Nýskipan stjórnarráðsins

Leiðari Íslenks iðnaðar í mars/apríl 2006.

11. apr. 2006

  • Helgi Magnússon
Um árabil hefur verið rætt um nauðsyn þess að stokka upp Stjórnarráð Íslands og færa skipan þess til nútímalegra horfs. Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á mikilvægi þess að hér verði aðeins eitt atvinnuvegaráðuneyti og þessi skoðun var síðast ítrekuð í ályktun Iðnþings frá 17. mars sl. þar sem segir m.a. að hverfa verði frá hólfaskiptingu stjórnarráðsins sem beri svip af atvinnulífi liðinnar aldar.

Um árabil hefur verið rætt um nauðsyn þess að stokka upp Stjórnarráð Íslands og færa skipan þess til nútímalegra horfs. Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á mikilvægi þess að hér verði aðeins eitt atvinnuvegaráðuneyti.

Þessi skoðun var síðast ítrekuð í ályktun Iðnþings frá 17. mars sl., en þar segir:

„Hverfa verður frá hólfaskiptingu stjórnarráðsins sem ber svip af atvinnulífi liðinnar aldar. Eitt atvinnuvegaráðuneyti þarf til að auka skilvirkni í stoð- og starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Núverandi skipan er löngu úrelt, hefur margvísleg neikvæð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og veldur skaða og mismunun í atvinnulífinu.“

Samráð nauðsynlegt

Spyrja má hvort þessi ályktun sé raunhæf og hvort breyting af þessu tagi sé framkvæmanleg. Svarið er auðvitað jákvætt en það er ekki sama hvernig staðið er að þeim málum. Ríkisstjórnin hefur sagt að unnið sé að breytingum á stjórnarráðinu og er það vel. Nauðsynlegt er hins vegar að breytingar, sem gerðar verða á stjórnarráðinu og varða skipulag ráðuneyta sem hafa með atvinnulífið að gera, verði í samráði við atvinnulífið sjálft. Það er grundvallaratriði.

Skýr verkaskipting

Mikilvægt er að hafa í huga við skipulag stjórnarráðsins að skil séu skýr milli stjórnsýslu og eftirlitsþátta ráðuneyta og undirstofnana þeirra annars vegar og annarra þátta svo sem stefnumótunar og stoðkerfis atvinnulífsins í víðum skilningi hins vegar. Samtök iðnaðarins hafa ekki sett fram ákveðnar fastmótaðar hugmyndir um hvernig þessum málum verði best fyrir komið en eru meira en reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Hér verður sett fram ein hugmynd til umræðu.

Uppstokkun ráðuneyta og verkefna

Vel má hugsa sér nýtt stjórnarráð þar sem væru forsætis-ráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sem væru í stærstum dráttum með sömu eða svipuð verkefni og nú er. Ný ráðuneyti kæmu síðan til viðbótar. Það yrðu innanríkisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti.

Innanríkisráðuneytið færi með dómsmál, sveitarstjórnar-mál, almannatryggingar, jafnréttismál, húsnæðismál og samgöngumál.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið færi með umhverfis- og náttúruverndarmál ásamt málefnum sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda landsins hverju nafni sem nefnast. Með þessari skipan væri mikilvægi umhverfismálanna viðurkennt og áhersla lögð á góða og farsæla sambúð umhverfisverndarstefnu og nýtingar auðlinda þjóðarinnar. Það er afar brýnt að hámarka verðmætasköpun og hagsæld í landinu án þess að ganga í berhögg við umhverfisverndarsjónarmið. Í ljósi þess er skynsamlegt að vinna að þessum málum innan sama ráðuneytis.

Atvinnuvegaráðuneytið yrði eitt öflugasta og mikilvægasta ráðuneytið. Þar yrði fjallað um málefni allra atvinnugreina, alls atvinnureksturs í landinu, og unnið að því að skapa atvinnulífinu sem hagstæðust rekstrarskilyrði.

Með þessari skipan yrðu ráðuneyti Stjórnarráðs Íslands einungis átta talsins. Til yrðu þrjú ný og öflug ráðuneyti sem vænta mætti mikils af. Hin fimm ráðuneytin tækju hins vegar ekki miklum breytingum miðað við þessa útfærslu.

Markvissari og snarpari stjórnarhættar

Ríkisstjórn átta ráðherra ætti að verða skilvirkari og snarpari en tólf manna stjórn. Við hljótum að geta rekið 300 þúsund manna þjóðfélag með fámennari ríkisstjórn en nú er, t.d. þegar litið er til þess hvernig þessum málum er skipað hjá milljónaþjóðum í kringum okkur.

Eigi breytingar af þessu tagi að ná fram að ganga verður að hefja undirbúning án tafar. Best er að gera breytingar af þessu tagi í lok kjörtímabils þannig að nýskipan stjórnarráðsins taki gildi þegar ríkisstjórn tekur við að loknum kosningum. Með því móti er hægt að draga úr togstreitu sem gerir breytingar af þessu tagi yfirleitt torsóttar þegar fækka þarf í valdastöðum.

Alþingi þarf að fjalla um þessi mál strax næsta haust og setja lög sem taka gildi eftir næstu alþingiskosningar vorið 2007.

Nýskipan stjórnarráðs Íslands

  • forsætisráðuneyti
  • atvinnuvegaráðuneyti
  • fjármálaráðuneyti
  • heilbrigðisráðuneyti
  • innanríkisráðuneyti
  • menntamálaráðuneyti
  • umhverfis- og auðlindaráðuneyti
  • utanríkisráðuneyti