Íbúalýðræði og atvinnulíf

Leiðari Íslensks iðnaðar í nóvember 2006

23. nóv. 2006

  • Sveinn Hannesson
Flest bendir til að framundan sé atkvæðagreiðsla í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík. Við fyrstu sýn er þetta sniðug hugmynd. Íbúalýðræði er nútímalegt fyrirbæri og vinsælt meðal stjórnmálamanna ekki síst í aðdraganda kosninga og þegar tekist er á um viðkvæm deilumál. Þegar betur er að gáð er þetta hins vegar alls ekki góð hugmynd.

Flest bendir til að framundan sé atkvæðagreiðsla í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík. Við fyrstu sýn er þetta sniðug hugmynd. Íbúalýðræði er nútímalegt fyrirbæri og vinsælt meðal stjórnmálamanna ekki síst í aðdraganda kosninga og þegar tekist er á um viðkvæm deilumál. Þegar betur er að gáð er þetta hins vegar alls ekki góð hugmynd.

Álverið í Straumsvík hefur verið þar lengi

Í fyrsta lagi er of seint að greiða atkvæði um það hvort byggja eigi álver í Straumsvík. Álverinu var valinn staður fyrir 35 árum og fullseint að fara að greiða atkvæði um það núna. Álverið hefur verið kyrrt á sínum stað en byggðin í Hafnarfirði hefur hins vegar nálgast álverið. Ef til vill hefði verið nær að greiða um það atkvæði fyrir löngu hversu nálægt álverinu ætti að byggja.

Vinsældakosning forsenda starfsleyfis?

Í öðru lagi hefur álverið keypt lóð vegna fyrirhugaðrar stækkunar og síðan unnið viðamikið umhverfismat og annað það sem til þarf vegna stækkunar álversins. Allir vita að það er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt verkefni að undirbúa stórframkvæmd af þessu tagi. Flestum þykir nóg um alla þá þætti sem þarf að skoða, meta og rannsaka til þess að fá starfsleyfi. Hér virðist ætlunin að bæta enn einni hindrun á þessa leið í formi atkvæðagreiðslu. Slík atkvæðagreiðsla meðal íbúa á nærliggjandi svæði á sér hvergi á stoð í opinberum reglum. Hér er verið að breyta leikreglunum eftir á. Íþyngjandi afturvirkar reglur eru alltaf í meira lagi vafasamar.

Margar spurningar vakna

Enginn veit hvernig standa á að slíkri atkvæðagreiðslu og vakna margar spurningar í því sambandi: Hvernig er staðið að kynningu til kjósenda? Hver ber kostnað af nauðsynlegri kynningu? Er ekki líklegt að fámennur hópur áhugamanna og jafnvel niðurrifsmanna verði alls ráðandi í slíkri atkvæðagreiðslu en almenningur láti sér fátt um finnast? Er niðurstaðan bindandi? Hverjir eiga að greiða atkvæði í svona kosningu? Eiga aðeins þeir sem best þekkja og vinna í álverinu og þeirra fjölskyldur að kjósa? Eiga allir íbúar á höfuðborgarsvæðinu eða öllu landinu að greiða atkvæði? Varðar þetta mál ekki fleiri en Hafnfirðinga?

Misheppnað fordæmi

Eitt örfárra dæma um tilraun til íbúalýðræðis hér á landi var hin einkennilega atkvæðagreiðsla um Reykjavíkurflugvöll um árið. Hún gaf enga niðurstöðu og var ekki bindandi. Þátttaka var lítil og enginn valkostur gefinn. Einungis spurt hvort flugvöllurinn ætti að fara eða vera. Einungis íbúar Reykjavíkur voru spurðir. Þegar tillögur um það hvar og hvernig innanlandsflug á að vera í framtíðinni, verður ef til vill tímabært að greiða atkvæði að nýju.

Margir mega eiga von á að verða kosnir út í hafsauga

Sú spurning vaknar hvað yrði um fjöldann allan af fyrirtækjum innan Samtaka iðnaðarins ef þeim yrði gert að taka þátt í slíkri atkvæðagreiðslu í sínu sveitarfélagi. Steypu- og malbikunarstöðvum yrði úthýst. Stórar og „ljótar“ vöruskemmur og verksmiðjur færu sömu leið. Efnaiðnaður, geymsluport, dráttarbrautir og endurvinnslustöðvar fengju ekki mörg atkvæði nema helst frá þeim sem þar starfa. Hið sama ætti við um fiskvinnslu og aðra matvælavinnslu enda fylgja slíkri starfsemi óþrif og ólykt. Næst yrði atkvæðagreiðsla um samgöngumál. Þar yrði niðurstaðan sú að kjósendur myndu vilja greiðar samgöngur en myndu hafna allri þungaumferð í eigin nágrenni. Þannig mætti áfram greiða atkvæði um hvaðeina sem ráðamenn treysta sér ekki til að axla ábyrgð á.

Flestir andvígir því sem þeir ekki þekkja

Ef auka á íbúalýðræði í reynd væri rétt að leyfa almenningi að hafa skoðun og jafnvel áhrif á skipulagsmál almennt. Það kemur vissulega vel til greina að almenningur fái að tjá sig um almennar leikreglur sem gilda um atvinnurekstur í landinu t.d. á sviði umhverfismála. Það er hins vegar flótti frá eigin ábyrgð að henda umdeildum ákvörðunum um staðsetningu einstakra fyrirtækja í kosningu þar sem kjósendurnir hafa engar forsendur til að taka efnislega afstöðu. Þá greiða menn atkvæði á þeirri forsendu að öruggast sé að vera á móti því sem þeir þekkja ekki.

Vindhanar eru afleitir stjórnmálamenn

Í Noregi er flokkur sem kallaður er Framfaraflokkurinn og nýtur mikils fylgis. Flokkurinn gerir að sinni stefnu hugmyndir sem taldar eru eiga hljómgrunn hjá almenningi á borð við þær að verja peningum úr digrum Olíusjóði Norðmanna og takmarka innflutning fólks af erlendum uppruna. Hins vegar þegar kemur að mikilvægum málefnum á borð við aðild Noregs að ESB, þar sem vitað er að skoðanir eru skiptar, þá tekur flokkurinn ekki afstöðu. Forráðamenn hans vilja afgreiða málið með þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að hafa sjálfir neina stefnu. Þeir snúast eftir almenningsáliti líkt og vindhanar eftir því hvernig vindurinn blæs. Það eru afleitir stjórnmálamenn sem þannig vinna.