Loksins, loksins

Leiðari Íslensks iðnaðar í október 2006

11. okt. 2006

  • Sveinn Hannesson

Litið hafa dagsins ljós tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð. Þessar tillögur koma á óvart að því leyti að þær ganga lengra og eru róttækari en flesta óraði fyrir. Samtök iðnaðarins fagna þessum tillögum en hvetja jafnframt stjórnvöld til að stíga skrefið til fulls og afnema vörugjöld endanlega af öllum matvælum.

Litið hafa dagsins ljós tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð. Þessar tillögur koma á óvart að því leyti að þær ganga lengra og eru róttækari en flesta óraði fyrir.

Öll matvæli með 7% VSK

Öll matvæli bera frá og með 1. mars nk. 7% VSK samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Þetta er furðu mikil breyting á skattlagningu matvæla sem nú bera almennt 14% VSK en mest er þó breytingin hvað varðar þau matvæli sem nú bera 24,5% VSK.  Til samanburðar var sams konar breyting gerð í Svíþjóð fyrir rúmum áratug en þar varð niðurstaðan sú að leggja 12% VSK á öll matvæli.

Vörugjöld eru afleitur skattur

Vörugjöld hafa um margra áratuga skeið verið innlendum framleiðendum og Samtökum iðnaðarins mikill þyrnir í augum  Þetta tvöfalda kerfi neysluskatta hefur víðast hvar verið lagt af.  Þetta er skattheimta sem er neytendum ósýnileg. Hún veldur bjögun í verðlagningu sem veitir skjól fyrir óeðlilega verðlagningu á staðgönguvörum.  Vörugjöldin mismuna framleiðendum og neytendum og eru á flestan hátt afleit skattheimta. 

Vörugjöldin hverfa af matvælum – að mestu

Ríkisstjórnin ætlar að afnema vörugjöld af öllum innlendum og innfluttum matvælum öðrum en „sykri og sætindum“ með einu pennastriki 1. mars næstkomandi.  Þetta er einnig afar mikil og jákvæð breyting. Þarna erum við að feta sömu slóð og flestar nágrannaþjóðir okkar sem horfið hafa frá skattlagningu af þessu tagi.

Sykurskattur er óframkvæmanlegur

Samkvæmt tillögunum eiga reyndar að standa eftir leifar af vörugjöldunum í formi sykurskatts.  Vörugjöldin voru áður lögð á einhvern óskilgreindan lúxusvarning en eftirleiðis á skatturinn sem sagt eð leggjast á „sykur og sætindi.“  Þetta er reyndar óframkvæmanlegt vegna þess að ef skattleggja á sykur sérstaklega þarf að skattleggja aragrúa alls konar matvæla sem innihalda sykur.  Það gengur ekki að skattleggja sykur sem fluttur er til landsins en sleppa alls konar innfluttum matvælum sem innihalda sykur.  Því verður vart trúað að ætlunin sé að setja vörugjöld á öll þau matvæli sem innihalda einhvern sykur sem fluttar eru inn eða framleiddar hér á landi. Hvað má vara innihalda mikinn sykur án þess að á hana leggist sykurskattur? Hvað með önnur sætuefni? 

Stjórnvöld eru hvött til þess að endurskoða þennan þátt í annars góðum tillögum og stíga skrefið til fulls og afnema vörugjöld endanlega af öllum matvælum.

Aðrar breytingar í rétta átt

Virðisaukaskattur af annarri vöru og þjónustu sem verið hefur í lægra VSK-þrepinu á einnig að lækka úr 14,0% í 7,0%. Þarna er um að ræða t.d. bækur og blöð, húshitun og hótelgistingu.  Síðan er ætlunin að lækka VSK af veitingaþjónustu úr 24,5% Í 7,0% á sama tíma. 

Að lokum er í tillögunum gert ráð fyrir að lækka almenna tolla á unnum kjötvörum (í 2. kafla tollskrár) um allt að 40%.  Ekki liggur ljóst fyrir hvernig sú lækkun er hugsuð, þar sem umræddar vörur bera bæði 30% verðtoll og að auki magntolla allt upp í rúmar 1400 kr. á kg. 

Loksins, loksins

Þessar tillögur eru stórt skref og löngu tímabært í þá átt að færa matvöruverð á Íslandi nær því sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. 

Í leiðara Íslensks iðnaðar í september sl. var því haldið fram að við Íslendingar gætum á eigin spýtur breytt sköttum og tollum á matvælum. Gallinn væri bara sá að þetta gerðist ekki.  Nú hefur einmitt þetta gerst og mjög í þeim anda sem SI hafa lengi barist fyrir árum saman.  Því ber að fagna.