Sundabrautarsamráð

Leiðari Íslenks iðnaðar í maí 2006

26. maí 2006

  • Sveinn Hannesson
Samráðið þingnefnda við hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, sem fer fram með skriflegum umsögnum og fundum í nefndum Alþingis er með þeim hætti að oftar en ekki virðist fyrirfram ákveðið að hunsa slíkar umsagnir jafnvel þó að þær séu vandaðar, vel rökstuddar og fjöldi umsagna sé á eina lund. Tilgangurinn virðist sá einn að geta fært til bókar að haft hafi verið samráð við hagsmunaaðila.

Samráð er eitt þessara orða sem hafa gjaldfallið í seinni tíð. Þar koma fyrst upp í hugann óprúttnir einstaklingar og fyrirtæki sem hafa miskunnarlaust misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Öll þjóðin fordæmir samráð um að níðast á neytendum og viðskiptavinum.

Niðurstaðan ákveðin fyrirfram

En eðlilegt og nauðsynlegt samráð á öðrum sviðum hefur einnig beðið hnekki í seinni tíð. Samráð, þar sem almenningi og fyrirtækjum er kynnt tiltekin niðurstaða sem ekki má breyta og varla heldur ræða, er hreinasta öfugmæli. Samráð af því tagi var viðhaft á frægum kynningarfundi þar sem íbúum höfuðborgarsvæðisins var kynnt fyrirhuguð lega Sundabrautarinnar. Sundabrautarsamráð fer þannig fram að boðað er til fundar til að kynna eina óhagganlega niðurstöðu stjórnmála- og embættismanna.

Lá við uppþoti

Á umræddum fundi var fólk sem sá fram á skipulagslegar ófarir á borð við þunga umferð í íbúðahverfum og margra metra háa moldarbingi fyrir utan stofugluggann. Þarna voru einnig forráðamenn fyrirtækja sem sáu að búið var að teikna hraðbraut yfir lóðir og mannvirki í þeirra eigu. Það lá við uppþoti á þessum fundi sem endaði með því að stjórnmála- og embættismennirnir bentu hver á annan og lögðu síðan á flótta. Óvænt niðurstaða varð sú að skoða þyrfti málin betur en enginn veit enn hvað út úr þeirri skoðun kemur. Vonandi gefst þó tími til að tala við þá sem málið varðar í næstu umferð.

Hvaðan koma lögin og reglurnar?

Nú kann einhver að halda að alþingismenn séu okkar helstu lagasmiðir en það er almennt ekki svo. Að vísu eiga sumir þingmenn sér einhver áhugamál og flytja frumvörp um hnefaleika, löggæslukostnað á skemmtunum eða bann við andaveiðum en reglan er sú að frumvörp einstakra þingmanna fást nánast aldrei afgreidd á Alþingi, að minnsta kosti ekki þau sem einhverju máli skipta.

Þau frumvörp, sem á annað borð koma til afgreiðslu á Alþingi, eru langoftast samin í ráðuneytum að frumkvæði einstakra ráðherra eða samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar. Sumt kemur reyndar frá Brussel og þá er helst spurning hvernig hefur tekist til við þýðinguna eða hvort embættismenn í viðkomandi ráðuneyti hafi laumað inn einhverjum áhugamálum sínum eða ráðherrans. Nokkuð algengt er að frumvörp verði til í nefndum á vegum ráðuneyta þar sem ráðherrar raða inn starfsmönnum eigin ráðuneytis, flokksbræðrum og öðrum sem treystandi er til góðra verka.

Frumvörpin fæðast fullsköpuð

Löggjafarsamkoman, sem á að afgreiða frumvörpin, kemur þarna hvergi nærri. Mál eru ekki til umfjöllunar þar á bæ fyrr en þau birtast í frumvarpsformi í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þeir sem mestra hagsmuna eiga að gæta úti í samfélaginu sitja ekki við það borð. Þegar þingflokkar stjórnarflokkanna hafa afgreitt málin er hins vegar ekki til þess ætlast að þau taki miklum breytingum í meðförum Alþingis og þaðan af síður að hlustað sé á eitthvert nöldur utan úr bæ.

Hlutverk þingnefnda

Vart finnast dæmi um að nefndir Alþingis hafi frumkvæði að því að semja lagafrumvörp sem varða starfsskilyrði atvinnulífsins enda hafa fæstir nefndarmenn nokkurn tíma sýnt því áhuga að kynna sér tillögur um úrbætur í þeim efnum. Hlutverk nefnda virðist vera að lesa yfir og afgreiða frumvörp sem koma fullbúin úr ráðuneytunum.

Umsagnir um lagafrumvörp hunsaðar

Samráðið þingnefnda við hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, sem fer fram með skriflegum umsögnum og fundum í nefndum Alþingis er með þeim hætti að oftar en ekki virðist fyrirfram ákveðið að hunsa slíkar umsagnir jafnvel þó að þær séu vandaðar, vel rökstuddar og fjöldi umsagna sé á eina lund. Tilgangurinn virðist sá einn að geta fært til bókar að haft hafi verið samráð við hagsmunaaðila.

Í hinu opna og lýðræðislega samfélagi okkar þar sem sagt er að allir þekki alla og allir hafi aðgang að stjórnmála- og embættismönnum er raunar stórmerkilegt að Sundabrautarsamráðið skuli vera jafn ríkjandi og raun ber vitni í samskiptum opinberra aðila við almenning og fyrirtæki.