á málinu og enn minni áhuga á leita sér upplýsinga.
Vitleysan endalausa
Það var beinlínis dapurlegt að hlusta á umræður á hinu háa Alþingi þegar þetta mál var til þar til afgreiðslu 8. þessa mánaðar. Þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson kallaði þetta mál „vitleysuna endalausu.“ Sama sinnis var Kjartan Ólafsson og í svipaðan streng tóku aðrir þingmenn sem til máls tóku. Meira að segja Pétur Blöndal, formaður efnahagsog viðskiptanefndar, sem mælti fyrir nýjustu breytingunum, gat ekki annað en tekið undir að þessi skattheimta væri meingölluð og óskilvirk. Hann endurtók hvað eftir annað að einu rökin fyrir upptöku olíugjalds væru þau að opna fyrir notkun smærri dísilbifreiða hér á landi.
Tvöfalt kerfi verður þrefalt
Þarna sannaðist enn hið fornkveðna að mönnum getur skjátlast þótt skýrir séu. Í umsögn allra helstu samtaka atvinnurekenda vorið 2004 kom einmitt fram að samtökin skilja og virða þann vilja stjórnvalda að gera rekstur smærri dísilbifreiða hagkvæmari. Þau voru og eru á hinn bóginn algerlega andvíg þeirri stefnu að taka upp tvöfalda gjaldtöku (olíugjald og kílómetragjald) á bifreiðar með leyfilega heildarþyngd yfir 10 tonn. Þetta tvöfalda kerfi er nú reyndar orðið þrefalt því að sett hefur verið upp sérstakt en meingallað kerfi fyrir sumar þær bifreiðar sem vinna mikið í kyrrstöðu en aka tiltölulega lítið.
Einföld lausn - óbreytt þungaskattskerfi fyrir atvinnutækin
Því miður virðist engum hafa hugkvæmst að skoða tillögur samtaka atvinnurekenda sem lögðu einfaldlega til vorið 2004 að gamla þungaskattskerfið yrði óbreytt fyrir bifreiðar 10 tonn og þyngri. Slíkar bifreiðar myndu þá nota litaða gjaldfrjálsa olíu en greiða fyrir ekna kílómetra samkvæmt mæli. Léttari ökutæki, þar á meðal fólksbílar, myndu hins vegar nota ólitaða olíu og greiða olíugjald, sambærilegt við bensíngjald. Með þessu móti næðist það markmið að gera rekstur léttari dísilbifreiða hagkvæmari og jafnframt fengi ríkissjóður áfram sömu tekjur eða meiri af þyngri bifreiðunum ef nauðsynlegt væri talið að auka skattheimtu af þeim.
Hvað er að?
Helstu gallarnir á skattheimtu samkvæmt nýju lögunum eru:
- Ekki er horfið frá gjaldtöku á ekna kílómetra um leið og tekið er upp gjald á hvern lítra gas- og dísilolíu eins og víða hefur verið gert. Þvert á móti er haldið áfram að leggja verulegt kílómetragjald á allar bifreiðar með leyfilega heildarþyngd yfir 10 tonn, þó að undanskildum fólksflutningabifreiðum.
- Skattheimta á þyngri bifreiðar er stóraukin án þess þó að taka mið af sliti á vegum sem ræðst af þyngd og fjölda ekinna kílómetra. Þyngstu bifreiðarnar, sem aka mest, komu best út úr breytingunni.
Útreikningar á skattlagningu fyrir og eftir þessa breytingu leiða í ljós að hækkunin hjá flestum öðrum er á bilinu 20-40%. - Taka þarf sérstakt tillit til bifreiða sem vinna mikið í kyrrstöðu, svo sem krana-, körfu- og dælubifreiða. Sama á við um götusópa, snjóruðningstæki, söfnunarbíla fyrir sorp svo og steypubifreiðar. Eigendur slíkra bifreiða eiga að geta valið hvort þær eru flokkaðar sem vinnuvélar og mega þá nota gjaldfrjálsa (litaða) olíu en greiða eðlilegt gjald miðað við ekna kílómetra. Það var ekki gert vorið 2004 en við breytinguna nú í desember virðist ætlunin hafa verið að koma til móts við þau sjónarmið. Þegar til kastanna kemur er sú lagasetning öll í mesta skötulíki. Gerð er krafa um að bifreiðarnar séu með áföstum búnaði, eyði meginhluta olíu í kyrrstöðu og gjaldheimta af þeim er aukin um tugi prósenta og svo mætti áfram telja.
- Eftirlit með nýja kerfinu er algerlega í molum sem kallar á undanskot og samkeppnisröskun.
Það er tímabært að nýr fjármálaráðherra taki af skarið og sníði af gallana við skattlagningu stærri bifreiða og atvinnutækja.
Ekki mun standa á liðsinni atvinnulífsins til þeirra verka.