Ný víglína gegn verðbólgu

Leiðari Íslensks iðnaðar í júlí 2006

12. júl. 2006

  • Helgi Magnússon
Aðilar vinnumarkaðarins sýndu ábyrgð og frumkvæði með gerð þess kjarasamnings sem undirritaður var hinn 22. júní síðastliðinn. Aðkoma ríkisstjórnarinnar var óhjákvæmileg og samkomulag náðist við hana um niðurstöðu sem góð sátt virðist ríkja um. Samningar eru nú í gildi út árið 2007 og má vænta þess að á þeim tíma fáist mikilsverður friður á vinnumarkaðinum.

Aðilar vinnumarkaðarins sýndu ábyrgð og frumkvæði með gerð þess kjarasamnings sem undirritaður var hinn 22. júní síðastliðinn. Aðkoma ríkisstjórnarinnar var óhjákvæmileg og samkomulag náðist við hana um niðurstöðu sem góð sátt virðist ríkja um. Samningar eru nú í gildi út árið 2007 og má vænta þess að á þeim tíma fáist mikilsverður friður á vinnumarkaðinum.

Viðspyrna gegn verðbólgu

Vonast er til að þessir samningar veiti öfluga viðspyrnu gegn verðbólgu sem hefur að nýju látið kræla á sér. Verðbólgan er ógn sem enginn ábyrgur stjórnmálamaður eða forystumaður í verkalýðshreyfingunni eða hjá samtökum atvinnurekenda vill að nái fótfestu. Atvinnulífið sækist fyrst og fremst eftir stöðugleika og verðbólga er sameiginlegur óvinur fólks og fyrirtækja. Um þetta er ekki deilt.

Ríki og sveitarfélög beiti aðhaldi

Nýgerðum kjarasamningum þarf að fylgja eftir með aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum en ekki síður hjá sveitarfélögunum sem farið hafa mikinn á undanförnum árum og eiga vissulega sinn stóra þátt í of mikilli þenslu í efnahagskerfi landsmanna. Það verður erfitt og mun reyna á þá mörgu framsæknu sveitarstjórnarmenn sem nýkomnir eru út úr kosningum þar sem kosningaloforðin voru almennt ekki spöruð. Á þeim hvílir sú skylda að vinna úr aðstæðum af yfirvegun og skynsemi.

Kosningaár eru jafnan þensluhvetjandi og geta verið stórhættuleg fyrir efnahagsþróunina. Þess vegna þarf að vanda vel til verka á þessu ári og hinu næsta og freista þess að ná samstöðu um yfirvegaða efnahagsstefnu og hóflega framkvæmdagleði. Við fögnum að sjálfsögðu miklum framkvæmdahug landsmanna en allt verður þetta að rúmast innan ramma hins mögulega. Heppilegra er að þensla skapist vegna arðgefandi fjárfestinga í atvinnulífinu en vegna aukinna umsvifa og framkvæmda hins opinbera.

Viðburðarík sumarbyrjun

Óhætt er að segja að undanfarnar vikur hafi verið viðburðarríkar þegar á það er litið að kosningar fóru fram í lok maí. Til uppstokkunar kom í ríkisstjórninni og loks tókst að ljúka þríhliða kjarasamningum aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnarinnar með skömmum aðdraganda. Það næði, sem nú gefst, verður vonandi notað til uppbyggingar og til þess að treysta undirstöður efnahagsstjórnarinnar.

Þegar Halldór Ásgrímsson lýsti yfir að hann hefði ákveðið að hætta sem forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins tóku við nokkrir sólarhringar óvissu og togstreitu innan flokksins. Um tíma leit út fyrir að menn væru að missa tökin á atburðarrásinni þar á bæ. Það hefði valdið óheppilegri truflun í landsstjórninni og fært okkur fjær því að ná árangri. Það hefði dregið úr möguleikum okkar til að ráðast gegn verðbólgunni og getað valdið hættulegum töfum frá því að draga hina nýju víglínu gegn óheppilegri þróun. Sem betur fer tókst þeim framsóknarmönnum að ráða fram úr málum sínum á farsælan hátt. Halldór Ásgrímsson gat því stigið út úr ríkisstjórninni í þeirri vissu að verkefnin væru í öruggum höndum.

Geir Haarde fer vel af stað og flest bendir til þess að hann njóti mikils trausts og virðingar meðal landsmanna sem vissulega er nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra. Þá fær nýtt fólk tækifæri á ráðherrastólum og Samtök iðnaðarins fagna sérstaklega komu Jóns Sigurðssonar í stöðu iðnaðarráðherra um leið og Valgerði Sverrisdóttur er þakkað farsælt samstarf í hálft sjöunda ár.

Við trúum því að ríkisstjórn Geirs Haarde nýti sér til fullnustu þau tækifæri sem nú hafa skapast til að viðhalda stöðugleika og hamla gegn verðbólgu. Hún nýtur til þess heils hugar stuðnings aðila vinnumarkaðarins.