Matarverðið og vextirnir
Leiðari Íslensks iðnaðar í september 2006
Ekki eru allir þeirrar skoðunar að háir vextir séu af hinu illa. Fjármagnseigendur og fjármálastofnanir njóta góðs af háum vöxtum á kostnað skuldara. Því má ugglaust halda fram að hátt matvælaverð hér á landi sé af hinu góða fyrir framleiðendur, úrvinnsluaðila og kaupmenn. Með stefnu sinni í Evrópumálum og skattlagningu matvæla eru stjórnvöld í reynd að segja íslensku þjóðinni að henni henti best að búa við háa vexti og hátt matvælaverð.
Stjórnmálamenn og kjósendur ósammála
Ekki leikur nokkur vafi á að vaxandi fylgi við aðild að ESB og upptöku evru í stað íslenskrar krónu er til vitnis um það að almenningur á Íslandi er ekki sammála þessari stefnu. Flestir forystumenn flokkanna finna ESB og evrunni allt til foráttu og hafa haft þann söng uppi um árabil. Kannanir sýna hins vegar að þeirra eigin kjósendur eru allt annarrar skoðunar. Þannig eru þeir sem afstöðu taka og vilja taka upp viðræður um ESB aðild í meirihluta í öllum flokkum. Sömuleiðis er meirihluti í öllum flokkum nema VG fyrir því að taka upp evru í stað íslensku krónunnar.
Hentar okkur best að hafa dýr matvæli og háa vexti?
Stjórnmálamenn neita að horfast í augu við þá staðreynd að vextir hér eru og verða alltaf hærri en í nágrannalöndum okkar. Við náum aldrei þeim stöðugleika verðlags og gengis sem að er stefnt. Verðbólga er hér sjaldnast innan settra verðbólgumarka. Við munum til eilífðarnóns semja hér um meiri launahækkanir en nágrannaþjóðir okkar af því að við borgum laun í íslenskum krónum. Erlendir fjármagnseigendur koma vissulega með mikið fé inn í íslenska hagkerfið um þessar mundir en þeir fjárfesta ekki í íslenskum atvinnurekstri. Þeir koma einungis til að hirða vaxtamun þegar vextir hér eru orðnir 3-4 faldir miðað við nágrannalöndin. Þannig hafa spákaupmenn tekið íslensku krónuna í gíslingu. Matvælaverð hér var, síðast þegar það var skoðað, 48% hærra en að meðaltali í ESB. Sú staða hefur versnað ef eitthvað er. Almenningur í landinu er ekki sáttur við þetta en stjórnvöld telja að þetta sé okkur fyrir bestu.
Ekkert gerist
Því er haldið fram að aðild að ESB hafi ekkert með matvælaverð að gera. Við getum sjálf breytt sköttum og tollum á matvælum. Þetta er ugglaust fræðilega hægt rétt eins og það er fræðilega hugsanlegt að hér verði einhvern tíma sömu eða lægri vextir heldur en í evru-löndunum. Gallinn er bara sá að þetta gerist ekki.
Hvað gerðu Svíar?
Á fróðlegum fundi, sem SVÞ stóðu fyrir nú nýlega, rakti Tomas Svaton frá Svensk Dagligvaruhandel þróun matvælaverðs í Svíþjóð undanfarin 15 ár. Neysluvísitalan í Svíþjóð hefur hækkað um 35% en matvælaverð innan við 5%. Getum við eitthvað lært af Svíum í þessum efnum? Hvernig fóru þeir að?
- Þeir drógu verulega úr innflutningshömlum og niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum upp úr 1990.
- Þeir gengu í ESB 1995 og afnámu þar með hindranir í viðskiptum með matvæli innan ESB.
- Þeir afnámu vörugjöld og settu öll matvæli í eitt VSK þrep sem er 12% en almennt er VSK 25% í Svíþjóð.
- Þeir hafa fengið inn á sænska markaðinn samkeppni frá stórum matvörukeðjum í Evrópu sem ekki höfðu áður haft áhuga á að starfa á sænskum matvörumarkaði.
Við vitum hvað þarf að gera:
Afnema tolla og hindranir. Lagfæra skattlagningu og afnema vörugjöld og tryggja öfluga samkeppni á markaði. Því miður segir reynslan okkur að flest þau framfaraspor, sem stigin hafa verið hér á landi varðandi frelsi í viðskiptum og skýrar og eðlilegar leikreglur á markaði, hafa komið að utan og oftar en ekki hefur þeim verið þvingað upp á okkur á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga. Stærsta skrefið í þeim efnum er auðvitað EES-samningurinn. Það er alveg rétt að við getum ýmislegt gert til að lækka matvælaverð á Íslandi en það gerist bara ekkert.
Eðlilegar áhyggjur
Íslenskur framleiðsluiðnaður fékk 10 ára aðlögunartíma þegar tollar voru felldir niður af iðnaðarvöru með samningum um EFTA aðild og fríverslunarsamningum við Efnahagsbandalag Evrópu sem þá var. Það er alveg skiljanlegt að þeir sem starfa í íslenskum landbúnaði og úrvinnsluiðnaði hafi af því áhyggjur þegar lagt er til að minnka eða fella niður þá miklu tollvernd sem nú er hér á landi. Því var líka spáð að finnskur og sænskur úrvinnsluiðnaður myndi að mestu leggjast af með ESB aðildinni. Sú varð ekki raunin en það urðu verulegar breytingar í iðnaðinum. Nú sýna tölur hins vegar að sala hefur aukist í þessum iðnaði og Svíar flytja nú út mun meira af landbúnaðarvörum en þeir áður gerðu.
Í ökkla eða eyra
Eðlilegt og best væri að tollar og aðrar viðskiptahindranir á sviði landbúnaðarvara væru afnumdar í áföngum og með alþjóðlegu samkomulagi á vettvangi WTO. Þess vegna er beinlínis átakanlegt að sjá að við Íslendingar erum í hópi þeirra þjóða sem harðast beita sér gegn tollalækkunum á landbúnaðarafurðir en heimtum síðan fríverslun með fisk og ætlum síðan að gera fríverslunarsamning við Kína sem ekkert vestrænt ríki hefur treyst sér til að gera. Áhugi okkar á fríverslun er vægast sagt ýmist í ökkla eða eyra.