Skýra stefnu og markvissar aðgerðir
Leiðari Íslensks iðnaðar í janúar 2006
Stefnumótun um uppbyggingu hátækni
Í hnattvæddum heimi eru það ekki einasta fyrirtækin sem keppa sín í milli heldur fer samkeppni ríkja heims um fjármagn, framleiðslu og fólk síharðnandi. Harðast er barist um þau störf sem skapa mestu framleiðsluverðmætin. Það er mikill misskilningur ef menn halda að uppbygging hátækniiðnaðar gerist sjálfkrafa á Íslandi á sama tíma og margar helstu samkeppnisþjóðir okkar hafa markað sér þá stefnu og sett sér skýr markmið sem öll miða að því að byggja upp og laða til sín hátæknifyrirtæki. Stjórn Samtaka iðnaðarins telur að stjórnvöld, í samvinnu við hagsmunaaðila, þurfi að móta skýra stefnu sem hafi að markmiði að hvetja til og greiða enn frekar fyrir uppbyggingu hátækniiðnaðar á Íslandi.
Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar
Meðal þeirra tillagna sem stjórn SI tekur heils hugar undir má nefna fjárhagslega hvata til rannsókna og þróunarstarfs innan fyrirtækja líkt og Norðmenn, Svíar, Frakkar og fleiri hafa tekið upp. Að norskri fyrirmynd mætti koma á fót endurgreiðslukerfi vegna viðurkenndra rannsókna og þróunarverkefna. Endurgreiðslur geta numið allt að 20% kostnaðar en með tilteknu þaki. Skattkerfið verði nýtt í þessu samhengi þannig að þau fyrirtæki, sem greiða tekjuskatt, fái afslátt en þau sem ekki greiða skatt fái endurgreiðslur.
Lagfæringar á VSK kerfinu og útvistun verkefna
Gera þarf tafarlausar úrbætur á virðisaukaskattkerfinu sem nú leiðir til óeðlilegs samkeppnisforskots opinberra stofnana og annarra þeirra sem eru utan virðisaukaskattkerfisins. Fyrirtæki verða að leggja virðisaukaskatt á vörur sínar og þjónustu. Í sumum tilvikum fá opinberar stofnanir þann skatt (innskattinn) ekki endurgreiddan. Í stað þess að kaupa þjónustu frá einkafyrirtækjum er starfsemin byggð upp innan húss. Virðisaukaskatturinn virkar þannig eins og 24,5% tollvernd fyrir tiltekna starfsemi á vegum opinberra aðila. Mikill vöxtur opinberra tölvudeilda er ein afleiðing þessa. Sú þróun gengur í raun þvert á stefnu stjórnvalda að bjóða út á sem flestum sviðum þróunar, þjónustu og rekstrarverkefni til fyrirtækja á almennum markaði og forðist þannig óskilvirka uppbyggingu innan eigin stofnana.
Lagarammi um fjármögnun nýsköpunar
Skapa þarf hagstæð skilyrði fyrir framtaksfjárfesta til þess að taka þátt í fjármögnun sprota og nýsköpunarfyrirtækja. Laga og skattareglum vegna slíkrar starfsemi er verulega áfátt. Setja þarf reglur um samlagshlutafélög sem gera fjárfestum kleift að stofna hér á landi félög um nýsköpunar og sprotafjárfestingar án tvísköttunar. Óviðunandi er að
starfsemi af þessu tagi sé hrakin úr landi og slík félög neydd til að reka starfstöðvar í útlöndum eins og nú tíðkast.
Nýsköpunarsjóður og Tækniþróunarsjóður
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins þarf að vera sjálfstæður og öflugur fagfjárfestir. Nýlegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar styrkja stöðu hans verulega en stíga þarf skrefið til fulls með nauðsynlegum lagabreytingum þannig að hann geti beitt sér af fullum styrk við að laða fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði og banka til samstarfs.
Breyta þarf lögum um NSA sem tryggja betur sjálfstæði hans og stöðugleika í starfsemi hans. Tækniþróunarsjóð þarf að efla meira og hraðar en nú er gert ráð fyrir. Framlag til sjóðsins er 460 milljónir í ár en nauðsynlegt er að veita meira fé til hans og setja ætti markið á a.m.k einn milljarð á ári.
Verk, tækni, og raungreinamenntun
Enn ríkari áherslu þarf að leggja á verk, tækni, og raungreinamenntun með markvissri uppbyggingu menntastofnana og fræðslu og áróðri sem miðar að því að hvetja til náms á þessum sviðum. Hátæknifyrirtækin þarfnast vel menntaðs starfsfólks í vaxandi mæli. Það er áhyggjuefni að þeim, sem leggja stund á tæknifræði, verkfræði og aðrar greinar raunvísinda hefur fækkað hlutfallslega undanfarin ár.
Sameining ráðuneyta og rannsóknastofnana
Sett verði á fót eitt atvinnuvegaráðuneyti til að auka skilvirkni í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Núverandi aðgreining er löngu úrelt, hefur margvísleg neikvæð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og veldur skaða og mismunun í atvinnulífinu.
Af sama meiði er tillaga um að sameina rannsóknastofnanir atvinnulífsins í eina öfluga stofnun sem verður í nánu samstarfi við háskóla og fyrirtæki bæði á Íslandi og í útlöndum. Núverandi fyrirkomulag byggist á fortíð og er ekki til þess fallið að þjóna gjörbreyttu atvinnulífi eða stuðla að grósku innan nýrra greina.
Stöðugleiki, vaxtastig og launaþróun
Sveiflur í gengi krónunnar eru miklar og valda erfiðleikum í rekstri. Það á ekki síst við um sprota og nýsköpunarfyrirtæki sem byggja nær öll vöxt sinn á því að sækja á erlenda markaði. Leita þarf allra tiltækra leiða til þess að lágmarka slíkar sveiflur.
Vaxtastig og launahækkanir á Íslandi langt umfram það sem gerist hjá nágranna og samkeppnisþjóðum er öllum rekstri ákaflega þungbært, ekki síst minni fyrirtækjum og þá sérstaklega nýsköpunar og sprotafyrirtækjum. Efnahagslegt umhverfi hérlendis verður að geta leitt til sambærilegra vaxta og launaþróunar og tíðkast í helstu samkeppnislöndum. Hvorugt mun nást nema Ísland verði hluti af stærra myntsvæði og evran leysi íslensku krónuna af hólmi.