Skýrari leikreglur um erlenda starfsmenn og erlend fyrirtæki
Leiðari Íslensks iðnaðar í júní 2006
Til þess að markaðslögmál virki og skili hagkvæmri niðurstöðu fyrir þá, sem á markaði starfa, þurfa leikreglurnar að vera skýrar og skiljanlegar. Ennfremur þarf að tryggja að allir fari að þeim leikreglum sem eiga að gilda. Þetta á ekki síður við á vinnumarkaði en öðrum mörkuðum. Samkomulag hefur tekist milli ASÍ og SA um tillögur í 13 liðum varð-andi erlend fyrirtæki og starfsmenn þeirra, gerviverktöku, opinber innkaup og fleira. Tillögurnar eru aðgengilegar á vefsetrum SI og SA en nokkur helstu atriðin eru rakin hér á eftir.
Samningsaðilar hafa sérstaklega lýst áhyggjum af stöðu mála í byggingastarfsemi, þjónustu tengdri mannvirkjagerð og veitingageiranum og tillögugerðin miðast fyrst og fremst við að bregðast við því ástandi sem er í þeim greinum. Gert er ráð fyrir að skipuð verði sérstök nefnd til að útfæra tillögurnar sem eru jafnframt áhersluþættir ASÍ og SA í þeirri nefndarvinnu. Stefnt skal að því að efni þeirra verði að fullu komið til framkvæmda 1. janúar 2007.
Starfsemi skráð á einum stað
ASÍ og SA telja mikilvægt í þágu skilvirkni og eftirlits að þeir, sem hafa með höndum starfsemi hér á landi, skrái starfsemi sína og starfsmenn á einum stað og skráningar-ferlið verði einfaldað eins og kostur er. Tryggja verður að öll fyrirtæki, sem reka starfsemi á Íslandi, séu skráð í fyrir-tækjaskrá hvort sem þau eru með staðfestu á Íslandi eða veita hér tímabundna þjónustu. Sérstaklega verði kannað hvort erlend fyrirtæki, sem hér veita þjónustu, hafi heimild til þeirrar starfsemi í heimalandinu.
Skráning starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja
Þegar erlend þjónustufyrirtæki hefja hér starfsemi skulu þau tilkynna Vinnumálastofnun um alla erlenda starfsmenn vari starfsemin lengur en 10 virka daga. Þá ber þeim að til-kynna án tafar um allar breytingar á starfsmannahópnum. Vinnumálastofnun getur krafist þess að skrifleg staðfesting á ráðningu og ráðningarkjörum fylgi tilkynningum.
Upplýsingaskylda erlendra þjónustufyrirtækja
Erlent þjónustufyrirtæki, sbr. lög nr. 54/2001, skal afhenda notendafyrirtæki skriflega staðfestingu þess efnis að það hafi fullnægt lagaskyldum um skráningu fyrirtækis og starfsmanna og ber notendafyrirtæki skylda til að krefjast þeirrar staðfestingar við upphaf viðskipta. Notendafyrirtæki sæti viðurlögum (sektum) hafi það ekki sinnt þeirri skyldu sinni.
Eftirlit yfirvalda á vinnustöðum og viðurlög við brotum
Koma verður á virku eftirliti Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda á vinnustöðum. ASÍ og SA leggja til að áhersla verði lögð á byggingastarfsemi, þjónustu tengda mann-virkjagerð og veitingastarfsemi. Kannað verði hvort launa-kjör erlendra starfsmanna séu í samræmi við skriflega ráðningarsamninga.
Upplýsingagjöf til fyrirtækja og erlends launafólks
Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld útbúi sameiginlegt kynningarefni um íslenskan vinnumarkað og réttindi og skyldur fyrirtækja og launafólks. Það verði sent þeim er-lendu fyrirtækjum sem hafa starfsemi hér á landi og verði einnig aðgengilegt svo að íslensk fyrirtæki geti kynnt reglurnar erlendum viðsemjendum sínum.
Meginþættir kjarasamninga verða þýddir enda nauðsynlegt að launafólk þekki réttindi og kjör á íslenskum vinnumarkaði.
Persónuskilríki á byggingarvinnustöðum
Gefin verða út sérstök persónuskilríki til að auðvelda eftirlit á vinnumarkaði og verði sérstaklega litið til byggingarvinnu-staða í því sambandi. Stjórnvöldum verði veitt heimild til að krefjast þess að starfsmenn beri, frá fyrsta starfsdegi, sýni-leg skilríki frá atvinnurekanda sínum þar sem fram kemur nafn starfsmanns ásamt mynd, kennitölu, heiti og kennitölu vinnuveitandans. Sambærilegar kröfur verði gerðar til einstaklingsverktaka.
Gerviverktaka
Gert verði sérstakt átak gegn gerviverktöku. Fyrst í stað verði sjónum beint að byggingariðnaði. Að mati ASÍ og SA er nauðsynlegt að breyta lögum um skyldu atvinnurekenda til að halda eftir af launum starfsmanna vegna skatt- og meðlagsskulda.
Opinber innkaup og kennitöluflakk
ASÍ og SA telja rétt að lögum um opinber innkaup verði breytt og gert skylt að könnuð sé viðskiptasaga tilboðsgjafa. Viðskiptasaga þeirra, sem standa að félagi (stjórnendur, stjórnarmenn, eigendur), verði metin og félag verði ekki metið hæft sem tilboðsgjafi nema skilgreindum hlutlægum kröfum sé fullnægt.
Enginn vafi leikur á að það er sameiginlegt hagsmunamál fyrirtækja og launþega að komið verði á meiri reglufestu og eftirliti á þessu sviði. Það er tímabært að sporna við svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki, skattsvikum og brotum á kjarasamningum. Heiðarlega rekin fyrirtæki geta ekki keppt við slíka starfsemi og eiga ekki heldur að þurfa að búa við slíkt ástand.