Stuðningur við nýsköpun og atvinnuþróun
Leiðari Íslensks iðnaðar í febrúar 2006
Endurskoðun á því kerfi, sem er ætlað að efla og styðja atvinnuþróun og nýsköpun, er tímabær og því er það sérstakt fagnaðarefni að iðnaðar- og viðskiptaráðherra skuli hafa þau mál til umfjöllunar þessa dagana. Af því tilefni er rétt að gera grein fyrir afstöðu Samtaka iðnaðarins í þessum mikilvæga málaflokki.
Stuðningur óháður atvinnugreinaflokkun og búsetu
Tekið er undir það grundvallarsjónarmið að móta þurfi heildstæða stefnu sem tekur til allra þátta þeirrar starfsemi sem stjórnvöld koma að í þeim tilgangi að efla atvinnulíf til nýsköpunar og vaxtar. Sértækar aðgerðir til stuðnings atvinnulífi, sem byggjast á mismunun fyrirtækja eftir staðsetningu eða atvinnugreinum, eru hvorki vænlegar til árangurs né í takt við tímann. Stoðkerfi atvinnulífsins á að vera almennt og gegnsætt. Einingarnar verða að vera nægilega öflugar til að sinna hlutverki sínu. Verkaskipting milli þessara eininga þarf að vera skýr. Að mati Samtaka iðnaðarins er afar óheppilegt að blanda saman stuðningsaðgerðum á borð við tækniráðgjöf og styrkveitingar annars vegar og áhættufjár-festingar hins vegar.
Í aðalatriðum telja SI rétt að skipta stuðningi við atvinnuþróun og nýsköpun í þrjá flokka. Það breytir ekki því að þessa hluti á að skoða í samhengi og móta um þá heild-stæða stefnu eins og rætt er um hér að framan.
Tækniþróunarsjóður - styrkjakerfi
Ekki er langt síðan gerðar voru mikilvægar breytingar varðandi skipulag og fjármögnun vísinda- og tækniþróunar með setningu nýrra laga þar um. Þar er rétt að benda sérstaklega á hlutverk Tækniþróunarsjóðs sem er ætlað að framfylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs með því m.a. að styrkja upp-byggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar. Samskonar starfsemi er að finna innan AVS-sjóðsins. Byggðastofnun hefur einnig veitt styrki og sama gildir um Átak til atvinnusköpunar, styrki félagsmálaráðuneytis til atvinnumála kvenna og e.t.v. fleiri. Þarna falla undir sérstakar stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld kjósa að beita til þess að viðhalda og styrkja byggð utan höfuðborgar-svæðisins eða til aðstoðar einstökum hópum eða atvinnu-greinum í vanda.
Skynsamlegt væri að færa alla slíka starfsemi, sem felur í sér styrkveitingar, undir einn hatt og veita um leið auknu fjármagni í þennan mikilvæga farveg. Lykilatriði er að styrkjum verði úthlutað á samkeppnisgrundvelli.
Ráðgjöf og ábyrgðir
Í öðru lagi er fjölbreytt tæknileg ráðgjöf og einnig fjármálaleg ráðgjöf og aðstoð af margvíslegu tagi, s.s. lán, áhættulán og ábyrgðir, sem gripið er til í þeim tilgangi að örva fólk til þess að stofna til atvinnurekstrar, oft í hefðbundnum greinum, án þess að í rekstrinum felist sérstakt nýsköpunargildi eða mikil von um mjög ábatasaman og atvinnuskapandi rekstur. Iðntæknistofnun, Impra, RB, Byggðastofnun, atvinnu-, iðn- og ferðamálaráðgjafar, atvinnuþróunarfélög o.fl. veita víðtæka ráðgjöf þeim sem eru að hefja rekstur, stunda nýsköpun eða hefðbundinn rekstur. Eðlilegt er að færa alla þessa starfsemi undir einn hatt.
Samtök iðnaðarins telja að ríkið eigi að hætta með öllu að lána fé til atvinnurekstrar. Aðgangur að lánsfé er greiður. Hins vegar getur ríkið haft mikilvægu hlutverki að gegna með því að gangast í ábyrgðir fyrir lánum þar sem tryggingar eða ábyrgðir eru metnar ófullnægjandi. Lánastarfsemin verði í höndum bankanna en ekki ríkisins. Stuðningur af þessu tagi er algengur í nágrannalöndum okkar.
Áhættufjárfestingar
Í þriðja og síðasta lagi þurfa áhættufjárfestingar í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að taka við þegar hlutverki Tækniþróunarsjóðs og aðstoð við frumkvöðla sleppir. Þarna er markaðsbrestur og hefur lengi verið.
Á síðustu misserum hafa verið gerðar mikilvægar breytingar á stefnu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og starfsreglum hans sem allar miða að því að festa í sessi hlutverk hans sem hreins áhættufjárfestis og straumlínulaga starfsemi hans. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til hans verulegt fé og allt er þetta til þess fallið að efla sjóðinn til góðra verka við nýsköpun í landinu. Hér þarf hins vegar að gera betur, ekki síst til þess að gera NSA betur í stakk búinn til að efna til samstarfs við aðra fagfjárfesta um rekstur sérstakra sjóða (sameignarsjóða eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. september 2005).
Búa þarf NSA þá umgjörð að hann geti starfað og lagað sig að þeim reglum og venjum sem gilda um fagfjárfesta á sviði áhættufjárfestinga og þar með notið óskoraðs trausts á þeim markaði. Tillögur um breytingar á lögum um NSA liggja fyrir og eru til skoðunar hjá stjórnvöldum.