Aukin framleiðni er forsenda áframhaldandi hagvaxtar

Leiðari Íslensks iðnaðar í ágúst 2006

23. ágú. 2006

  • Bjarni Már Gylfason
Engum dylst að efnahagslíf okkar hefur einkennst af miklum vexti síðustu ár. Hagvöxtur hefur verið með mesta móti, atvinnuleysi lítið sem ekkert og atvinnuþátttaka í hámarki. Því er eðlilegt að spyrja hvernig hægt sé að viðhalda góðum vexti í ljósi þess að vinnuaflið er því sem næst fullnýtt. Svarið hlýtur að liggja í aukinni framleiðni svo að auka megi verðmætasköpun hvers starfsmanns. Besta leiðin til þess er að bæta menntakerfið og stuðla að traustari grunnmenntun og bættri sí- og endurmenntun.

Engum dylst að efnahagslíf okkar hefur einkennst af miklum vexti síðustu ár. Hagvöxtur hefur verið með mesta móti, atvinnuleysi lítið sem ekkert og atvinnuþátttaka í hámarki. Því er eðlilegt að spyrja hvernig hægt sé að viðhalda góðum vexti í ljósi þess að vinnuaflið er því sem næst fullnýtt. Svarið hlýtur að felast í aukinni framleiðni svo að auka megi verðmætasköpun hvers starfsmanns. Besta leiðin til þess er að bæta menntakerfið og stuðla að traustari grunnmenntun og bættri sí- og endurmenntun. Í nýrri skýrslu OECD um Ísland er fjallað nokkuð um menntamál og gerðar eru athugasemdir við það að árangur Íslendinga í menntamálum sé ekki í samræmi við efnahag þjóðarinnar. Ekkert land innan OECD leggur jafn hátt hlutfall af landsframleiðslu til málaflokksins á sama tíma og námsárangur er nærri meðaltali. Þetta hlýtur að benda til þess að fjármagnið nýtist ekki sem skyldi.

Íslendingar vinnusamir en óskilvirkir

Landsframleiðsla á mann er óvíða meiri en hérlendis og síðustu ár hefur hagvöxtur verið með mesta móti. Það vekur hins vegar athygli að landsframleiðsla á unna vinnustund á Íslandi er vel undir meðaltali OECD-ríkja. Þetta kann að virð-ast mótsögn en skýringin er sú að Íslendingar vinna  lengri vinnudag en flestir aðrir. Þá er atvinnuþátttaka hér meiri en gengur og gerist auk þess sem starfsævin er lengri hér en víða í nágrannalöndum okkar. Með þessu móti tryggjum við okkur háa landsframleiðslu og góð lífskjör. En tæpast verður lengra gengið í þessa átt. Atvinnuþátttaka verður ekki aukin frá því sem nú er og ólíklegt er að við munum sætta okkur við að lengja starfsævina. Forsenda aukins hagvaxtar og áframhaldandi velmegunar er því aukin framleiðni.

Tækifæri í menntakerfinu

Sérfræðingar OECD gera menntamál á Íslandi að umtalsefni í skýrslu sinni og eru gagnrýnir á árangur okkar í þeim efnum. Þeir benda á að börn á landsbyggðinni, sérstaklega drengir, komi illa út úr svokölluðum PISA könnunum sem eru samræmdar milli landa. Þá er sögð brýn þörf á að auka hlutfall menntaðra kennara á landsbyggðinni og auka menntun þeirra almennt. OECD bendir á að hlutfall brautskráðra úr fram-haldsskólum sé lágt en tæplega helmingur pilta útskrifast með stúdentspróf. Einnig er bent á að gjá virðist vera  milli þeirra sem hafa menntun á háskólastigi eða aðra sérmenntun og þeirra sem hafa litla sem enga menntun. Skortur er á fólki,  t.d. með starfsmenntun, eins og Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á.

Samhljómur OECD og starfsnámsnefndar

Ábendingar OECD eru áhugaverðar í ljósi nýrra tillagna starfsnámsnefndar um breytingar á heildarskipulagi framhaldsskólans. Þar er gert ráð fyrir að námið verði ein heild án aðgreiningar í bóknám og verknám. Vinnustaðanámi verði breytt, stofnað verði fagháskólastig og að samstarf framhaldsskóla og háskóla verði formgert svo að nokkuð sé nefnt. Ekki verður annað séð en að samhljómur sé í ábendingum OECD og tillögum starfsnámsnefndar. Nái þær tillögur fram að ganga er líklegt að breytingar á skipulagi skólakerfisins geti stuðlað að bættum efnahag þjóðarinnar.